14.11.1950
Neðri deild: 21. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 961 í B-deild Alþingistíðinda. (2109)

88. mál, aðstoð til útvegsmanna

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði fyrir um hálfum mánuði síðan aðstöðu til þess sem starfandi í nefnd hjá Landssambandi ísl. útvegsmanna að kynna mér þetta frv., og eins og hæstv. atvmrh. gat um, þá liggur það álit væntanlega fyrir hv. sjútvn. þessarar d. Ég sé, að hæstv. ríkisstj. hefur að vissu leyti tekið til greina þær aths., sem nefndin frá L.Í.Ú. gerði við frv., en að vissu leyti ekki. Og enn fremur held ég, að frv. hafi breytzt nokkuð til hins verra, frá því að það var lagt fyrir L.Í.Ú. Ég fer ekki út í það, sem tekið hefur verið til greina af þessu. En ég vil sérstaklega benda á, að nefndin frá L.Í.Ú. taldi síðustu málsgr. 1. gr. frv. vera heldur óhyggilega, vegna þess að með henni yrði varla hægt að koma við frjálsum skuldaskilum, ef erfiðleikar væru fyrir hendi, fyrr en búið væri að ljúka þeim lögbundnu skuldaskilum. Þetta taldi nefnd L.Í.Ú. heldur óheppilegt, vegna þess að hún lítur svo á, að bæði væri betra fyrir útvegsmenn og fyrir ríkið, að sem allra flestir gætu komizt í frjáls skuldaskil sem möguleikar væru á. Ég veit, að hæstv. atvmrh. mun vera þetta ljóst. Og ég mun freista þess að vita, hvort ekki muni vera á síðara stigi málsins þingvilji fyrir þessu á þennan hátt, sem n. frá L.Í.Ú. stakk upp á.

Ein af breyt., sem ég tel, að gerðar hafi verið til hins verra á frv., er sú breyt., sem gerð hefur verið á 3. gr., að jafna greiðslum þeim, sem áfallnar eru og nema nokkuð mörgum milljónum kr., niður á þau þrjú ár, sem eftir eru lánstímans, eins og til er tekið í gr., í stað þess að færa lánstímann aftur um þrjú ár. Ég hygg, að það muni þurfa mjög miklar breyt. á aðstöðu útvegsmanna til þess að auðið verði fyrir þá að standa í skilum með þessar afborganir á þennan hátt, sem gert er ráð fyrir í frv., og þess vegna hefði verið réttast að halda frv. eins og það var að þessu leyti, þegar það kom til Landssambandsins. — Ég vildi enn fremur benda á það í framhaldi af álitsgerð L.Í.Ú., að ekki verður séð, hvernig hægt er að komast af um það að fullnægja öllum greiðslum útvegsmanna, sem eru í vanskilum, með þeirri skuldabréfaútgáfu, sem gert er ráð fyrir í frv. Enda hefur skilanefndin bent á það í bréfi sínu frá 13. okt. s.l., að sjóðurinn muni þurfa að hafa nokkurt laust fé til umráða. Vera má, að það sé í ráði og að hæstv. atvmrh. viti af því, að einhverjir möguleikar séu til þess að útvega laust fé, og að hann sé búinn að gera sér grein fyrir, hvar hægt sé að fá það, og ætli að aðstoða skilanefndina um útvegun á því, þegar búið er að afgreiða þessa löggjöf, og væri þá æskilegt að fá upplýsingar um það.

