15.12.1950
Neðri deild: 42. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 914 í B-deild Alþingistíðinda. (1978)

59. mál, vinnumiðlun

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem ég vildi beina til hv. 7. þm. Reykv., borgarstjórans í Reykjavík. — Ég hef aldrei leitað til ráðningarskrifstofu Reykjavíkurbæjar, en við skulum bara athuga hana. Það hefur verið borgarstjóri í Rvík á undan þessum borgarstjóra, og ég geri ráð fyrir, að starf borgarstjórans nú í þessum málum sé nákvæmlega áframhald af því, sem verið hefur. Og við skulum líta á þetta tímabil, sem ég nefndi áðan, frá 1939–40. Þá átti ég einmitt í stríði með atvinnu hér í Rvík, og það hefur ekkert breytzt, og ég er viss um, að hv. 7. þm. Reykv. veit það alveg tvímælalaust, að þetta er sama stefna og var þá. Ég, sem hef lifað þá tíma, óska ekki eftir, að verkamenn lifi upp þann atvinnuleysistíma, með því fyrirkomulagi, sem þá var, þó að ég sé hræddur um, að nú sé heldur farið að síga á þá hlið.

Það er auðséð á öllu, enda kemur það dálítið greinilega fram í brtt. hv. 5. þm. Reykv., sem hann ber hér fram, að í raun og veru virðist eiga að færa nafn vinnumiðlunarskrifstofunnar yfir á ráðningarskrifstofu Reykjavíkurbæjar, þannig að vinnumiðlunarskrifstofa Rvíkur heiti bara vinnumiðlunarskrifstofa, og þessi nýja stofnun verði í rauninni ekkert annað en framhald af ráðningarskrifstofu Reykjavíkurbæjar. Það er nefnilega gefið til kynna, að það sé yfirstjórn Reykjavíkurbæjar, sem eigi að ráða hér, og þó að það væri ekkert annað en þetta, mega hv. þm. vita, að af þessu mundi leiða ákaflega mikla tortryggni verkamanna hér í Rvík. Það verður að teljast mjög óréttlátt að ætla að bera þannig fyrir borð hagsmuni þeirra aðila, sem hér eiga hlut að máli, að þeir fái ekki að hafa hér hönd í bagga, og ég er viss um, að engin verkalýðsfélög hér í Rvík mundu fást til þess að mæla með þessu. Og þó að hæstv. Alþ. sjái sér ekki fært að taka tillit til þess, en það verða verkamenn svo oft að sætta sig við, þá hlýtur að koma að því, að verkamenn, sem vinna að þessum störfum, verða að hafa einhverja íhlutun um það, hvernig þeim verður ráðstafað.

Hv. 7. þm. Reykv., borgarstjórinn í Rvík, sagði, að það væru staðleysu stafir, að um atvinnukúgun væri að ræða. Það er ég alveg viss um, að hv. þm. segir móti betri vitund, því að reynslan sýnir það ljóslega, að menn hafa verið reknir úr vinnu aðeins fyrir sínar pólitísku skoðanir. Sé farið í gegnum sögu verkalýðshreyfingarinnar, kemur í ljós, að allir þeir, sem hafa barizt fyrir þessum frjálsu réttindum fólksins, hafa verið meira og minna útilokaðir af atvinnurekendavaldinu. Sú hefur verið saga verkalýðshreyfingarinnar, og ég er viss um, að enginn hv. þm. getur borið á móti þessu. Þetta er ekki eingöngu hér, því að þetta hefur ætíð verið svo um allan heim, ef undirokaðir menn hafa verið að reyna að ná rétti sínum, að þá hafa valdhafarnir alltaf útilokað þá menn, sem hafa haft forustuna fyrir því, og þetta er einmitt það, sem við viljum, að vinnumiðlunin komi í veg fyrir, að menn séu sviptir atvinnu og lífsbjörg fyrir sínar skoðanir, fyrir það, að þeir eru að berjast fyrir rétti sínum. Og það er það, sem fólk er hrætt um, að þótt ástandið sé slæmt eins og nú er, þá versni það við þetta.