02.11.1950
Neðri deild: 14. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í B-deild Alþingistíðinda. (1948)

59. mál, vinnumiðlun

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð út af ræðu hv. 8. landsk. — Hann lýsti undrun og andstöðu við frv. og þann sparnað að rífa niður félagsmálalöggjöf síðustu ára. Og virtist mér, að hv. þm. vildi láta liggja orð að því, að það væri yfirleitt verið að vinna að slíku hér á Alþ. Mér er það nú alls ekki kunnugt, að svo sé. En um þetta frv., sem hér liggur fyrir, þá virðist mér það mjög ofmælt, að það sé verið með því eða eigi í sambandi við það að rífa niður félagsmálalöggjöfina, þó það sé borið fram hér.

Því hefur ekki verið mótmælt, að lögin um vinnumiðlun, sem nú eru orðin 15 ára gömul, hafi verið tiltölulega mjög lítið notuð utan Reykjavíkur. Því að það er ekki aðeins svo, að aðeins nokkur hluti af þeim stöðum, sem notað gátu þessi lög, hefur notað þau, heldur hafa þær vinnumiðlunarskrifstofur, sem settar hafa verið á fót utan Reykjavíkur, verið lítið notaðar. Það er því aðeins ein vinnumiðlunarskrifstofa, sem starfrækt hefur verið samkv. þessari löggjöf, sem getur eiginlega heitið skrifstofa. Þetta er líka að ýmsu leyti eðlilegt, því að til þess, að hægt sé að starfrækja slíkar skrifstofur, verður að vera tiltölulega margt fólk á hverjum stað, þar sem þær starfa. Fyrir utan Reykjavík eru okkar kaupstaðir svo litlir, að vinna, sem vinnumiðlunarskrifstofur taka til, miðlast á ýmsan hátt, án þess að það þurfi sérstaka skrifstofu til þess, og hefur sýnt sig, að þessi hefur orðið raunin á.

Það hefur komið fram undir umr., að hjá hv. þm., sem hér hafa talað, virðist hafa komið fram geysimikið vantraust á starfsemi þeirra bæjarfélaga, sem eiga að sjá um þetta, ef breytt yrði til í þessu efni um tilhögun á vinnumiðlun. En hvers vegna má ekki treysta því, að bæjarfélag, sem sér, að þörf er á vinnumiðlunarskrifstofu, setji upp slíkt apparat, samkvæmt heimild, sem er í löggjöfinni, ef þetta frv. verður samþ.? Ef hægt er með slíkum kostnaði að miðla vinnu, hvað er þá eðlilegra en að það séu bæjarstjórnirnar á slíkum stöðum, sem hefjist handa um þetta? Mér virðist, að það liggi opið fyrir, að bæjarstjórnirnar sjái fyrst og fremst um þessa starfsemi og beri þá kostnaðinn af henni. Því að hvað getur verið hagkvæmara fyrir bæjarfélag, sem sér, að hægt er að koma atvinnulausum mönnum í vinnu með því að hafa vinnumiðlunarskrifstofu, heldur en að það geri það? Það mundi hver heilbrigður bæjarstjórnarmeirihluti vilja gera eða bæjarráð. Og það eru þessi rök, sem liggja til grundvallar því, sem hér er borið fram í þessu frv., samanber 7. og 8. gr., þar sem er í 8. gr. tekið fram, að félmrh. geti sett reglugerð um vinnumiðlun í einstökum atvinnugreinum, og heimilt sé að fela vinnumiðlunarskrifstofum kaupstaðanna slíka vinnumiðlun á tilteknum landsvæðum, og að þann kostnað, sem leiði af ákvæðum þessarar gr., greiði ríkissjóður. Þetta er sett hér inn beinlínis með það fyrir augum, að hægt sé á þennan hátt að grípa inn í, ef ríkisstj. þykir ástæða til, vegna einhverra ástæðna, sem gerðu það nauðsynlegt, að vinnumiðlun gripi lengra inn í þjóðfélagslífið en gert er ráð fyrir að öðru leyti í frv., þannig að horft verði yfir þessi mál í víðari sjónhring heldur en bæjarfélögin gætu gert annars, án þessara ákvæða.

