30.01.1951
Efri deild: 58. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í B-deild Alþingistíðinda. (1626)

95. mál, skipun prestakalla

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Eftir hina ágætu og skörulegu ræðu hv. form. og frsm. menntmn. hefði ég gjarnan getað fallið frá orðum mínum hér núna. Það er vafalaust rétt hjá hv. þm. Barð., að þetta mál er bæði stórt og viðkvæmt, enda hefur verið reynt að fara þannig að því, að ekki verði tekið á hinni viðkvæmari hlið þess, heldur er aðeins lagt til, að lögð verði niður þau prestaköll, sem staðið hafa auð og engin þörf er á lengur vegna breyttra staðhátta, sem eru einkum fólgnir í fækkun fólks og betri samgöngum en áður. Eins og hv. frsm. gat um, var málið undirbúið af skipulagsnefnd prestssetra, sem sendi álitsgerð til kirkjumálaráðuneytisins, undirritaða m.a. af Sveini Víking. Í því áliti segir m.a.: „Að athuguðu máli telur nefndin geta komið til mála að leggja niður allt að 11 sveitaprestssetur og sameina sóknir þeirra nágrannaprestaköllunum.“ Nú hefur málið tekið þeim breytingum í meðferð menntmn., að frekar er dregið úr þeim till., sem þessi nefnd gerði, en hvergi farið út fyrir þær. Það hefur því verið reynt að taka ekki með inn í frv. nema það eitt, sem minnstur ágreiningur er um. Hv. þm. Barð. hefur flutt till. til rökst. dagskrár í málinu, þar sem hann telur aðalástæðurnar fyrir flutningi hennar þessar: Í fyrsta lagi, að það beri að senda viðkomandi sóknarnefndum till. um breytingu á prestaköllum til umsagnar og að reyna að finna leið, sem forustumenn kirkjunnar geti fellt sig við. Nú er það auðsætt, að forustumenn kirkjunnar munu alltaf beita sér gegn fækkun prestakalla, og því lítt hugsanlegt, að hægt verði að ná samkomulagi við þá um þetta atriði. Og ég hygg, að það muni löng bið á því, að hægt verði að fækka prestaköllunum með þeirra samþykki. Ef þessi fækkun, sem hér er lögð til, sætir andstöðu af þeirra hálfu, þá má ætla, að andstaða þeirra verði enn sterkari, ef gerðar verða frekari breytingar í þessum efnum. Ég hygg því, að ef senda ætti málið til sóknarnefndanna til umsagnar, þá yrði það aðeins til að panta mótmæli, en það tel ég ástæðulaust, þegar um er að ræða svo sjálfsagða breyt. sem þessa. — Önnur meginástæða hv. þm. fyrir sinni rökst. dagskrá er sú, að það beri að athuga möguleika á stofnun heiðursprestakalla á Þingvöllum og Rafnseyri. Nú hefur hv. frsm. menntmn. bent á þriðja staðinn í þessu sambandi og þá staðreynd, að erfitt yrði að ganga fram hjá Skálholti, ef farið yrði að stofna slík heiðursprestaköll. Annars er mér ekki ljóst, hvað hv. þm. ætlast til, að eigi að felast í starfi þessara heiðurspresta umfram hin venjulegu prestsstörf, að vera sálusorgari sinna sóknarbarna, en mér finnst, að það þyrfti að úrskurða, áður en málið yrði tekið til alvarlegra umræðna. Ég skal játa, að sú till. hv. þm. að koma á stofn slíkum prestaköllum er mér ekki ógeðfelld í sjálfu sér, en mér finnst það algerlega sjálfstætt mál í eðli sínu og eigi ekki að blanda því inn í deilur um þetta frv., sem hér liggur fyrir. Og eins og hv. þm. Barð. tók líka fram, þá eru rökin fyrir þeirri till. hans ekki miðuð við það, að tekið verði tillit til staðhátta, en á því er frv. einmitt byggt. Nú veit ég ekki betur en starfandi sé nefnd, sem á t.d. að fjalla um skipulag Rafnseyrar, og ef það er áhugamál þeirrar nefndar, að Rafnseyri verði gerð að heiðursprestssetri, þá ætti hún að athuga það mál sérstaklega og koma því á framfæri án tengsla við þetta frv. hér um fækkun prestakalla. Ég held, að það mundi verða málinu heppilegast að öllu leyti að taka það upp sérstaklega og vildi skjóta því til hv. þm. Barð., hvort hann gæti ekki fallizt á það.

Ég er andvígur þessari rökst. dagskrá, í fyrsta lagi vegna þess, að ég tel vonlitið, þó að málinu verði nú skotið á frest, að þá verði hægt að finna leið, sem forustumenn kirkjunnar geti fallizt á, því að sú leið er sennilega ófinnanleg. Og ég held, að málið vanti alls ekki undirbúning. Í öðru lagi er ég andvígur henni vegna þess, að ég tel, að hugmyndinni um stofnun heiðursprestakalla sé varpað hér inn í alveg óskylt mál og að ófyrirsynju. Og í þriðja lagi vegna þess, að hér er um það frv. að ræða, sem sjálfsagt er, að nái fram að ganga, þar sem aðeins er tekið til úrlausnar það eitt, sem minnstum deilum veldur. Hér er aðeins um að ræða prestaköll, sem eru þegar prestslaus, og því ekki verið að bægja frá neinum presti. Hins vegar er engum vafa bundið, að breytingin mundi verða til mikils sparnaðar, og stefnu í þessa átt ber vafalaust að taka. Ég er því andvígur dagskrártill. hv. þm. Barð. og tel, að svo hófleg till. til úrbóta í þessum prestakallamálum, sem hér liggur fyrir, eigi mjög mikinn rétt á sér.