16.02.1951
Neðri deild: 70. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í B-deild Alþingistíðinda. (1776)

176. mál, lántaka handa ríkissjóði

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég hef nú reynt að hlýða á þessar umr., eftir því sem ég hef frekast getað, til þess bæði að sjá og heyra, hvað borið væri fram til sóknar og varnar í þessu máli. Sannast að segja kom það mér nokkuð á óvart, að svo miklar umr. urðu um málið. Reyndar var það ekki svo fjarri öllu lagi, úr því að sérstaklega voru til teknar 15 millj. kr., sem ganga skyldu til landbúnaðarins, að einhver mundi andmæla slíkri ráðstöfun. Ég get einmitt búizt við því, að

einhverjir hv. þm. hafi ekki verið alveg óviðbúnir, að svo kynni að fara, enda hefur það nú rætzt. Hver vandlætarinn á fætur öðrum hefur nú talað ákaflega fræðilega um það, hve mikil nauðsyn væri á því, að þessar 15 millj. kr. stofnuðu ekki til verðbólgu hér í landinu. Um alla þá tugi millj. eða hundruð millj. kr., sem veittar hafa verið um nokkurra ára skeið, hefur engin rödd komið í þessa átt, enda þá aldrei tekið það skref, að neitt að ráði af þeim fjármunum færi til landbúnaðarins. Og svo er látið heita svo, að þessar aths. séu ekki settar fram af því, að þeir séu óvinveittir landbúnaðinum. Það er eiginlega allt af vináttu við landbúnaðinn, sem þetta er gert, og umhugsun fyrir þróun hans og þroska, því að þegar búið er að varpa þessu fram, þá er ætíð látið fylgja á eftir, að það sé ekki af óvináttu við landbúnaðinn, heldur sé það af ást á íslenzkum landbúnaði, sem þeir koma með þessar aths. Eins og búið er að drepa hér á, þá mun það vera svo, að þó að þessar 15 millj. kr. gangi til búnaðarins, þá fer megnið af þeim til kaupa á erlendum hlutum, sem þarf til þeirra umbóta, sem í ráði er að gera. Má þar upp telja húsbyggingar, eitthvað af gripahúsum, til að setja á stofn mjólkurbú og til að byggja sláturhús og annað, er lýtur beinlínis að framleiðslunni og til ýmissa hluta, sem þarf að kaupa, svo sem vélar og annað þess konar. Svo það er ekki svo mikil hætta á, að þetta valdi verðbólgu, þó að þessum fjármunum verði varið í þágu landbúnaðarins. Viðvíkjandi því, sem talað er um að þyrfti að koma á móti af innlendum peningum, þá er það svo, að bændur leitast við að vinna sem mest að þessu sjálfir, svo að þeir þurfi ekki að kaupa menn að, en það stafar af því, að þá skortir fé til þeirra hluta, og þeir verða að leggja á sig aukið erfiði eftir ýtrustu getu til þess að spara slíkan kostnað. Þannig hygg ég, að erlendi gjaldeyririnn fari mikið til kaupa á efni og vélum til framkvæmdanna, og hvað snertir framkvæmdina innanlands, þá er það gert af þeim mönnum, sem reyna að taka sem minnst lán innanlands til þess að koma verkinu í framkvæmd. Eins og hæstv. fjmrh. var að enda við að drepa á, þá er ekki nema nokkuð brot af kostnaðinum, sem Búnaðarbankinn lánar út á slíkar umbætur. Mundi það þá ekki verða meira en það, sem hinum erlenda gjaldeyri nemur, sem færi til þess að hægt væri að koma þessum framkvæmdum í kring. En ég vil engan veginn átelja hv. 3. landsk., þó að hann veki athygli á því, ef ógætilega er farið. En mér þykir fyrir því, að þetta skuli vera skilið þannig, þar sem búið var að drepa á það hér í upphafi umr., að gjaldeyririnn skuli fara í Búnaðarbankann, og samkv. þeim starfsreglum, sem hann hefur, væri nokkurn veginn séð fyrir því, að þetta færi til staðar, sem áður hefur verið vikið að. — Ég skal svo um leið, — af því að hv. 3. landsk. vék að því, að Búnaðarbankinn hefði lánað fé til þess að byggja hér í bænum og til iðnaðarins og sagði, að það væri rangt, vegna þess að þörfin fyrir þetta fé væri svo mikil í sveitum landsins, — þá skal ég benda honum á, að Búnaðarbankinn hefur allmikið sparifé, sem hann vill ekki lána nema til skamms tíma og þá ekki nema þeim, sem hann getur gengið út frá, að greiði lánið til baka, og þess vegna hefur bankinn lánað fé í þessu skyni, sem hv. þm. drap á, og finnst mér ekki hægt að lá honum það. Ég held, að Búnaðarbankinn hafi gætt fyllstu forsjár í starfsemi sinni, og væri betur farið, að hægt væri að segja það sama um starfsemi ýmissa annarra fyrirtækja.

