13.02.1951
Neðri deild: 68. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í B-deild Alþingistíðinda. (1759)

176. mál, lántaka handa ríkissjóði

Emil Jónsson:

Herra forseti. Mig langar til þegar við þessa umr. að fara um þetta mál nokkrum orðum, ef vera mætti, að sú n., sem fær það til athugunar, gæti tekið einhver af þeim atriðum til greina við síðustu athugun á málinu. Og enn fremur langar mig til þess að fá frá hæstv. ráðh. nokkrar upplýsingar í sambandi við afgreiðslu þessa máls, sem ekki liggja fyrir í frv. sjálfu eða grg. þess.

Í öllum þeim umræðum, sem fram hafa farið að undanförnu um efnahagsmálin hjá okkur, hefur menn greint á um margt og mikið og sitt sýnzt hverjum, eins og venja er. Sumir hafa viljað fara þessa leið, aðrir hina og talið hver fyrir sinni skoðun æði mörg rök, þó að menn hafi ekki getað orðið sammála. En um eitt atriði held ég, að menn séu sammála, og ég hygg, að hæstv. fjmrh. hafi verið í þeim hópi, að erlendar lántökur bæri að forðast í lengstu lög, að svo miklu leyti sem nokkurn veg væri um að ræða til þess að komast hjá því. Þegar um erlendar lántökur hefur verið að ræða, þá hefur það verið til ákveðinna fyrirtækja, sem sérstaklega hafa verið gjaldeyrisskapandi, eins og t.d. talið var sjálfsagt frávik frá þessari meginreglu að taka gjaldeyrislán til togarakaupa, vegna þess að talið var víst, að þeir mundu skila gjaldeyri aftur og án þess að gripa þyrfti til frekari lántöku. Lántaka til togarakaupa hefur þess vegna síður en svo sætt nokkurri gagnrýni, heldur verið talin sjálfsögð, enda þannig frá kaupunum gengið, að nokkur hluti af framleiðsluverðmæti þeirra fer til þess að greiða erlendar skuldir.

En það er líka almennt kunnugt, að fjöldi framkvæmda og fjárfestinga bíður vegna þess, að fé hefur ekki fengizt að láni til framkvæmdanna. Og menn hafa sætt sig við að bíða, vegna þess að þeir hafa ekki talið réttlátt að taka erlent gjaldeyrislán til þess að hrinda þeim verkefnum í framkvæmd. Ég get nefnt fjöldamörg dæmi um þetta, og ég þekki margar hafnargerðir, sem bíða hálfkaraðar vegna þess, að ekki hefur tekizt að fá lán til þeirra framkvæmda. Þær eru þess vegna margar ekki nema hálfgerðar og skila þess vegna ekki þeim tekjum, sem þeim er ætlað að gera, og meira að segja hefur þetta orðið til þess, að ríkissjóður hefur orðið að hlaupa undir bagga með sumum þeirra, vegna þess að ekki hefur verið hægt að koma þeim í það horf, sem til er ætlazt. Ég get nefnt t.d. byggingarframkvæmdir hér í bænum, sem nú eru alveg stöðvaðar vegna þess, að alls staðar skortir lánsfé og enga peninga er hægt að fá í bönkunum til þess að leggja í húsbyggingu og ekki hjá neinni lánsstofnun yfirleitt í landinu. Á sama tíma eru hópar iðnaðarmanna hér vinnulausir, og því ástandi, sem af því leiðir, þarf ég ekki að lýsa, það þekkja allir hv. þm. Einnig þetta ástand hafa menn að nokkru leyti sætt sig við vegna þess, að þeir hafa ekki þorað að leggja út í þá áhættu, sem erlendri lántöku fylgir, en það virðist nú vera eina úrræðið til þess að halda starfseminni áfram.

Það má nefna fleiri rafvirkjanir, vatnsveitur og fjöldamargar framkvæmdir, sem eru eins nauðsynlegar og sumar jafnvel nauðsynlegri heldur en þær, sem hér er farið fram á að taka erlent lán til.

Í frv. þessu, þar sem gert er ráð fyrir, að taka megi 43 millj. kr. erlent lán, er frá því skýrt, að svo sé til ætlazt, að þær skiptist þannig, að 25 millj. gangi til að greiða eftirstöðvar við kaup hinna 10 nýju togara. 15 millj. eru ætlaðar til að lána Búnaðarbanka Íslands með sömu kjörum og lánið verður tekið, og allt að 3 millj. til iðnaðarlána, enda verði ákveðið með lögum um tilhögun iðnaðarlánanna.

