02.03.1951
Efri deild: 80. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 734 í B-deild Alþingistíðinda. (1672)

193. mál, verðlag og dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Það er ekki ein báran stök hjá ríkisstj., þegar hún leggur í það að ætla að bjarga þjóðinni. Nál. á þskj. 763 er að ýmsu leyti merkilegt plagg, ekki samstæða, heldur samsuða í hæsta máta. Má segja, að n. leysist þar upp í sína frumparta, því að svo eru nm. skiptir. Einn nm. leggur til, að frv. verði fellt, annar leggur til, að 2. og 3. gr. falli burt, sá þriðji leggur til, að 3. gr. falli burt. Grunar mig, að hinir tveir séu ekki alveg sammála, þótt ekki væri um annað en að formið á frv. er stórkostlega gallað. Jafnvel ráðh. sjálfur kemst að þeirri niðurstöðu, að formið sé ekki sem bezt og ekki til fyrirmyndar. Þetta allt minnir mig á stöku, sem ég lærði einu sinni og hljóðar svo:

„Skrattinn fór að skapa mann.

Skinnlaus köttur varð úr því.

Helgi Pétur hjálpa vann,

húðina færði dýrið í.“

Helgi Pétur er líklega hv. 11. landsk. þm., sem streittist við að koma húðinni á kroppinn, og fór hún ekki vel. — Mig furðar stórkostlega á þessari gerð ríkisstj., og tala ég í fyllstu alvöru. Þing kom ekki saman eftir jól í því skyni að unga út svipuðu frv. og hér er til umr., heldur til að finna lausn á örðugleikum bátaútvegsins. Tvo og hálfan mánuð hefur það tekið ríkisstj. að klekja þessu út, og þegar það kemur, er sköpulagið á skepnunni eins og hér sést. Þetta er ekki af því, að hlutaðeigandi menn séu slíkir ambögusmiðir, heldur er verkefnið illt, því að það er reynt að láta það lita svo út sem verið sé að gera annað en í raun og veru er verið að gera. Það, sem verið er að gera, er að leggja nýja skatta á þjóðina, sem munu nema 50–60 millj., og verða miklu meiri skattar vegna milliliðagróðans. Þessu er reynt að leyna, og er ekki um það einn stafur í frv., og er því von, að smíðin gangi ambögulega. Þótt fjhn. hafi reynt að hjálpa ríkisstj. til að koma þessu saman, tel ég, að mikið skorti á, að svo hafi verið bættur búningur frv., að viðhlítanlegt sé frá almennu og þinglegu sjónarmiði. Ríkisstj. hefur enga heimild í lögum til að leggja þessa skatta á þjóðina, sem í frv. felast. Er það víst, að það eru ein lög, sem nauðsyn er að gera breytingu á, ef bókstafur laganna á að mæla svo fyrir. Það eru lögin um fjárhagsráð. Í 2. gr. 2. tölulið þessara laga segir, að fjárhagsráð eigi að miða störf sín við eftirfarandi:

„Að öllum vinnandi mönnum og þó sérstaklega þeim, sem stunda framleiðsluvinnu til sjávar og sveita, séu tryggðar réttlátar tekjur fyrir vinnu sína, en komið í veg fyrir óeðlileg sérréttindi og spákaupmennsku.“

Ég sé ekki, að þessi grein geti staðizt, ef framkvæmd laganna er eins og ráðh. gaf yfirlýsingu um. Sjómenn eru ráðnir upp á hlut og fá það verð, sem fæst fyrir fiskinn, að frádregnum kostnaði við söluna. Það er fullvíst, að ef þetta frv. nær fram að ganga, fá þeir ekki rétt verð fyrir fiskinn. Í 3. lið sömu greinar segir:

„Að neytendur eigi kost á að kaupa neyzluvörur sínar og framleiðendur rekstrarvörur sínar á hagkvæmasta hátt og vörukaup til landsins og vörudreifing innanlands gerð eins ódýr og hagkvæm og frekast er unnt.“

