12.12.1950
Neðri deild: 37. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í B-deild Alþingistíðinda. (2136)

88. mál, aðstoð til útvegsmanna

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Út af brtt. þeirra hv. þm. Ísaf. (FJ) og hv. 2, landsk. þm. (LJós) á þskj. 347 vil ég segja nokkur orð. — Varðandi 1. brtt., stafl. a, er það að segja, að eins og ég hef áður tekið fram í hv. d., treysti ég mér ekki til að fylgja henni eða leggja til frekari tilslökun í þessu efni en ákvæði frv. gera ráð fyrir eins og þau nú eru. — Varðandi b-lið og c-lið og varðandi 3. brtt. vil ég leyfa mér að fara fram á það, að hv. flm. taki þær aftur, enda þótt þetta sé síðasta umr. í þessari hv. d. — Ástæðan fyrir þessari ósk er sú, að ég hef að undanförnu, í samráði við og samkv. tilmælum hv. stuðningsmanna ríkisstj. og hv. sjútvn., verið málefnalega að athuga þessi atriði. Og þótt ég vilji ekki á þessu stigi málsins gefa fyrirheit um það, að ég muni bera fram brtt. um þessi atriði í hv. Ed., þá vil ég þó segja um þessar brtt. allar þrjár, að stj. og hennar flokksbræður í sjútvn. hafa verulega tilhneigingu til þess að hlutast til um, að þær í aðalatriðum verði teknar til greina, og er þó við það að bæta því, að sú till. af þessum, sem enn er sízt til mergjar brotin, er b-liður 1. brtt. Sá liður fjallar um það, að heimilt skuli stjórn skuldaskilasjóðs að ákveða, að greiðslufrestur samkv. 1. málsgr. þessarar gr. skuli einnig veittur þeim útgerðarmönnum, sem síldveiðar stunduðu fyrir Norðurlandi 1945–1950 og hafa ekki fengið aðstoðarlán, enda telji sjóðsstjórnin þá eiga erfitt með greiðslu. — Það má vel færa rök að því, að þetta sé sanngirnismál, og verður að viðurkenna, að þeir útvegsmenn, sem lent hafa í þessum sex hallærisútgerðarárum og hafa reynt að brjótast fram úr vandræðunum af eigin rammleik, eigi allríkan siðferðislegan rétt á því að lenda ekki í öðrum og meiri vandræðum vegna þeirra örðugleika að standa í skilum varðandi stofnlánin en aðrir menn, sem notið hafa stuðnings ríkissjóðs við sína útgerð á þessu árabili. Þessi hugsun er sanngjörn, og á hana föllumst við einmitt af þeim ástæðum, sem sjútvn. í samráði við stj. hefur verið að tala um þessa hlið málsins. En í þessu fylgir nokkur böggull skammrifi, ef þessi till. verður samþ., og þori ég því ekki að lofa, að samþ. verði till. efnislega svipuð þessari, þó að þetta hugarfar, sem ég hef nú lýst, hafi orðið þess valdandi, að einmitt þetta mál hefur verið rætt af þeim aðilum, sem ég nefndi. Ég mundi þó telja rétt, ef slík till. yrði samþ., að heimildin væri bundin því, að stjórn skuldaskilasjóðs væri sammála um, að greiðslufrestur yrði veittur.

Um c-liðinn, sem fjallar um það, að dráttarvextir af vangoldnum afborgunum af lánum Stofnlánadeildar og Fiskveiðasjóðs skuli ekki reiknast fyrir þann tíma, sem liðinn er, en frá gildistöku þessara laga skuli dráttarvextir reiknaðir 0.5% af vangoldinni upphæð fyrir hvern mánuð, sem greiðslan dregst — eins og þar stendur —, vil ég segja það, að það er alveg rétt, sem frsm. sagði, að það má færa mjög sterk rök fyrir sanngirni þessarar till. Þessir menn, sem hér er um að ræða, hafa verið í svo miklum vandræðum með allan sinn atvinnurekstur og alla sína afkomu, að við erum einmitt að fjalla um sérstaka hjálp þeim til handa, og væri ekkert óeðlilegt, að sú hjálp yrði teygð það langt, að þeir fengju þessa umræddu eftirgjöf. Það verður að viðurkenna, að sú hugsun, sem hér liggur til grundvallar, hefur við rök að styðjast, og ég held, að megi segja um þessa sérstöku till., að hún hafi þegar verið rædd nokkuð við Landsbankann, og verður ekki annað sagt en að hún hafi yfirleitt mætt velvilja þeirra aðila og enn fremur sjútvnm. þeirra, er ég áður greindi, og ríkisstj. allrar.

Þá er 3. brtt. þess efnis, að stjórn skuldaskilasjóðs verði skipuð fimm mönnum í stað fjögurra, eins og frv. gerir ráð fyrir, og sé einn tilnefndur af Landssambandi ísl. útvegsmanna. Okkur finnst, sem um þetta mál höfum fjallað, að það væri síður en svo goðgá, að Landssambandið fengi að tilnefna þarna einn mann, en það liggur ekki í hlutarins eðli, að þetta sé nauðsynlegt, og ég man ekki betur en að hv. þm. Ísaf. hafi verið á sínum tíma flm. að líkri lagasetningu, þar sem útgerðarmenn höfðu engan mann í stjórninni.

Ég vona þá, að mönnum hafi skilizt, að þeir af stjórnarliðinu, sem um þetta hafa fjallað, hafa tekið með fullri góðvild á þessum till., þó að, eins og ég áður sagði, b-liður 1. brtt. sé minnst til mergjar brotinn. Og ég hygg, að það væri leiðinleg málsmeðferð, ef þyrfti að ganga til atkv. um þessar till. hér og afgr. þær á þann hátt, að þær féllu, og vona ég því, að hv. flm., eftir að hafa heyrt þessa skýringu af minni hendi, telji einnig rétt að taka þessar 3 till. aftur, þannig að tækifæri gefist til að flytja þær í svipuðu efnislegu formi í hv. Ed.

Varðandi svo þá einu till., sem ég hef ekki enn gert að umtalsefni, þ.e. 2. brtt., um það að stjórn skuldaskilasjóðs skuli heimilt að veita undanþágu frá ákvæði þessarar gr., þ.e. 5. gr., um auglýsingu, ef hún telur, að umsækjandi hafi gert fulla grein fyrir fjárhag sínum, — má einnig færa nokkur rök fyrir réttmæti hennar, eins og 1. flm. einnig gerði, en ég verð þó að viðurkenna, að þessi till. hefur ekki verið rædd innan ríkisstj., en tel þó fyrir mitt leyti nokkuð varhugavert að ganga inn á hana, því að það væri einnig viss vandi settur á herðar sjóðsstj., ef hún fengi þannig heimild til þess að veita undanþágu, það væri mikill vandi á höndum hverju sinni að kveða á um það, hverjir ættu að njóta þeirrar undanþágu og hverjir ekki, og ég hygg, að sjálft frv. losnaði nokkuð úr böndunum, ef slík till. væri samþ. Ég sæki það þó ekki svo fast, en ef ég ætti að greiða atkv. um þessa till. nú, mundi ég ákveðið greiða atkv. gegn henni, eins og a-lið 1. brtt.

Efni málsins er þá það, að ég mælist til við hv. flm.; með tilvísun til þess, sem ég hef um þetta sagt, að þeir taki aftur b- og c-lið 1. brtt. og 3. brtt., en ég verð undir öllum kringumstæðum mótfallinn a-lið 1. brtt. og á þessu stigi málsins einnig mótfallinn 2. brtt.