Hv. þm. sagði, að hér væri landbúnaðurinn tekinn sérstaklega, og það ætti að kosta vinnumiðlun fyrir hann af því opinbera. Vinnumiðlunin fyrir landbúnaðinn hefur farið svo fram undanfarið, að Búnaðarfélag Íslands hefur starfrækt þessa vinnumiðlun og kostað hana að miklu leyti. Hins vegar hefur hún verið starfrækt sem deild hjá Vinnumiðlunarskrifstofunni í Reykjavík nokkurn hluta ársins. En kostnað við þessa vinnumiðlun hefur ríkissjóður greitt. Og vitanlega getur um slíkt verið að ræða fyrir fleiri atvinnuvegi en landbúnaðinn, og er því ekki ástæða til að tala um hann sérstaklega í þessu sambandi. En sú vinnumiðlun, sem starfrækt er fyrir landbúnaðinn, gengur fyrir sig vissa tíma ársins, og er ástæða til að setja sérstök ákvæði um hana í sambandi við vinnumiðlunarskrifstofur, sem fyrir hendi væru. En það er ekki hugmyndin með þessu að breyta til frá því, sem verið hefur, að Búnaðarfél. Ísl. beri kostnaðinn af þeirri vinnumiðlun, heldur hitt, að setja þessa vinnumiðlun við þennan atvinnuveg í samband við þá vinnumiðlunarskrifstofu, sem starfandi er hvort sem er, í Reykjavík eða annars staðar. Ég leyfi mér því að mótmæla því, að þetta, sem hér er borið fram í þessu frv., sé árás á félagsmálalöggjöf síðustu ára. Yfirleitt er í þessu frv. þannig gengið frá ákvæðunum um yfirstjórn vinnumiðlunarskrifstofanna á hverjum stað, að ég hygg, að allir megi vel við una. Það er eðlilegt, að bæjarfélögin á hverjum stað hafi meiri hl. í stjórn slíkra vinnumiðlunarskrifstofa, en hitt er líka eðlilegt, að verkamenn hafi þar einn fulltrúa og atvinnurekendur hafi þar einnig fulltrúa, og ákvæði um þetta viðkomandi stjórn vinnumiðlunarskrifstofanna hafa verið sett inn í frv., til þess að engin tortryggni komist þar að að neinu leyti og að þessir aðilar geti starfað saman að þessum þýðingarmiklu málum.

Hv. 8. landsk. þm. sagði, að það væru ekki rök í þessu máli sú deila, sem hér hefur verið um ráðningarskrifstofu Reykjavíkurbæjar og vinnumiðlunarskrifstofuna. Ég viðurkenni, að það eru ekki heildarrök í málinu, að þessi deila er fyrir hendi eða hvernig hún er, enda er það ekki borið fram af mér í málinu í því skyni, þó ég nefndi þetta og þeir hv. þm., sem tekið hafa til máls hér, að það er vitanlega óþarft að vera með tvær vinnumiðlunarskrifstofur hér í Reykjavík. Og ég hygg, að allir séu sammála um það. Og þó að það sé verið að gera grín að því að spara svona lítið eins og hér er um að ræða af hálfu ríkisins, eitthvað yfir eitt hundrað þús. kr., þá má náttúrlega gera grín að öllu. En það vill verða svo yfirleitt um alla hluti, þegar talað er um að reyna að spara fyrir ríkið og draga saman kostnað, að það verða einhverjir til að segja, að þeir vilji jú reyndar spara fyrir ríkið, en bara ekki á þessum lið, sem þá er um að ræða. Og ég held fram, að ekki sé ástæða til að ætla, þó að ein skrifstofa starfi í Reykjavík að vinnumiðlun, að það sé neitt verra en það fyrirkomulag, sem nú er, ef þeir, sem starfa eiga þarna, starfa saman á réttan hátt. — Það er jafnan svo, þegar bent er á eitthvað til að spara, að menn vilja bara ekki spara á þessum lið, en benda svo aldrei á, hvar þeir vilji, að sparað sé í staðinn.