Öll störf fjárhagsráðs eiga að miðast við þetta, svo framarlega sem skattur er ekki lögboðinn. Er fjárhagsráði skylt að sjá um, að varan sé með því verði, sem hægt er að fá það ódýrast, miðað við lögskráð gengi peninganna. Ég held því fram, að það sé óheimilt að hafa þá skipan á innflutningi, sem frv. greinir, án þess að fá frekari heimild frá Alþingi. Vil ég beina því til hæstv. ráðh. og fjhn., að þau taki til gaumgæfilegrar athugunar fyrir 3. umr., hvort ekki muni hægt að ráða á þessu bót. Ofan á vörudreifinguna á að bæta á B-listavörur 50–60%. Það þarf ekki að hafa mörg orð um jafnaugljósan hlut og þann, að af þessari síðustu ráðstöfun ríkisstj. hlýtur að leiða stórkostlega nýja verðhækkun, ekki einasta á þeim vörum, sem teknar verða á þennan nýja B-lista, heldur líka á ýmsum öðrum vörum, vegna þess að verðlag á vörum á listanum og verðlag á ýmsum skyldum vörum hlýtur að leita nokkuð jafnvægis hvort við annað, og sjálfsagt verður erfitt fyrir kaupendur að flokka vörurnar og vita, hvað eru A-, B- eða C-lista vörur, þó að hæstv. ríkisstj. komi þessum listum út. Annað er líka augljóst í þessu máli, nefnilega það, að eigi útgerðarmenn þess ekki kost að fá lán til að kaupa vörurnar sjálfir og flytja til landsins, sem vitað er, að ekki nema fáir geta, þá verða þeir að selja leyfin öðrum innflytjendum og verða þá að taka þeim kjörum, sem bezt bjóðast, og því færri sem hafa möguleika á að flytja inn sjálfir, því meir eru þeir ofurseldir heildsölum og öðrum, sem vilja kaupa af þeim gjaldeyrísskírteinin. Það má því fullyrða, að áhættan, sem fylgir þessu, lendi á milliliðunum, en þá um leið áhættuþóknunin, sem verður mikil með þeirri ótakmörkuðu álagningu, sem gert er ráð fyrir. Setjum nú svo, að smákaupmenn geti keypt þessi leyfi, þá þurfa þeir til þess að fá fjármagn að láni hjá bönkunum. Meining hæstv. ríkisstj. er að safna nú birgðum hjá verzlununum. Gott er nú það. En til þess að safna birgðum þurfa þeir, sem verzlanirnar reka, að fá fé til að geta keypt þær birgðir. Smákaupmaður hefur sagt mér, að til að birgja sig sæmilega upp af vörum, þyrfti hann að auka sitt veltufé um 200–300 þús. kr. Hann segist ekki geta fengið fé að láni til þess hjá bönkunum. Hver verður afleiðingin? Hvar verður birgðasöfnunin? Hún verður sú, að fésterkustu fyrirtækin, heildsölufyrirtækin, safna heildsölubirgðum og selja þær svo með lagerverði út til smákaupmannanna, þ.e., stórsalarnir koma sér upp heildsölum og safna birgðum og selja svo út af þeim lager með hærra verði en smákaupmenn. Það hnígur því allt að einu, því, að fjölgun milliliða og hækkun milliliðagróða hækkar vörurnar í verði og reytir meir og meir af þeim, sem vörurnar kaupa og ekki geta verið án þess að fá þær.

Þegar 3. kafli fjárhagsráðslaganna var felldur úr gildi og lögin um verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdóm sett, þá var því lýst yfir af hæstv. ríkisstj., að með þeim lögum væri verðlagseftirlit lagt í hendur neytenda sjálfra og nú skyldi verðlagseftirlit, sem fram að þessu hafði verið talið heldur slakt, verða röggsamlegt; nú væri það í höndum neytenda sjálfra, og nú þyrfti ekki að óttast of hátt verð á vörunum. Þetta átti að tryggja með því, að sérstaka nefnd, sem um ræðir í 7. gr. þessara laga, svo kallaða verðlagsnefnd, átti að skipa, og hún átti síðan að útnefna verðlagsstjóra, sem síðan hefði framkvæmdir með höndum á verðlagseftirlitinu. Þessa nefnd skyldi skipa þannig: Alþýðusamband Íslands átti 1 fulltrúa, B.S.R.B. 1 fulltrúa, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands 1 fulltrúa, Kvenfélagasamband Íslands 1 fulltrúa, Landssamband iðnaðarmanna 1 fulltrúa, L.Í.Ú. 1 fulltrúa og Stéttarsamband bænda 1 fulltrúa. Þetta áttu að vera fulltrúar neytenda. Nú átti verðlagseftirlit að vera komið í hendur neytenda sjálfra.

