03.03.1951
Neðri deild: 79. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í B-deild Alþingistíðinda. (1697)

193. mál, verðlag og dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Viðskmrh. hefur ekki getað gengið inn á þá aðferð að skipta frv. Mér finnst þetta nú ekki skynsamlegt af hæstv. ríkisstj., því að engin rök færði ráðh. fyrir því, að það mundi að nokkru leyti tefja fljóta afgreiðslu, og engin rök voru færð fyrir því, að það væri nokkur skynsemi í þessu eins og það er. — Að því er snertir 2. gr., um yfirdráttarheimildina, að bæta henni aftan við lög um verðlag og verðlagseftirlit, það er alveg hlægilegt, og ég get satt að segja ekki skilið, hvernig fjhn. Ed. hefur getað dottið í hug að gera það, enda engin rök færð fram fyrir því hjá hæstv. ríkisstj. Ég held, að þetta frv. verði aldrei nema hreinn óskapnaður, ef ekki verður hægt að fá ríkisstj. inn á neina breyt. á þessu.

Ég vil þá vekja athygli á því, að í þessu frv. felst engin heimild til þess að gefa bátaútvegsmönnum einkarétt á innflutningi ákveðinna vara. Sú heimild, sem felst í þessu lagafrv., er heimild fjárhagsráðs til þess að afnema verðlagsákvæði á ákveðnum vörutegundum, en í þessu frv. felst engin heimild til þess að veita ákveðnum mönnum í landinu einkarétt til innflutnings á ákveðnum vörum, og það vil ég, að sé ljóst, og hef satt að segja ekki heyrt, að hæstv. ríkisstj. hafi reynt að halda því fram hér, að í þessu fælist slíkur réttur. Hins vegar álít ég fyrir mitt leyti — og vil að það komi fram og vænti að heyra skoðanir fleiri þm. á því, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki með núgildandi lögum neina heimild til þess að gefa neinum einstökum aðilum einkarétt til innflutnings á ákveðnum vörutegundum. Ég álít að það sé ákaflega fjarri lagi, að það vald, sem fjárhagsráð hefur, nái til þess. Það er tiltölulega mjög takmarkað í l. það vald, sem fjárhagsráð þannig hefur, þannig að menn verða að gera sér ljóst, að ef fjárhagsráð ætlar að gefa ákveðnum mönnum slíkan einkarétt, án þess að l. verði frekar breytt, þá brýtur það l., og það vil ég, að hæstv. ríkisstj. sé ljóst. Ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp þennan kafla úr 12. gr. fjárhagsráðsl., en hann hljóðar þannig:

„Hlutverk innflutnings- og gjaldeyrisdeildar er að framkvæma í umboði fjárhagsráðs og í samráði við það heildaráætlun þá, er gera ber samkv. 3. gr., þar í innifalið:

1. Að úthluta til innflytjenda innflutnings- og gjaldeyrisleyfum á þeim vörum, sem háðar eru leyfisveitingum, og setja þau skilyrði um hann, sem nauðsynleg kunna að vera vegna viðskiptasamninga eða af öðrum ástæðum. — Sé úthlutun leyfanna við það miðuð, að verzlunarkostnaður og gjaldeyriseyðsla verði sem minnst. Reynt verði, eftir því sem frekast er unnt, að láta þá sitja fyrir innflutningsleyfum, sem bezt og hagkvæmust innkaup gera og sýna fram á, að þeir selji vörur sínar ódýrast í landinu. Skal þetta gilda jafnt um kaupmannaverzlanir og samvinnuverzlanir og miðað við það, að neytendur geti haft viðskipti sín þar, sem þeir telja sér hagkvæmast að verzla.“

Það er sérstaklega tekið fram í þessari gr., að það eigi að veita leyfin með sérstöku tilliti til þess, þ.e. þeim aðilum, sem geti gert hagkvæmust innkaup og selt vörurnar ódýrast. Svo framarlega sem fjárhagsráð gefur í þessu tilfelli útvegsmönnum einkarétt til þess að flytja þessar vörur til landsins með tilliti til þess að láta selja bær sem dýrast, þá er það algert lögbrot. Ég vil benda ríkisstj. á það, að hún er bundin við lög og er sjálf ekki upp hafin yfir lögin. - Ég hef gert þetta að umræðuefni vegna þess, að ég kann ekki við, að löggjafarþing þjóðarinnar framkvæmi ekkí sæmilega sínar beinu júridisku skyldur í sambandi við svona mál. Og þegar ríkisstj. gerir sig seka um svona mistök og henni er bent á það hvað eftir annað, á hún að taka tillit til þess. Ef ríkisstj. ætlar sér að gera þennan hlut, að veita þessum aðilum, þar sem hvorki er um að ræða kaupmannaverzlanir né samvinnuverzlanir, þennan einkarétt, þá vil ég, að hún gangi frá því þannig hér á Alþ., að hún geti gert þetta, geri það löglega og hv. alþm. viti, hvað þeir eru að gera, þegar þeir gera þetta, svo að hæstv. ríkisstj. þurfi ekki að segja á eftir, að henni hafi ekki verið bent á þetta á Alþ. Það var margoft búið að tala um þetta við hæstv. ríkisstj., og hún er búin að hanga yfir þessu í margar vikur og athuga þetta og kemur nú loks með þetta frv. og segist vilja fá það í gegn á einum degi. Hún ætti að muna, þegar hún setti síðast lög hér í gegn á einum degi, því að það varð til þess, að hún varð að fá ný lög strax eftir nýárið, þar sem lögin reyndust óframkvæmanleg eins og gengið hafði verið frá þeim. Samkv. 1. gr. þessa frv. gefur Alþ. enga heimild til þess að veita bátaútvegsmönnum þennan einkarétt, og ríkisstj. verður því að koma og biðja um hana, ef hún vill fá hana, því að það er engin heimild í l., eins og nú standa sakir, og ekki í þessari 1. gr. til að skapa það fyrirkomulag, sem hæstv. ríkisstj. hefur hugsað sér.

Það er mjög leitt, að hæstv. ríkisstj. skuli ekki vera viðstödd til þess að hlusta á þessar umræður; það er vitlaust af henni, því að hún hefur rekið sig á það, að hún þarf ráðlegginga við, hvernig ganga eigi frá lögum og semja lög; það hefur ekki gengið svo vel hjá henni fram að þessu. En hins vegar mun ég ræða þau mál, þegar brtt. minar koma fram við 2. umr., og skal ég ekki tefja málið að sinni.