03.03.1951
Neðri deild: 78. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 745 í B-deild Alþingistíðinda. (1692)

193. mál, verðlag og dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Hv. 8. landsk. þm. hefur lýst skilmerkilega ráðum ríkisstj. til að ráða fram úr vanda sjávarútvegsins. Ég segi, að ef þetta er eina leiðin, sem er lögð hér fyrir Alþingi þessu viðkomandi, þá er betra að gefa engin loforð. Ég fæ ekki séð, að með þessum breyt. sé útvegsmönnum á nokkurn hátt tryggt, að þeir geti notfært sér þau hlunnindi, sem stjórnin heitir. Mig uggir, ef ekki verða gerðar aðrar ráðstafanir, að þá sé hætta á, að það fari svo, að nokkrir braskarar í landinu hagnist á þessum ráðstöfunum, en ekki útvegsmenn í heild. Ég teldi það illa farið, þótt ætlunin sé ekki, að svo verði, þó að hætta sé á, að sú verði niðurstaðan. Ég vil spyrja hæstv. viðskmrh., hvort ekki sé von á öðrum lögum í sambandi við þetta mál. Ef svo er ekki, þá vil ég spyrja, hvernig stj. hyggst tryggja, að útvegurinn geti notað sér þessi fríðindi, hvaða ráðstafanir hún hyggst gera til þess að óviðkomandi menn hafi ekki allan hag, en útvegurinn og þjóðin allt ógagn, sem lögin kunna að valda. Nú hefur hæstv. ríkisstj. haft það á orði, að þó að verðið á svartalistavörunum kunni að verða hærra, geti það verið lægra á öðrum vörum fyrir hinn frjálsa gjaldeyri. Slík ályktun hlýtur að byggjast á því, að nóg vöruframboð sé í heiminum með sæmilega lágu verði. Svo verður ríkið að afla nægilegs gjaldeyris til að kaupa vöruna. Nú hefur stj. upplýst, að hún hafi gjaldeyri, og er það vel farið. Engum dylst, að hætta er á því, að við fáum ekki á markaðnum þær vörur, sem við þurfum, nema með sérstökum ráðstöfunum. Þetta getur breytzt á einu eða hálfu ári. Svo að ég sé nákvæmari, skal ég vísa til skýrslu, sem forstjóri alþjóðavinnumálastofnunarinnar í Genf gaf í júlí í fyrra. Talið var, að tímabilið frá 1. júlí 1949 til 1. júlí 1950 hefði að ýmsu leyti verið hagstætt. Framleiðslan hafði aukizt í mörgum löndum og varan lækkað. Nú hefur þetta snúizt við. Stjórn efnahagsstofnunar Sameinuðu þjóðanna, sem nú er að halda fund, hefur meðtekið skýrslu frá sérfræðingum um vöruútlit og framleiðslu. Þeir halda því fram, að árið 1951 verði ár verðbólgu og vöruskorts. Þeir, sem segja þetta, eru sérfræðingar og þessum málum kunnugir. Við, sem eitthvað komum nærri þessum málum hér, getum ekki komizt hjá því að verða varir við, að spádómur þessara sérfræðinga er þegar kominn í ljós, á þann hátt, að erfitt er að fá nauðsynlegustu rekstrarvörur til atvinnuveganna, þó að gjaldeyrir sé fyrir hendi. Ég gæti nefnt nokkrar nauðsynlegar vörur fyrir sjávarútveginn og landbúnaðinn, sem ekki eru fáanlegar nema með fyrirgreiðslu sendiráða. Mér er ekki kunnugt um, að stj. hafi látið fara fram athugun á því, hvort til séu í landinu birgðir af rekstrarvörum fyrir landbúnaðinn og sjávarútveginn, þrátt fyrir þessa breyt. á markaðnum á sex mánuðum. Af þessum ástæðum tel ég það bjartsýni af stj., ef hún birgir landið ekki upp af þessum nauðsynjavörum. Ég hygg, að með þessu lagi á verzluninni, eins og ætlazt er til að hún verði, geti svo farið, að fyrir þann gjaldeyri, sem við höfum yfir að ráða, verði keyptar þær vörur, sem fáanlegar eru, en við þurfum ekki nauðsynlega að fá, en látið sitja á hakanum að kaupa þær vörur, sem erfitt er að fá og okkur vantar til framleiðslunnar. Ég segi þetta ekki vegna þess, að ég sjái eftir þeim innflutningshöftum, sem stj. hefur gefið skipun um að afnema. Ég tel, að kvótareglan hafi gefizt illa, og er ekki nema virðingarvert að létta henni af. Annað mál er það, að heppilegt væri að nota það ákvæði fjárhagsráðslaganna að veita þeim gjaldeyrinn, sem gerði hagkvæmust innkaupin. En þetta hefur aldrei verið notað. Ég tel, að það sé skaði, að innflutningshöftunum hefur verið beitt öðruvísi en til var ætlazt, er lög um fjárhagsráð voru sett. Ég hygg þess vegna, að ef stj. gerir ekki sérstakar ráðstafanir um að taka upp könnun á birgðum af nauðsynjavörum, sem annaðhvort eru ekki til eða þurrð er að verða á og eru ófáanlegar, þá kunni gjaldeyririnn að fara í það að kaupa vörur, sem aðrar þjóðir vilja losna víð, en okkur vantar ekki nauðsynlega, hins vegar verði látnar sitja á hakanum vörur, sem eru stríðsvarningur, svo sem veiðarfæri, umbúðapokar, vírar, nauðsynjavörur fyrir landbúnaðinn, svo sem girðingarefni, varahlutir til véla o.s.frv. Þó að verzlunin sé gefin laus, er vitanlega hægt að hafa á þessu athugun, t.d. með því að kanna, hvaða birgðir séu til í landinu af helztu rekstrarvörum, og gera viðskmrn. ljóst, hvaða fyrirgreiðslur þarf til að tryggja þessar vörur. En með þessu er þetta látið afskiptalaust, og óttast ég, að afleiðingin verði sú, sem ég gat um áðan. Þá er sannarlega ekki betur farið en heima setið, ef við birgjum okkur upp af vörum, sem við þurfum ekki nauðsynlega, og eyðum gjaldeyrinum svo, að við getum ekki keypt rekstrarvörur fyrir landbúnað og sjávarútveg. Ég vænti þess, að hæstv. viðskmrh. svari þeirri spurningu, hvort hann telji tryggt, að þau hlunnindi, sem bátaútvegsmönnum er lofað, komi þeim að gagni, og hvað er ætlazt til að gera án þess að setja frekari lög en hér eru á ferðinni.

