19.12.1950
Neðri deild: 45. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1098 í B-deild Alþingistíðinda. (2241)

121. mál, almannatryggingar

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það gæti verið full ástæða fyrir mig til að tala hér langt mál vegna þeirra ræðna, sem hv. 2. þm. Reykv, og þm. Hafnf. o.fl. hafa flutt hér, en ég mun þó ekki gera það nú. — Það er, eins og hv. þm. vita, nauðsynlegt, að Alþingi ljúki störfum í dag vegna brottfarar þeirra margra með einu strandferðaskipanna kl. 8.

Nú hefur verið að rigna yfir brtt. skriflegum og tekur nokkra stund að athuga þær. Að vísu get ég tekið fram um till. hv. þm. Ísaf., að mér finnst óhugsandi að samþ. hana, því að í henni er raunar sagt, að ekkert skuli innheimta, ef illa árar, þ.e.a.s. ef fjárhagsgetan er ekki góð. En hins vegar tel ég, að það mætti vel athuga till. hv. þm. Hafnf. En það er aðeins útúrsnúningur hjá þessum hv. þm. að segja, að það megi taka 100% hluta af óinnheimtu útsvari, því að 100% er ekki hluti, og mér þætti gaman að sjá, hvað hv. þm. ætti marga hluta eftir, ef hann tæki 100%, svo að þetta er einungis útúrsnúningur, enda er ekki ætlazt til, að allt sé tekið. Ég undrast mjög ummæli hv. þm. þess efnis, að gengið sé í þessari till. hart að frelsi sveitarfélaganna, því að frelsi þeirra var áreiðanlega skarðara áður, þar sem hægt var að setja sveitarfélög undir opinbert eftirlit. Og ég er viss um það, að ekki er hægt að ganga lengra í því að gera sveitarfélögin ómyndug en með því að setja þau undir opinbert eftirlit. En í þessari till. hér er verið að brúa þetta millibil.

Ég ætla mér ekki að hefja almennar umr. um þetta mál nú, því að ég vil ekki setja afgreiðslu frv. í hættu, þar sem svo stuttur tími er til stefnu, og hér er eftir að ræða mál, sem taka mun að öllum líkindum nokkurn tíma.

Ég vil leyfa mér að leggja til við hæstv. heilbr.- og félmn., að hún taki till. sína aftur, og vil ég lýsa yfir í þessu sambandi, að ég mun strax eftir þinghléið bera fram frv. til laga um þetta mál.

Ég mun svo ekki segja meira um þetta, en vil heyra, hvað hv. frsm. n. hefur um þetta að segja.