Ég hef minnzt á það áður, að aldrei hafa verið tekin erlend lán nema til ákveðinna fyrirtækja og skýrt tekið fram í lögum, til hvað langs tíma og með hvaða kjörum, en hér vita menn ekki annað en það, að 15 millj. eiga að ganga til Búnaðarbankans og 3 millj. til iðnaðarins, og á að ákveða það síðar, til hvers það fé verði notað. — Mér finnst þetta svo losaralega uppbyggt, að það réttlæti á engan hátt að taka þetta erlenda lán. Og ég er viss um, að hæstv. fjmrh. hlýtur að gera sér það ljóst, að ef ríkisstj. tekur þetta erlenda lán vegna óákveðinna framkvæmda í landbúnaði og iðnaði, þá hljóta að koma fram kröfur um lán frá öðrum aðilum, sem ekki eru síður nauðsynlegir framleiðendur í þjóðfélaginu og ekki er síður ástæða til að örva með lánum. Mér virðist, að ríkisstj. sé að breyta um stefnu miðað við hin fyrri rök hennar, að fara að taka lán á sama tíma og hún fær tugi millj. frá Efnahagsstofnuninni í eyðslufé. Og ef samtímis því á að fara að taka erlend lán, þá er sýnilegt, að ríkisstj. er búin að afskrifa sína fyrri afstöðu til þessara mála. Og það hljóta að koma fram aðrir aðilar á eftir, sem telja sig ekki hafa minni rétt til lánveitinga en þeir, sem hér er um að ræða.

Það eitt út af fyrir sig er ekki rétt, að sagt er, að veita eigi 25 millj. til sjávarútvegsins. En þegar betur er að gætt, eru það aðeins 9 millj., því að 16 millj. eiga að fara til að „konvertera“ eldra láni. Hér er því raunverulega aðeins um 9 millj. kr. nýja lántöku að ræða, sem e.t.v. verður þó ekki svo há, og er það sá hluti lánsins, sem ég tel réttlætanlegan og eðlilegan, og mér finnst, að það hefði átt að taka það fram í frv., að hér væri aðeins um að ræða heimild fyrir ríkisstj. til að taka 9 millj. til handa sjávarútveginum.

Þá eru það 15 millj. handa landbúnaðinum, en um það lán er allt meira á huldu en lánið til sjávarútvegsins. Nú langar mig að spyrja hæstv. fjmrh.: Hvernig er hugsað að lána þessar 15 millj. til bænda? Verður bændum lánað það með gengis„klásúlu“, þannig að þeir beri þá ábyrgð, sem fylgir gengisáhættunni? Eða á Búnaðarbankinn að bera hana eða ríkið? Þetta væri æskilegt að fá að vita. — Lán til sjávarútvegsins eru þannig veitt, að þau hvíla í erlendri mynt á þeim, sem togarana kaupa, þannig að þeir bera alla áhættuna, ef gengisfelling verður. Ég spyr, er ætlunin að fara á sama hátt með þetta lán til bænda? Eða er ætlunin, að Búnaðarbankinn eða ríkissjóður beri þá áhættu, sem því fylgir? — Í annan stað er rétt að geta þess, að samkv. þeim samningi, sem gerður hefur verið milli ríkisstj. og þeirra, sem hafa keypt nýju togarana, er gert ráð fyrir því, að kaupendur togaranna yfirtaki þessi lán og greiði sömu vexti og erlendis. Og mun vaxtafóturinn vera 41/2% og lánið veitt til 20 ára. Er meiningin að veita þessi lán til bænda til jafnlangs tíma og með sömu vöxtum? Ef ekki, hver á þá að greiða vaxtahallann? Á Búnaðarbankinn að gera það, eða á ríkissjóður að gera það? Hér er aðeins um það að ræða, að allir sitji við sama borð. Og það ætti ekki að vera síður ástæða til, að þeir, sem kaupa togarana, fái góð lán, þar sem það eru gjaldeyrisskapandi atvinnutæki, sem gefa gjaldeyri til að endurgreiða þessi lán, og ég tel það fullkomið réttlæti, að hlutur Búnaðarbankans verði veittur á sama hátt. Ég vildi aðeins skjóta því til hæstv. ráðh., hvort hann gæti ekki skýrt frá því, með hvaða kjörum væntanleg lán af þessu tagi kunna að verða veitt og sérstaklega, hvort sá, sem þessi lán fær endanlega, fær þau í erlendri mynt eða innlendri, og hver á að bera ábyrgðina.

