02.11.1950
Neðri deild: 14. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í B-deild Alþingistíðinda. (1946)

59. mál, vinnumiðlun

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Ég vildi lýsa nokkurri undrun og andstöðu minni við þetta stjórnarfrv. Hæstv. félmrh. sagði, að þetta væri einn liðurinn í þeirri stefnu hæstv. ríkisstj. að spara útgjöld og draga úr launagreiðslum til opinberra starfsmanna. Ég vildi sízt deila á hæstv. ríkisstj., ef hún gerði skynsamlegar og röggsamlegar till. um að draga úr óþarfa eyðslu, en mér þykir undrum sæta, ef sparnaðarkutanum á fyrst og fremst að beita gegn þeirri félagsmálalöggjöf, sem sett hefur verið á síðari árum, ekki sízt þegar svo horfir, að oft hefur verið mikil þörf, en nú brýn nauðsyn að styrkja heilbrigðis- og félagsmálalöggjöfina í landinu. Mér þykir sem hér sé byrjað á öfugum enda, og það þykir mér leitt, því að ég veit af persónulegri reynslu, að hæstv. félmrh. er frjálslyndur maður og víðsýnn, og ég hefði kosið honum annað hlutskipti en það að skera greinarnar af því félagsmálatré, sem vaxið hefur upp nú á síðari árum. Það er einmitt nauðsynlegt nú að gera endurbætur á l. um vinnumiðlun í þá átt, að vinnumiðlunarskrifstofurnar yrðu starfhæfari og settar upp víðar og hefðu öruggt samband og samvinnu sín á milli, í stað þess að gera ráðstafanir, sem miða að því að draga úr starfi þeirra. Það er því síður ástæða til að flytja þetta frv., sem hæstv. félmrh. hefur nýlega lýst yfir því í sameinuðu þingi, að hann teldi greiðslugetu ýmissa bæjarfélaga mjög takmarkaða, og er því ósanngjarnt, ef þetta hefur við rök að styðjast, að ætla þeim að taka á sig þyngri bagga en verið hefur til þess að halda uppi vinnumiðlunarskrifstofum í landinu. Eins og segir í grg. og fram kom í ræðu hæstv. ráðh., þá eru höfuðbreytingarnar, sem frv. gerir ráð fyrir, þessar: I. Allt vald er tekið úr höndum ríkisstj. til að ákveða um stofnun vinnumiðlunarskrifstofa. II. Fjárframlög, sem hingað til hafa verið greidd úr ríkissjóði, eiga að falla niður, en bæjarsjóðir beri kostnaðinn af skrifstofunum. — Þó er á því ein undantekning. Ef framkvæma á vinnumiðlun varðandi sveitir landsins, þá skal það kostað úr ríkissjóði, en bæirnir eiga hins vegar að greiða allan kostnaðinn hjá sér. Þetta er svipað öðru, sem örlar á í stefnu hæstv. ríkisstj., að mismunur er gerður gagnvart fólki eftir því, hvort það býr í sveit eða víð sjávarsíðuna. Það er alltaf fljótar hlaupið til að hjálpa þeim, sem í sveitunum búa. Þótt ríkisstj. geti sparað rúmlega 100 þús. kr., þá er svo mikið í húfi, eins og horfur eru nú ískyggilegar, að fremur en að leggja niður vinnumiðlun, þá ætti ríkisvaldið að halda henni áfram, svo sem kostur er á, og auka hana og vinna að rannsóknum á atvinnuástandinu, svo að gera megi allsherjar áætlun um aðgerðir til úrbóta. Í vissum landshlutum, t.d. vestan lands og norðan og jafnvel austan, bólar nú á mjög alvarlegu atvinnuleysi, og því miður er útlit fyrir, að það sé vaxandi. Eins og högum er nú háttað, ber ríkisvaldinu því bein skylda til þess að gera eitthvað til að hindra atvinnuleysið og deila sanngjarnlega niður þeirri atvinnu, sem til fellur, og það verður bezt gert á þann hátt, að ríkisvaldið hafi heildarafskipti af þeim málum. Því er nauðsynlegt, að ríkisstj. hafi hér með eftirlit og fyrirskipunarrétt um stofnun vinnumiðlunarskrifstofa, þar sem þeirra er þörf, og þá er rétt, að ríkissjóður beri og nokkurn kostnað af því. En með þessu frv. er stigið spor í öfuga átt. Ég skal ekki segja, hvað margir kaupstaðir héldu áfram að reka vinnumiðlunarskrifstofu, ef frv. yrði samþ., en ég held, að vinnumiðlunarskrifstofur þær, sem til eru í landinu, yrðu bæði færri og afkastaminni eftir en áður. Það eru svo engin rök í málinu, þótt risið hafi upp deila milli þeirrar vinnumiðlunarskrifstofu, sem hér starfar samkv. l., og ráðningarskrifstofu Reykjavíkurbæjar. Það er óheppilegt ástand, og á sínum tíma var mjög reynt að fá þessar skrifstofur til að sameinast. En tilvera þeirra beggja hér rökstyður á engan hátt nauðsyn þess að draga úr höndum ríkisstj. vald til að halda uppi vinnumiðlun í öðrum kaupstöðum. Ríkisstj. hefur orðið vör við, hve ástandið í atvinnumálunum er orðið ískyggilegt. Frá alþýðu Vestfjarða berast eindregnar óskir um aðgerðir til úrbóta, en eina svarið, eða eitt af þeim fáu svörum, sem verkalýðssamtökin fá, er framlagning þessa frv. Og einnig er ljóst, hvernig Alþýðusamband Íslands lítur á þetta. Alþýðusambandið hefur mótmælt, og verkalýðurinn lítur á þetta sem óþurftarmál, til að draga úr því, að vinna geti orðið sem mest. Fyrir því er ég andstæðingur þessa frv. og tel, að meiri þörf væri að endurskoða vinnumiðlunarlöggjöfina, sem nú er 45 ára gömul, í samráði við menn á þeim stöðum, sem mesta reynslu hafa í þessum efnum, og breyta henni í þá átt að efla opinbera vinnumiðlun og koma á heildarsamtökum um land allt. En með þessu er á hinn bóginn verið að draga úr afskiptum hins opinbera af þessum málum.

