15.12.1950
Neðri deild: 41. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í B-deild Alþingistíðinda. (1967)

59. mál, vinnumiðlun

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Ég get ekki látið þetta mál fara fram hjá án þess að segja nokkuð. Mér er dálítið kunnugt um þetta, því það snertir allan verkalýð í Reykjavík. — Líklega frá 1926 og 27 og eftir 1930—32 var n., sem úthlutaði atvinnubótavinnu. Þá var ákveðið, hvað ríkið hefði mikið til úthlutunar, og þess vegna var álitið, að þegar ríkið lagði fé fram, fengju þeir atvinnubótavinnu, sem ekki höfðu hér heimili. En um leið og n. þessi hætti störfum 1935, þótti rétt að setja vinnumiðlunarskrifstofu og lagt mikið til atvinnubótavinnu. En eitt enn, 4942 er vinnumiðlunarskrifstofan látin hafa það starf að ráða og takmarka, hvert menn fari í vinnu. Á öllum þessum tíma var það opinbert leyndarmál, að ráðningarstofa Reykjavíkurbæjar, sem var þá, hefur alveg og alltaf verið notuð í pólitískum tilgangi. Ég get vel um þetta talað, því ég varð fyrir því. Ekki hefur verið kvartað til bæjarstj., en oft kvartað og mönnum hótað. Mönnum var sagt upp vegna skoðana, en ekki spurt, hvort þeir ynnu vel eða illa. Á þeim tíma, er allir gátu fengið vinnu, þá lögðum við hart að okkur í Dagsbrún að sameina þetta í eina skrifstofu. — Það er álit verkamanna, að við starfið þar væri ekki komið við „sorteringu“. Það er eingöngu vegna þess, að skrifstofan þar gerði ekki það, sem vinnumiðlunarskrifstofu er ætlað að gera. Það vantaði í starfið það, sem hv. þm. Ísaf. sagði í gær, það var notað í pólitískum tilgangi. Enda man ég vel, að þegar stór hópur manna var að vinna, voru oft einkennilegar uppsagnir, þegar fækkað var. Ekki var fækkað eftir verkfærni eða ástundun. Það er hart, þegar talað er um vinnusvik, þá er það hart fyrir verkamann, sem alltaf kemur til starfs síns og leysir verkið vel af hendi, að vera fyrst kastað út í atvinnuleysi, en aðrir lélegri verða eftir í vinnu. Það þarf ekki að fræða mig um þetta, — ég veit það vel.

En svo er komið með sparnaðartill. Mér finnst, að eftir því, sem málið liggur fyrir, og eftir því, sem komið hefur fram með álögum, sem eru lögð á verkafólk, að það sé hart að vilja fara að spara þetta nú, þegar meiri hlutinn af verkalýðnum í Reykjavík telur þetta öryggismál fyrir sig. Það er dálítið einkennilegt, svo ég segi ekki meira, að þegar nóg var atvinna, var haldið fast í ráðningarskrifstofu Reykjavíkurbæjar, en þegar atvinnuleysi er komið, dettur mönnum í hug að leggja hana niður. Þetta kemur manni dálítið einkennilega fyrir sjónir.

Ég er sannfærður um, og það er meiri hluti verkalýðsins, að þarna er ekki um sparnað að ræða. Hitt er annað mál, hvað komizt verður langt. — Ekki er það ósjaldan að menn, bæði til sjós og lands, eru látnir hafa pokann sinn, vegna þess að þeir hafa ekki verið í því andlega ástandi, sem æskilegt þótti. Ég held, að það verði aldrei til nota, að mennirnir fái ekki að njóta vinnunnar eftir verkhæfni. Það getur verið gróði í bili, en aldrei til lengdar. — Ég mun ekki hafa fleiri orð um þetta, því við vitum, að Dagsbrún og Alþýðusambandið hafa eindregið mótmælt þessu. — Það er ekki mikið gert með áskoranir og vilja þessa vinnandi fólks hér á Alþingi. Ég tel að málum verkalýðsins sé hvergi verr komið en hér á Alþingi.

Viðvíkjandi því, sem hv. 1. þm. Rang. sagði, getur þá verið, að honum finnist annað, en það er mín sannfæring, að verkamenn vita um þessar ofsóknir. Það er engin víðsýni, þótt hann tali um, að hv. þm. Ísaf. sé ekki í jólaskapi. Þetta er trú og sannfæring verkamanna, sem þurfa undir þetta að sækja, og maður getur ekki séð neina aðra ástæðu en þá, sem ég nefndi. Það þýðir ekki, hvort sem lítið eða mikið er um þetta rætt. Það er búið að koma sér saman um þetta, en það er á móti verkamönnum í Reykjavík og verkalýðssamtökunum í heild.