15.01.1951
Neðri deild: 49. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í B-deild Alþingistíðinda. (1991)

59. mál, vinnumiðlun

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Þetta mál var nú rætt mikið við 1. og 2. umr. málsins, svo að það er kannske ekki mikil ástæða til að lengja þessar umr. Því að ef það er þingvilji að stíga þetta spor aftur á bak, sem stefnt er að með frv. þessu, þá verður það sjálfsagt ekki hindrað.

Ég vil lýsa yfir fyrir mitt leyti, að ég tel þær brtt., sem hér liggja fyrir frá tveimur hv. þm., nokkuð til bóta á frv., ef þær næðu samþykki, þó að þær séu ekki fullnægjandi. Á þessum tímum, þegar atvinnuleysið sýnist vera að halda mjög alvarlega innreið í landið, er ákaflega táknrænt, að til skuli vera hér afturhaldsstjórn, sem telur sér nauðsynlegt að reyna að koma í veg fyrir, að atvinnuleysisskýrslur verði birtar í landinu. Nú er það sjálfsagt ekki nema í samræmi við aðrar aðfarir þessarar hæstv. ríkisstj., að þetta sé gert. Þetta er framhald af afskiptaleysi hæstv. ríkisstj. af togaraverkfallinu á síðasta ári, afskiptaleysi, sem leiddi til þess, að landið tapaði stórfé í gjaldeyri og að stórvirkustu atvinnutækin voru látin liggja ónotuð mánuðum saman. Nú kann að vera, að einhverjir segi, að það hafi þó loksins verið farið í það að leysa þetta mál af hálfu hæstv. ríkisstj., og er það rétt. En á sama hátt og hæstv. ríkisstj. fór í það að leysa togaraverkfallið seint og um síðir, hefði hún getað tekið að sér að leysa það snemma á verkfallstímanum. Það var því miður ekki gert. En í framhaldi af þessu er nú bátaútvegurinn látinn liggja óvirkur vikum saman, og sýnist ekki, að neitt sé aðhafzt af hálfu hæstv. ríkisstj. til þess að fá þar á einhverja lausn. Alþ. skildi svo fyrir jólin, að alþm. fóru heim í jólafrí, þannig að ekkert var gert til þess að reyna að undirbúa, að vélbátaflotinn gæti farið af stað á veiðar. Og þetta er gert á þeim tímum, þegar svo vill til, að það ástand er að skapast í öðrum löndum, að helztu nauðsynjar vélbátaflotans eru að verða alveg ófáanlegar. Veiðarfæri hækka í verði vikulega eða jafnvel oftar, og mikill hluti af þeim nauðsynjum, sem bátaútvegurinn þarf, er stríðsvarningur, sem verður erfiðara og erfiðara að fá með degi hverjum.

Mér skilst, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, sé í fullu samræmi við aðgerðaleysi hæstv. ríkisstj. í togaraverkfallinu og aðgerðaleysi hennar og dugleysi um það að koma vélbátaflotanum af stað. Ég hef heyrt það sagt, að það muni hafa verið haft hér á orði, að það gerði e.t.v. ekki mikið til, þó að vélbátaflotinn lægi óhreyfður út janúarmánuð. En nú vill svo til, að hér við Faxaflóa a.m.k. eru gæftir daglega, þannig að það er sennilega ekki minna en tugir millj. kr., sem tapast við það, að vélbátaflotinn kemst ekki af stað í janúarmánuði. Nú, af þessu hlýtur að skapast atvinnuleysi, og er það í fullu samræmi við aðrar aðgerðir hæstv. ríkisstj. að reyna að breiða yfir það með því að birta ekki opinberar skýrslur um ástandið í þessum málum. Og á sama tíma, sem aðrar þjóðir telja sér skylt að fylgjast vel með atvinnuástandinu í löndum sínum, eigum við íslendingar ríkisstj., sem lætur sig slíkt engu varða. Það má vera, að þessi hæstv. ríkisstj. fái heldur léleg eftirmæli, þegar að því kemur, að hún láti af völdum, en hún reisir sér sjálf minnisvarða með verkum sínum, og þessi minnisvarði verður fyrst og fremst byggður á þremur atriðum: afskiptaleysinu af togaradeilunni, sinnuleysinu um stöðvun bátaútvegsins og þessu frv., sem hér liggur fyrir. Í fornöld var talið, að það að reísa níðstöng væri til skammar og miska fyrir þann, sem fyrir því yrði, og hæstv. núv. ríkisstj. hefur reist sjálfri sér þrefalda níðstöng með verkum sínum.