Ég er sannfærður um, að vinnumiðlunarskrifstofum mundi fækka og þær ekki reknar nema á stöðum, sem búa yfir allverulegu fjármagni. Líklegt má telja, að Reykjavík og Hafnarfjörður mundu reka vinnumiðlunarskrifstofur áfram, en vafasamt, hvort það yrði víðar. En þó að þessir staðir héldu uppi vinnumiðlun, yrði dregið úr vinnumiðlun um land allt, því að þeir staðir, sem vilja nú halda uppi vinnumiðlun, gætu það ekki áfram. Ég vil því lýsa yfir undrun minni á framkomu þessa frv. og þeim sparnaði, sem það á að hafa í för með sér, og teldi vænlegra til að auka atvinnu í landinu, að auka og dreifa vinnumiðluninni á milli fleiri staða.

Nú er högum svo komið, að fólk flýr úr ýmsum verstöðvum á landinu til Reykjavíkur. Þetta er hættuleg þróun, og ég veit, að ráðamenn Reykjavíkur líta á hana sem ískyggilega. Og ég er sannfærður um, að ef ekki er hlustað á raddir fólksins um að fjölga, en ekki fækka vinnumiðlunarskrifstofum, þá mun það hafa þau áhrif, að fólkið mun flýja enn þá meira en áður til Reykjavíkur. Og mér finnst það vera ömurleg örlög, að einn af mætustu þm. Framsfl. skuli verða til þess að berjast fyrir þessu frv., og það er ömurlegt, að ríkisstj., þar sem Framsfl. hefur forsæti, skuli koma fram með sparnað af þessu tagi. — Ég vil vænta þess, að þm. athugi vel sinn gang, áður en þeir breyta vinnumiðlunarlöggjöfinni í þessa átt. Vinnumiðlunina ber að auka og koma á föstu skipulagi í samræmi við fengna reynslu. Og orð hæstv. forsrh. gefa veika von um, að heppilegra verði talið að halda þessum málum í því formi, sem nú er.