Hvað viðkemur afgreiðslu málsins, þá lét hæstv. ráðh. þess getið, að hann óskaði þess, að málið færi ekki til n. Ég vil spyrja, hvort svo liggi á afgreiðslu þess, að það geti ekki farið í n. Ég óska þess, að það fari í n., án þess að vilja tefja fyrir því. Ég sé ekki, að það liggi endilega á að afgr. það í dag. Þetta þing hefur setið verklaust frá 8. jan., og er þá ekki ástæða til, að stj. heimti að afgr. málið á einum degi. Annars vil ég lýsa undrun minni á því, að stj. ætli að lítilsvirða þingreglur, eins og hún gerir, ef hún ætlar að ráðstafa tilfærslum á fé í landinu, sem skipta tugum milljóna króna, án þess að leggja það fyrir Alþingi. Í stjskr. er ákveðið, að ekki megi leggja á tolla nema með lögum. Þar er ýmsum fjárráðstöfunum nokkuð þröngur stakkur skorinn. Ef til vill afsakar stj. sig með því, að hún hafi fordæmi í hrognagjaldeyrinum. Ég verð að segja, að ég taldi þá ráðstöfun aldrei til fyrirmyndar og ekki til eftirbreytni. Nokkur hluti þeirrar ráðstöfunar var gerður í sambandi við útveginn.

Hér virðist stj. ætla að færa á milli manna í landinu upphæð, sem nemur tugum milljóna króna án þess að leggja það fyrir Alþingi. Ég lýsi hryggð minni yfir þeirri stjórn, sem virðist umhugað að vernda lýðræðið og horfir með fyrirlitningu og andúð á einræðisstjórnir kommúnista austur frá, en hyggst svo halda máli sem þessu utan þingsins. Ég tel, að eftirleiðis verði það óvandara fyrir þá, sem vilja gera ráðstafanir enn lengra, ef stj. leggur ekki annað fyrir Alþingi en hér er á dagskrá.