Þriðji hluti lánsins, sem þó er ekki nema tæpur fimmtándi hluti heildarupphæðarinnar, er ætlaður til iðnaðarlána, en allt er óljóst, hvernig því fé á að verja. En eftir því, sem segir í 2. gr. frv., þá kemur það ekki til úthlutunar fyrr en sett hafa verið lög á Alþingi um það, á hvern hátt þeim skuli varið. Það þýðir, að þetta fé kemur ekki í umferð fyrr en eftir að næsta þing kemur saman, því að eftir þeim hraða, sem frv. um iðnaðarbanka hefur haft hér í þinginu nú, þá trúi ég ekki, að það takist að afgreiða lög um iðnaðarlán fyrr en því þingi lýkur, svo að vegna iðnaðarlána virðist, að það hefði mátt sleppa þessari lántöku nú. Það kemur nú fram í annað sinn á þessu þingi, að frv. um iðnaðarbanka mun ekki ætlað fram að ganga. Fyrst var þeirri skoðun slengt fram af hv. þm. V-Húnv. og þm. Mýr., að svo ætti að fara. Og nú kemur það fram í stjórnarfrv., að því máli sé ætlað hægt andlát og ekki verði hægt að gera þær ráðstafanir fyrr en síðar. Í staðinn fyrir það virðast þessar 3 millj. eiga að koma, sennilega til þess að friða þá, sem að frv. standa. Ég held nú, að þessar 3 millj. hjálpi lítið, þar sem ekki má nota þær fyrr en lög hafa verið sett á Alþingi um það efni, og það verður ekki fyrr en eftir eitt ár í fyrsta lagi. Ég held því, að það væri skaðlaust, þó að þessar þrjár millj. til iðnaðarins væru strikaðar út.

Þegar frv. um iðnaðarbankann var á ferðinni, gerði iðnn. ekki ráð fyrir því, að leitað yrði eftir erlendum lánum til að fullnægja þörf hans. Og það var ekki vegna þess, að lánsþörf væri ekki mikil, heldur hitt, að það var vitað, að mjög var erfitt um lánsfjárútvegun. En þar var gert ráð fyrir því, að ríkissjóður legði fram 2,5 millj. kr. og hefði það getað komið inn á fjárlög að hálfu í ár og að hálfu næsta ár og verið þar með úr sögunni. En þar sem út í það er farið að taka erlend lán, þá geri ég ráð fyrir, að iðnaðarmönnum þyki sinn hlutur lítill miðað við það, sem landbúnaðinum er ætlað.

Ég vildi nú aðeins vekja athygli á þessum atriðum við þessa umr. Margt fleira mætti um þetta segja, en ég mun láta það bíða til 2. umr. En ég vænti þess, að sitthvað af því, sem ég hef sagt hér og sömuleiðis hv. 8. landsk. og 7. þm. Reykv. og fleiri hafa sagt í þessu sambandi, verði tekið til greina í þeirri n., sem fær málið til athugunar, sem væntanlega verður fjhn., og það verði athugað mjög vandlega, hvort rétt sé að fara inn á þessa braut, sem hér er hlaupið inn á. Ég hygg, að það væri hyggilegra að snúa ekki svona hratt við eins og ríkisstj. hefur gert með þessu frv. og æða út í það að taka 40 millj. kr. lán til viðbótar öllum þeim lánum, sem fengizt hafa gegnum Efnahagssamvinnustofnunina, og það ætti að vera hægt að komast af án allra annarra erlendra lána. Ég veit, að það er vissulega nauðsynlegt að halda áfram byggingum og ræktun í sveitum, en ég vil ekki, að sú leið verði farin, sem hér er farið fram á, því að með því er opnuð hættuleg leið, og það er hætt við því, að þá komi fram kröfur frá öðrum aðilum, sem hafa eins mikinn rétt til lána, og þá eru menn komnir út í þær ógöngur, sem ekki er auðvelt að sjá, hvar muni enda.

Ég vil svo að endingu óska þess, að þetta verði tekið til greina, þegar n. tekur málið til athugunar.