02.11.1950
Neðri deild: 14. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 870 í B-deild Alþingistíðinda. (1945)

59. mál, vinnumiðlun

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Þetta frv. hér um vinnumiðlun á þskj. 95 er borið fram af hæstv. ríkisstj. Þau lög, sem gilt hafa um vinnumiðlun, eru frá 1935, og er þar svo kveðið á, að í hverjum kaupstað skuli vera vinnumiðlunarskrifstofa, ef viðkomandi bæjarstjórn æskir þess eða atvinnumálaráðherra mælir svo fyrir. Þróun málsins hefur orðið sú, að kaupstaðirnir utan Reykjavíkur hafa lítið notfært sér þetta. Það hafa að vísu verið settar upp slíkar skrifstofur á 7 stöðum utan Reykjavíkur, en þær hafa víða verið lagðar niður aftur, svo að nú eru aðeins starfandi vinnumiðlunarskrifstofur í 5 af 13 kaupstöðum utan Reykjavíkur. Í Reykjavík hefur þróunin orðið önnur. Þar eru starfandi tvær skrifstofur, önnur samkv. ákvæðum l. frá 1935, en hin rekin sérstaklega af Reykjavíkurbæ. Það ætti að vera einsætt, að það er óheppilegt og enda óþarft, að tvær vinnumiðlunarskrifstofur séu starfandi, jafnvel í svo stórum bæ sem Reykjavík, þannig að heppilegt þótti og í sparnaðarátt að sameina þær. Eins og ég sagði áðan, hafa kaupstaðirnir úti á landi lítið notfært sér heimild l., svo að framlag ríkissjóðs til vinnumiðlunarskrifstofustarfsemi hefur farið að mestu leyti til skrifstofunnar í Reykjavík. Með þeim tilraunum, sem ríkisstj. hefur gert til að draga saman starfsmannakerfið, þá hefur þetta verið athugað, og niðurstaðan af þeirri athugun er þetta frv., sem byggist á því, að sveitarfélögin sjálf starfræki vinnumiðlunarskrifstofurnar og beri kostnaðinn af þeim eða hagi rekstri sínum samkv. þessu frv. — Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að helztu aðilar geti átt fulltrúa í stjórn vinnumiðlunarskrifstofunnar. 3 af 5 eiga að vera kosnir hlutfallskosningu af bæjarstjórn, en einn á að vera fulltrúi alþýðusamtakanna og annar fulltrúi vinnuveitenda. Á þennan hátt er leitazt við að tryggja það, að öll helztu sjónarmið í þessu sambandi geti komið fram, en þar sem gert er ráð fyrir, að bæirnir greiði allan kostnaðinn, þykir hlýða, að þeir fái meiri hluta í stjórninni.

Sé ég ekki ástæðu til að taka fleira fram í svipinn, en legg til, að málið fari til heilbr.- og félmn. að lokinni þessari umr., og vil ég taka það fram, að ég er reiðubúinn að ræða málið þar og taka til athugunar till. um aðra skipan þessara mála.