Það hefur komið fram í þessum umr., að lántaka erlendis væri tæplega réttlætanleg, nema því aðeins, að hún sé gerð í því skyni að styrkja framleiðslu innanlands, sem gæfi af sér aukinn erlendan gjaldeyri. Ég vil lýsa því hér yfir, að ég tel, að það verði að gæta fyllstu aðgæzlu við erlendar lántökur, en mér finnst skjóta hér nokkuð skökku við, að þegar nú er áformað að taka 15 millj. kr. lán til landbúnaðarins, þá skuli menn spretta upp og telja voða stafa af því, — sérstaklega þegar þess er gætt, að með lögum hafa verið tekin lán undanfarin ár, t.d. voru teknar 60 millj. kr. að láni árið 1945 til togarakaupa, 57 millj. kr. 1950 og einnig 16 millj. til að greiða togarana með. Og í þessu frv. er gert ráð fyrir 25 millj. kr. lántöku í þessu skyni, — svo koma lán til Sogsvirkjunarinnar, Laxárvirkjunarinnar, áburðarverksmiðjunnar o.s.frv., og um þetta allt hefur verið samkomulag í þinginu. Ég ætla mér ekki að segja, að það hafi ekki átt rétt á sér að endurnýja togaraflotann, — og til þess þurfti auðvitað að taka erlend lán, — en hitt vil ég leyfa mér að segja, að ekki hefði þurft eins stóra lántöku í fyrra sinnið, ef farið hefði verið með féð af meiri ráðdeild en gert var, og ekki hefði heldur þurft að taka eins mikið lán til þessara 10 togara, ef sparlegar hefði verið farið með féð.

Þrátt fyrir allt var fyllsta samkomulag um þetta, er það var borið hér fram í þinginu, og jafnvel þeir okkar, sem ekki eru sannfærðir um að þetta sé bezta aðferðin og lausnin í þjóðfélagslegum málum, vildu ekki leggja stein í götu þess, að þetta gæti heppnazt.

Ég minnist þess, að tekin hafa verið lán til húsabygginga og sett í veðdeild Landsbanka Íslands, og ég man t.d. líka eftir því, að tekið var erlent lán til þess að gera eina brú hér á landi, því að okkur skorti gjaldeyrinn fyrir því efni, sem til þurfti. Ég heyrði enga rödd í þá átt, að þetta væri ónauðsynlegt. Og vissulega eru brýr nauðsynlegar, — en að þær skapi erlendan gjaldeyri, er vafamál, en það gera þær a.m.k. ekki nema sérstaklega standi á.

Ég hef drepið á þessi atriði til þess að sýna, að menn hafa ekki verið svo mjög viðkvæmir fyrir að taka erlend lán, þó að ekki skapist af því erlendur gjaldeyrir beinlínis.

En í raun og veru eru þessar 15 milljónir hégóminn einber, því að ef byggja ætti helming þeirra súrheysgryfja, sem landbúnaðurinn þarfnast, mundi þurfa 30 millj. kr. til þess eina verks, — burt séð frá öðrum framkvæmdum. Og hæstv. landbrh. lýsti yfir, að ef ekki ætti að verða stórfelldur skortur á byggingum í sveitum og minnkandi ræktunarmöguleikar, þá þyrfti 130 millj. kr. til þeirra framkvæmda. Og svo tala menn um það, að ekki liggi fyrir fjárþörf hjá landbúnaðinum.

Ég sakna þess, að hv. þm. hafa ekki verið afhentar skýrslur um þessi efni, svo að þeim hefur ekki gefizt kostur á að athuga niðurstöður þeirra, og finnst mér það hefði átt að vera búið að láta fjölrita þær eða prenta, svo að þm. þyrftu ekki að leita til einstakra nefnda eða stjórnarráðsins til þess að fá þær. Ég get því fyllilega tekið undir það, að menn ættu að fá skýrslurnar í hendur, en það er allt annað mál en að rannsóknir hafi ekki verið gerðar í þessum efnum, því að mjög ýtarlegar niðurstöður varðandi fjárþörf landbúnaðarins eru fyrir hendi, og hefur verið skýrt frá þeim hér á Alþingi nú ekki alls fyrir löngu.

Næst er mér að halda, að allt hefði verið í lagi, ef þetta lán færi allt til sjávarútvegsins. Víst aflar hann gjaldeyris og er annar aðalatvinnuvegur landsmanna — auk landbúnaðarins. Enda byggist öll önnur starfsemi í landinu á þessum tveim atvinnuvegum. — Það er enginn tími til fyrir okkur enn að tala um það, að iðnaðurinn verði samkeppnisfær á erlendum vettvangi, svo að hann geti aflað okkur erlends gjaldeyris. Það er framtíðarinnar að skera úr um það, en við getum ómögulega reitt okkur á það. En þó færist í áttina hvað þessu viðkemur með aukinni beizlun vatnsaflsins. — En við höfum mætt þörf landbúnaðarins svo lítið og sýnt honum slíkt tómlæti, að erlendir menn, sem hafa gefið þessu gætur, telja, að við höfum farið mjög óskynsamlega að ráði okkar með því jafnvægisleysi, sem myndazt hefur við hina ójöfnu skiptingu fjármagnsins til sjávarútvegsins annars vegar og landbúnaðarins hins vegar.

