16.11.1950
Neðri deild: 22. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 990 í B-deild Alþingistíðinda. (2119)

88. mál, aðstoð til útvegsmanna

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Á fundi þeim, sem sjútvn. átti með nefnd frá landssambandinu, tók ég fram, að við hefðum ekki enn sem komið væri athugað þetta frv. nema í aðaldráttum. En við töldum þar um þrjú stór atriði að ræða, og eftir þeim að dæma taldi ég frv. meingallað. Nú er um að ræða mismunandi skilning minn og hæstv. ráðh. Mér skilst, að hann haldi því fram, að 1. kafli frv. fjalli eingöngu um þá, sem hafi frjáls skuldaskil, en ég hygg, að hann fjalli einnig um bundin skuldaskil. Það er ekki hægt að undanskilja síðasta málslið 1. gr., og það hygg ég hæstv. ráðh. hljóti að sjá, ef hann athugar t.d. 26. gr., en þar stendur m.a., með leyfi hæstv. forseta: „Skuldir tryggðar með veði, þó því aðeins, að skuldarupphæð nemi eigi meiru en verðmæti veðsins. Sé skuldin hærri en verðmæti veðsins samkv. mati því, sem lagt er til grundvallar við samningsgerðina, ná samningar til þess hluta skuldarinnar, sem fer fram úr mati veðsins.“ En í 1. gr., 1. tölulið, er talað um „Sjóveðs- og aðrar lögveðskröfur, er ríkissjóður hefur innleyst“ o.s.frv., og í 3. gr. er talað um greiðslufrest á lánum úr Stofnlánadeild og Fiskveiðasjóði. En ákvæðin í 4. og 3. gr. eru einmitt sett vegna ákvæðanna í 26. og 27. gr. um að samningurinn hafi ekki áhrif á skuldir tryggðar með veði. Af þessu hygg ég augljóst, að ef felld yrði niður síðasta málsgr. 1. gr., þá mundi 1. gr. gilda jafnt um lögþvingun skuldaskil og hin frjálsu, og misrétti það, sem hæstv. ráðh. talaði um, væri ekki fyrir hendi. — Ég vona, að ég hafi gert þetta ljóst og það hafi aðeins verið á misskilningi byggt, ef hæstv. ráðh. hefur verið á móti breytingu, og að andmæli hans gegn því séu þar með niður fallin.