Ég er sammála um það, að það geti verið nauðsynlegt að halda uppi samstæðri vinnumiðlun að einhverju leyti yfir landið. Og einmitt ákvæðin í 8. gr. frv. gera það að verkum, að það er hægt að grípa þannig inn í, ef ástæða þykir til. En mér er alveg óskiljanlegt, að nokkurt bæjarfélag muni láta hjá líða að setja upp einhvers konar vinnumiðlun innan sinna takmarka, ef bæjarfélagið telur, að það mundi koma að verulegum notum til þess að bæta úr atvinnuleysi að hafa slíka vinnumiðlun. En þegar til þess kæmi að setja tengsl á milli slíkra vinnumiðlunarskrifstofa, þá er það ríkisstjórnin, sem getur gripið þar inn í og leitað samráðs við vinnumiðlunarskrifstofurnar og tengt þær saman, eftir því sem frv. gerir ráð fyrir.

Hugleiðingar hv. 8. landsk. þm. um fólksflutninga til Reykjavíkur í sambandi við þetta mál, held ég, að eigi nú tæplega heima í sambandi við málið. Ég hef ekki trú á því, að samþykkt þessa frv. orki nokkru um vaxandi fólksflutninga til þess staðar né annarra, eftir að reynsla er fengin af því, hvernig löggjöfin frá 1935 um vinnumiðlun er notuð, þó að við séum sammála, hv. 8. landsk. þm. og ég, um, að slík áframhaldandi þróun, sem fólksflutningar til kaupstaðanna er, sé óheppileg og sjálfsagt sé að stuðla að því, að hún færist ekki í aukana.

Ég sé ekki beina ástæðu við þessa fyrstu umr. málsins að fara út í mjög langar umr. um það. En ég vildi taka þessi atriði fram út af ummælum hv. 8. landsk. þm. Ég sagði áðan, að ég væri fús til að ræða við þá hv. n., sem fær frv. til meðferðar. Því að sjálfsagt geta einhver ákvæði verið í frv., sem ástæða væri til að breyta að einhverju leyti, og er sjálfsagt að gera það, ef fram kemur, að hægt er að fá betra form á því.

Hv. 2. þm. Reykv. hélt hér alllanga ræðu, en kom allmikið inn á gengismál og verzlunarmál, sem ég vil ekki blanda inn í þetta mál nú. Hann sagði, að næsta skref ríkisstj. hlyti að verða, að hún bannaði með öllu að vinna. Ég veit ekki, hvað hv. þm. á við með þessu. Ég hef þann grun, að það séu aðrir menn en ríkisstj., sem stuðla að því leynt og ljóst að banna mönnum að vinna. Og getur vel verið, að þetta hafi verið svo nærri þessum hv. þm., að hann hafi ekki haft beint vald á því, sem hann sagði, þegar hann hélt þessu fram. En ummæli eins og þessi eru náttúrlega ekki svara verð. — Hv. 2. þm. Reykv. var líka með það, að það væri verið að rífa niður endurbótalöggjöf á sviði vinnumála, sem sett var á tímabilunum 1934 –1937 og 1944–1947. Já, mikið má af gera, ef þetta getur heitið því nafni, að verið sé að gera slíkt eins og þetta með flutningi þessa frv., eftir síðustu 15 ára reynslu. — Að öðru leyti vil ég ekki fara inn á ræðu hv. 2. þm. Reykv. Hún snerti þetta mál, sem fyrir liggur, mjög lítið. Um gjaldeyrispólitík og verzlunarpólitík ríkisstj. verður rætt á sínum tíma, en ekki er ástæða til að blanda umr. um þau mál hér inn í. — Ég sé svo ekki ástæðu, að svo stöddu, að fara fleiri orðum um þetta.