Öryggi þjóðarinnar byggist á landbúnaðinum, öryggi hennar til að lifa, ef erfiðleika ber að garði. Og þetta á ekki aðeins við um okkar þjóð, heldur flestar þjóðir heims. Hvað sýnir saga Breta t.d.? Jafnan er þeir hafa lent í ófriði, hafa þeir eflt landbúnað sinn, til þess að þjóðin hefði öruggari lífsafkomu. Hvað er t.d. að segja um Ítali, sem eru þó engin sérstök landbúnaðarþjóð? En þegar erfiðleikarnir hafa sótt þá heim, hafa þeir eflt landbúnað sinn. — Hvernig er það svo hér, þar sem eiginlega er ekki nema tveim aðalatvinnuvegum til að dreifa? Mundum við þá ekki þurfa að leggja okkur fram einmitt um þetta atriði? Jú, vissulega. Til viðbótar því, sem fram kom hjá hv. þm. Borgf., þegar hann drap á, hvernig sjávarútvegurinn og atvinna í kaupstöðum gæti brugðizt o.s.frv., þá vil ég benda á eitt, sem ekki skiptir minna máli en það, sem hann nefndi, og vil í því sambandi skírskota til álits helzta vísindamanns Breta í framleiðslu sjávarafurða, manns, sem líklega hefur meiri þekkingu á þessu sviði en nokkur annar maður í heiminum. Þessi vísindamaður hefur gefið út bók, og í henni telur hann, að fiskimið heimsins séu svo uppurin, að þjóðirnar verði að koma sér saman um að draga úr fiskveiðum sínum, ef ekki á að horfa til vandræða. Hann bendir réttilega á, að ný og ný fiskimið hafi fundizt, sem bætt hafa úr rýrnun eldri fiskimiða. Einnig bendir hann á, að veiðarfærin og annað slíkt sé allt orðið svo bætt, að nauðsynlegt sé, að menn komist að samkomulagi um, hvað hver mætti veiða mikið, — annars mundi þessi þróun leiða til atvinnutjóns og ýmissa annarra erfiðleika hjá þjóðunum. Þetta byggir hann allt á athugunum sínum um margra ára bil. Mér finnst hyggilegt að hafa þetta í huga og koma meiri jöfnuði á í þessum málum og verja meira fé til landbúnaðar og ræktunar í sveitum landsins. Ég vil ekki segja þar með, að ónauðsynlegt sé að byggja yfir fólkið í kaupstöðunum, það, sem býr í slæmum húsakynnum, en vil þó segja, að það er jafnmikil nauðsyn að byggja yfir þá, sem búa úti um landið og jafnvel meiri nauðsyn, ef fólkið á ekki að flytja í burtu til Reykjavíkur. Reykjavík hefur vaxið um 20 þús. íbúa á fáum árum og bundið hundruð milljóna í húsabyggingum. Þetta heldur áfram, ef ekki verður hafizt handa um meiri byggingarframkvæmdir úti um byggðir landsins.

Ég held, að það sé enginn velgerningur við þjóðina að leggja sig fram við að koma í veg fyrir þessa 15 millj. kr. lántöku til landbúnaðarins, og ættu hv. þm. að reyna að finna sér aðra iðju þarfari. Þess er líka að gæta, að ýmis byggingarstarfsemi dregur til sín fjármagnið í landinu og er því svo safnað saman hér í Reykjavík og varið til húsbygginga fyrst og fremst. Ef atvinnuvegirnir væru öruggir í kaupstöðunum, væri þetta gott og blessað. En mér sýnist það, því miður, vera öðru nær en svo sé.

Ég ætla svo ekki að gera þetta frekar að umtalsefni. Mér hefur hálfleiðzt að heyra það, sem tínt hefur verið til þessari lántöku til andmæla, og mér hefur ekki fundizt gæta sömu víðsýni í þessum efnum eins og ég hef oft átt að venjast hér áður. Ég hef ekki viljað vera með atkv. mínu meinsmaður þeirra, sem í kaupstöðum búa, en mér finnst óhæfilegt að reka eins einhliða pólitík og gert hefur verið undanfarið og kasta aðeins smámolum til landbúnaðarins, og skal ég svo ekki þreyta hæstv. forseta frekar að þessu sinni. Ég ætlaði ekki að taka til máls í byrjun, en það er hægt að ofbjóða þolinmæði manna með því að finna allt upp þessu máli til foráttu, svo að það nái ekki fram að ganga. En ef þeir þm., sem hafa miklað fyrir sér þessa lántöku til landbúnaðarins, eru allir af vilja gerðir til að leggja honum lið, ættu þeir að gera það öðruvísi en þeir nú hafa gert.

Ég sé, að hv. 3. landsk. er að biðja um orðið. Hann er nú látinn, en „sjö sinnum falla réttlátir og standa upp aftur.“ Ég vona, að hæstv. forseti hjálpi honum til upprisunnar, — en hann getur ekki verið að biðja um orðið til þess að bera af sér sakir.