02.03.1951
Efri deild: 81. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 739 í B-deild Alþingistíðinda. (1678)

193. mál, verðlag og dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. 2. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Mínar till. á þskj. 764 hafa nú verið felldar.

Eins og ég hélt fram bæði í nál. mínu og framsöguræðu minni, þá bar ég þessar brtt. mínar fram aðeins vegna formsatriða, en ekki af efnislegum ástæðum. Málið hefur nú verið fært í nokkru skárra form fyrir tilstilli meiri hl. fjhn., og hefur hæstv. ráðh. lýst því yfir, að hann sætti sig við þá breytingu. Mun ég því ekki gera þetta að neinu deiluefni, heldur fylgja frv. eins og það nú er orðað.

Ég ætla nú að leyfa mér að svara hv. 1. landsk. út af hans ummælum. Hann sýndi mér þann heiður að skjóta geiri sínum til mín, en ekki hæstv. ríkisstj., og gerðist þar með hálfgerður stuðningsmaður stjórnarinnar! — en m.a. sagði hann, að ég væri oft og tíðum „hálfóþekkur ríkisstjórninni“. — Hv. þm. sagði m.a., að það mætti vera aumt verðlagseftirlit, sem ekki væri betra en ekki neitt. En ég veit ekki betur en hans ágæta blað hafi nú undanfarið deilt ákaft á verðlagseftirlitið í sambandi við verð á olíu, og það alveg réttilega. Það hefur verið upplýst, að hún hefur verið seld hærra verði en hámarksverðíð er hjá verðlagsstjóra, og hefur hann ekki fengizt til þess að taka málið þeim tökum, sem honum ber, til þess að fá olíuna lækkaða, og er þetta bezta dæmið um það, hve mjög verðlagseftirlitið er til einskis. Ég held því, að hv. þm. ætti að lesa betur sína eigin biblíu til þess að sannfærast um, að við séum á sama máli hvað þetta snertir. Og þess vegna var ég með í því að fella till. 4. þm. Reykv., vegna þess að verðlagseftirlitið er hreint „humbug“, og það undir stjórn flokksbróður 4. þm. Reykv.!

Hv. 4. þm. Reykv. taldi, að þessi löggjöf bryti í bága við lögin um fjárhagsráð — 2. tölulið 2. gr. þeirra laga — og sagði, að það væri víst, að sjómenn fengju ekki réttlát laun, ef þetta frv. yrði samþykkt. Ég hélt, að þessi löggjöf væri nú fyrst og fremst til þess að tryggja, að menn, sem veiða fisk, fái hærra verð fyrir hann, og auðvitað fá þeir menn, sem afla fisksins, hlutdeild í hinu hærra verðlagi og bera þar af leiðandi meira úr býtum.

Ég skal svo ekki ræða þetta mál nánar, en mun greiða frv. atkvæði mitt út úr deildinni þrátt fyrir þá formgalla, sem ég álít, að á því séu.