Þess má geta, að síðan þessi lög voru sett, hafa ýmsir flokkar vörutegunda verið teknir undan verðlagseftirliti, þó að ekkert spor hafi verið stigið, sem líkist þessu. Það er svo að sjá, að það atriði, sem hér liggur fyrir, þ.e. að fella niður verðlagseftirlit á B-listavörunum, hafi alls ekki verið borið undir þessa trúnaðarmenn neytenda, og ég veit, að það hefur ekki verið gert. Það hefur verið gengið fullkomlega fram hjá þessari nýju stofnun, sem átti að gæta réttar neytenda. Það verður ekki séð, að hæstv. ríkisstj. hafi nokkurn tíma á þessum 2 mánuðum talað við hana, og ég veit, að hún hefur ekki gert það, — ég hef upplýsingar um það frá nefndinni sjálfri. Það er ekki nóg með það, því að samkv. þessu frv. getur hæstv. ríkisstj. hvort sem er fellt niður allt verðlagseftirlit á öllum vörum í landinu, sleppt því öllu lausu. Það liggja fyrir ummæli eins hæstv. ráðh. í eldhúsdagsumræðunum og oftar, sem sýna og sanna, að þetta er ætlun hæstv. ríkisstj., að samkeppnin ráði verðlaginu, að samkeppnin sé bezta verðlagseftirlitið. Fjárhagsráð getur með einfaldri auglýsingu ákveðið að fella niður verðlagseftirlit hvar sem er, og það verður ekki séð, að það þurfi að ræða neitt um það við hæstv. ríkisstj., væntanlega lætur ríkisstj. fjárhagsráð vita sínar óskir í þessu efni, og ég vil ekki bera brigður á, að það sé gert. — Nú hefur verið skipaður verðlagsstjóri, og hann hefur sýnt fullan vilja og viðleitni til að hafa áhrif með starfi sínu.

En til að bæta örlítið úr þessum ágöllum frv. vil ég leyfa mér að bera fram brtt. við frv., sem lýtur að þessu og er við 1. gr., þannig:

„Aftan við greinina bætist: en jafnan skal þó fjárhagsráð leita álits og umsagnar verðgæzlunefndar, sbr. 2. gr., áður en verðlagsákvæði eru felld úr gildi.“

Ég fæ ekki betur séð en þetta sé það allra minnsta, sem ætlast má til af ríkisstj., að álits nefndarinnar væri leitað áður en verðlagsákvæði eru felld úr gildi. Það eru 7 menn, sem nefndina skipa og ríkisstj. hélt fram að væru umboðsmenn neytenda í landinu, settir til að gæta hagsmuna þeirra, og það má ekki minna vera en þeim sé gefinn kostur á að láta í ljós sitt álit áður en svo langt er gengið að fella niður verðlagsákvæði að miklu eða öllu leyti.

Ég vil taka það fram, að jafnvel þótt brtt. mín verði samþ., þá er stefna frv. í heild sinni slík, að ég get ekki greitt því atkvæði. Ég mun því greiða atkv. gegn frv., þó að þessi till. mín nái samþykki deildarinnar, en tel þó, að með henni sé örlítil viðleitni sýnd í þá átt að taka tillit til stofnunar, sem hæstv. ríkisstj. hefur sjálf sett.

Að því er snertir 2. gr. frv., teldi ég, að þar þyrfti að gera breytingu í þá átt, er fram kom í nál. meiri hl., og einnig enn frekari breytingar.

Ég skal svo láta máli mínu lokið, en ég tel frv. þannig, að bezt sé fyrir deildina að fella það, ekki einasta vegna þeirra galla, sem á formi þess eru, heldur fyrst og fremst vegna þeirra ákvæða, sem í því eru og tvímælalaust verða til að þyngja hag almennings stórkostlega.