Mér heyrðist hæstv. atvmrh. segja eitthvað á þá leið, að það væri í seinni kafla þessa frv. að verulegu leyti farið eftir þeim skuldaskilasjóðslögum, sem samþ. voru á Alþ. 1935, en að vissu leyti hafi verið breytt út af því, m.a. á þann hátt, að skuldabréf þessa nýja skuldaskilasjóðs, sem gert er ráð fyrir að gefa út, eigi ekki að hafa eins mikla greiðsluhæfni og hin eldri skuldabréf. Ef við athugum, hvernig þetta mundi vera í framkvæmd, þá yrði það sennilega þannig, að verzlanir, verkstæði og ýmsar stofnanir, sem eiga fé hjá útveginum, mundu fá þessar skuldir borgaðar að einhverju leyti með þeim skuldabréfum, sem getið er um í þessu lagafrv. Skuldabréfin mega vera gefin út til allt að fimmtán ára og vera með 41/2% vöxtum. Sennilega eru þessar skuldir það lítið veðtryggðar, að með skuldabréfunum mundi ekki greiðast nema 1/5 hluti þeirra eða svo. Auðvitað eru einhverjir möguleikar fyrir því, að hærra hlutfall mundi verða greitt. En mikið af þessum skuldum mundi ekki greiðast með meiru. En þá yrði í þessum tilfellum skuldareigandi að afskrifa 4/5 hluta skuldarinnar og taka sem greiðslu skuldabréf til 15 ára með 41/2 % vöxtum upp í einn fimmta hluta skuldarinnar. En hvergi er gert ráð fyrir, að hann geti komið þessum skuldabréfum neinn veginn fyrir sig til að greiða skuldir, sem hann er í við önnur fyrirtæki eða við ríkissjóð eða ríkisstofnanir. Ég hef ekki neina sérstaka samúð með þessum fyrirtækjum, sem ég nefndi. En ég get vel trúað því, að þessi ákvæði gætu orðið til þess að torvelda mörgum þeirra að halda áfram sínum rekstri. Í eldri skuldaskilasjóðslögunum var gert ráð fyrir, að skuldabréfin væru með nafnverði gildur gjaldeyrir til greiðslu á skuldum, sem stofnaðar væru fyrir 1. janúar 1935, að svo miklu leyti sem þær væru ekki fulltryggðar, með fasteignaveði eða handveði o.s.frv. Enn fremur skyldu skuldabréfin gilda sem gjaldeyrir með nafnverði til greiðslu á víxlum, sem gefnir hefðu verið út eftir 1. jan. 1935, ef skuldin var stofnuð upphaflega fyrir þann tíma. Skuldabréfin voru þó eftir þessum eldri lögum ekki gildur gjaldeyrir fyrir ríkissjóð, ríkisstofnanir, banka, sparisjóði, bæjarfélög eða sýslufélög til þess að greiða skuldir sínar með þeim. Í þessu frv. er hins vegar gert ráð fyrir því, að skuldabréfin séu aðeins gildur gjaldeyrir til greiðslu á skuldum útvegsmanna, sem fá lán hjá sjóðnum, m.ö.o., að skuldareigandi, sem þarf að afskrifa verulega mikinn hluta af sínum útistandandi skuldum hjá útveginum, getur ekki komið þessum bréfum fyrir sig á sama hátt og gert er ráð fyrir í eldri skuldaskilasjóðslögunum. Ég hygg, að hæstv. atvmrh. hljóti að hafa tekið eftir þessu, og vildi ég gjarnan fá að heyra álit hans á því, hvort hann héldi ekki, að þetta gæti valdið öðrum en vélbátaeigendum allmiklum vandræðum. Nefndin frá Landssambandinu benti lauslega á þetta í bréfi sínu til hæstv. ráðh., svo að mér þykir líklegt, að hann sé þegar búinn að athuga nokkuð um þetta mál.

Ég vildi sem sagt leggja áherzlu á það, að ég teldi, að það þyrfti að taka mjög rækilega til athugunar, hvort ekki ætti að hafa ákvæðin um þau frjálsu skuldaskil nokkru rýmri en gert er í frv. Og enn fremur hygg ég, að þetta atriði, sem ég benti nú á, þyrfti að takast alveg sérstaklega til athugunar.

Ég vildi svo auk þess benda á, að fyrir utan þær veðskuldir, sem hvíla á útgerðinni, þ.e. venjulegu veðskuldir, þá mun hvíla á henni talsvert mikið af skuldum, sem tryggðar eru með sjóveði í skipum, bæði vátryggingarupphæðir og iðgjöld til almannatrygginganna og í þriðja lagi svo nefndar sjóveðskröfur. Hæstv. ráðh. gat þess ekki í sinni framsögu, hvað hugsað væri fyrir um greiðslur á þessum kröfum. En auðséð er, að skuldabréf sjóðsins geta ekki komið þar til greina sem gjaldeyrir, enda væri það algerlega óeðlilegt, a.m.k. hvað viðvíkur sjóveðskröfunum. Vera má, að ætlunin sé, að aflatryggingasjóður greiði þær af hendi. En ég vildi sérstaklega óska þess, að hæstv. atvmrh. upplýsti nú við þessa umr., eða svo fljótt sem hann telur sér fært, hvað hann hugsar sér um greiðslur á sjóveðskröfum háseta frá s.l. sumri, sem eftir standa hjá útgerðinni. Ég hef minnzt á þetta áður hér á hæstv. Alþ., að það er hæstv. Alþ. tæplega sæmandi að taka af hásetunum réttinn til þess að innheimta sjóveðskröfur með málsókn eins og alþjóðavenja er til og svo sem réttur er til á öllum öðrum skipum en þeim, sem stundað hafa síldveiðar hér við land, án þess að á móti komi, að Alþ. sjái um greiðsluna á þessum skuldum, annaðhvort með því að innleysa sjóveðskröfurnar eða greiða þær. — Ég hef séð því haldið fram í einu stórblaðinu, — ég hygg, að það sé Tíminn, — að sjómenn, sem hafi stundað síldveiðar á síðasta sumri, hafi fengið sína kauptryggingu greidda frá ríkinu. Og hefur blaðið farið háðulegum orðum um þá „moðhausa“, sem ekki skildu þetta. Nú er sannleikurinn sá í þessu, að sjómenn, sem ráðnir eru upp á mjög lága kauptryggingu á síldveiðunum, munu hafa fengið greiddar úr aflatryggingasjóði kröfur sínar, sennilega fram til 10. ágúst eða þar um bil. En allir eða flestallir munu þeir eiga inni um mánaðarkaup eftir, sem mundi verða 1500 til 1800 kr., en frá því dregst fæði, sem í mörgum tilfellum hefur kostað 600 til 800 kr. fyrir þennan tíma. — Eins og ég sagði, hefur sjómönnum verið fyrirmunað með lögum frá Alþ. að innheimta þessar kröfur. Og ég veit, að hæstv. atvmrh. er mér sammála um það, að það er Alþ. tæplega sæmandi að láta þetta ástand haldast lengi. Ég óska því, að ef hæstv. atvmrh. gæti, svaraði hann mér um það, hvernig hann hugsar sér fyrst og fremst, að þessar sjóveðskröfur yrðu greiddar, og í öðru lagi, hvernig hann hugsar sér að útvega skuldaskilasjóði fé til þess að greiða þær aðrar sjóveðskröfur, sem alveg auðséð er, að skuldabréf eiga ekki að ganga til greiðslu á.

Ég skal ekki fara að ergja menn á því að gera hér neinn samanburð. Það er eins og menn þoli það ekki og tali um það, að farið sé út í meting á milli landbúnaðarins og sjávarútvegsins. En mér er mjög vel kunnugt um það, að margir útvegsmenn líta á þau lán, sem veitt hafa verið til útgerðarinnar á undanförnum árum, á sama hátt og allur almenningur í landinu og Alþ. lítur á það fé, sem notað hefur verið til sauðfjárveikivarnanna, sem eins konar hallærishjálp, sem ekki eigi að grípa til, nema alveg bráðnauðsynlegt sé, og eigi ekki að færa til skuldar hjá þeim, sem hafa fengið það. Vissulega hefur síldarleysið undanfarin ár gert sjávarútveginum ekki minna tjón en sauðfjárveikirnar sveitunum, en nú eru útgerðarmenn krafðir um þá hjálp, sem þeim var veitt, og auglýst eftir kröfum í bú þeirra, og ríkissjóður gerir kröfu sem aðrir kröfuhafar. — Ég ætla ekki að fara frekar út í þetta, því að ég vil komast hjá að vekja deilur, en ég komst ekki hjá að gera ofurlítinn samanburð og tel, að ég hafi gert það með fullum rétti og af fullri sanngirni. Út af fyrirspurnum mínum til hæstv. atvmrh. vona ég, að hann svari þeim nú, ef hann getur.