02.02.1951
Efri deild: 60. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1156 í B-deild Alþingistíðinda. (2446)

173. mál, gengisskráning o.fl.

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Þegar gengislækkunarlögunum var breytt skömmu fyrir jól, var það gert vegna þess, að ríkisstj. sá fram á, að verulegar verðhækkanir voru í aðsigi. Þá þótti nauðsynlegt að fella niður lagaskyldu atvinnurekenda til að greiða vísitöluuppbót á laun samkv. gengislækkunarlögunum. Þessu var mótmælt af mér og fleiri hv. þingmönnum.

Í gengislækkunarlögunum frá í marz s.l. voru atvinnurekendur skyldaðir til að greiða kaup samfara vaxandi dýrtíð. Það var sýnt, að stórfelldar hækkanir mundu eiga sér stað frá desember 1950 til júlí 1951, sem hefði þá átt að bæta upp með hækkuðu kaupi. Fyrir jólin var látið nægja að fella niður lagaskuldbindingu atvinnurekenda um kaupgreiðslu samkv. vísitölu. Síðan þetta gerðist mun nú ráðið, hvernig vandamál vélbátaflotans verði leyst. Þannig verða nú 100 millj. kr. af útflutningsverðmætinu gerðar að braskvöru á innlendum markaði. Þetta þýðir, að það verða enn þá stórkostlegar verðhækkanir. Vegna þessa nægja ekki lengur þær ráðstafanir, sem í lögunum felast. Nú á að fella úr gildi ákvæði þeirra samninga, sem gerðir eru á frjálsan hátt. Þetta var aldrei meiningin samkv. lögunum, sem samþ. voru fyrir jól. Frsm. þessa frv. sagði, að það væri ekki þörf á langri framsöguræðu. Meining löggjafans með lögunum fyrir jólin var þá sú, að þau áttu að skiljast eins og þetta frv. Ég vil fullyrða, að þetta er algerlega rangt. Ástæðan er sú, að þá hélt ríkisstj., að ekki þyrfti meira að gera, atvinnurekendur og verkalýðsfélögin gætu átzt við sjálf. En nú nægir þetta ekki lengur.

Sú lausn, sem ríkisstj. hefur fengið fyrir vélbátaútveginn, varð dýrari en ráð var fyrir gert. Ef svo hefði ekki verið, hefði ríkisstj. ekki farið þessa leið. Hví hefur ríkisstj. þá ekki beðið dóms og fengið úr þessu skorið? Ef dómur hefði gengið svo, að hann hefði orðið samkv. skilningi verkalýðsfélaganna, þá hefðu atvinnurekendur sagt upp samningum, og þá var það frelsi fengið. — Nú segir svo í 1. gr. þessa frv.: „Frá 1. febr. 1951 skulu laun ekki taka breytingum frá því, sem greitt var í janúar þ. á., nema svo verði ákveðið í kjarasamningum gerðum eftir þann tíma.“ Hér er boðið upp á það, að segja skuli upp gildandi samningum. Þetta á víst að miða að því að afstýra ófriði og deilum í landinu.

Þetta er vægast sagt furðuleg aðferð. Til að fá nokkra breytingu þarf að segja upp samningum. Ég held, að því miður verki þessar ráðstafanir þveröfugt.

Hæstv. forsrh. taldi, að andstæðingar þessa frv. hefðu haft þá skoðun á desemberlögunum, að bannað væri að greiða hærra kaup en samkv. vísitölu 123. (Forsrh.: Alþýðusambandið krefst nú kaupgreiðslu samkv. vísitölu 128. ) Ég spurði um það í deildinni hér í desember, hvernig færi um þau félög, sem hefðu enga vísitölu í sínum samningum. Ég þurfti ekki að spyrja um þau félög, sem höfðu skýlaus ákvæði um vísitölu í sínum samningum. Mér hefur enn ekki verið svarað þessu. Ég tel þetta þó ekki mína skyldu, að vera að benda á þetta. Ég er þeirrar skoðunar, að hér sé um að ræða breytt viðhorf, sem veldur flutningi þessa frv.

Um 2. gr. þessa frv. verð ég að segja það, að hún er einhver hin furðulegasta lagasmíð, sem ég hef nokkurn tíma komizt í kynni við. Ég fæ ekki betur séð en að hún breyti ákvæðum gildandi laga ekki neitt, heldur skuli ákvæði gengisskráningarlaganna um verðlagningu landbúnaðarafurða haldast óbreytt. Með þessu er enginn hnútur leystur, engin ný ákvæði koma inn. (GJ: Það er felld niður 2. mgr. úr 9. gr.) Ég bið afsökunar, ef eitthvað er í þessu, sem ég hef misskilið, en ég fæ ekki betur séð en þetta sé rétt, sem ég segi, eða a.m.k. er orðalag greinarinnar þá mjög undarlegt og óskýrt, og ég sakna þess mjög, að ekki hefur unnizt tími til að semja ýtarlegri grg. en gert hefur verið. En það er grunur minn, að þessi grein sé sett til þess að láta líta svo út, að þetta frv. fjalli ekki eingöngu um bindingu vísitölu hjá launafólki, og virðist mér þessi grein harla þýðingarlítil, og er það ætlun mín, að ekki sé nú feitt á stykkinu hjá hæstv. ríkisstj. þarna. (Dómsmrh.: Oft fer villt sá geta skal.) Já, oft er það, en þó hygg ég, að svo sé ekki í þetta skipti. Ég furða mig mjög á því framferði hæstv. ríkisstj. að bíða ekki úrskurðar dómstólanna á því, hvernig skilja beri lögin, og það því fremur sem hv. frsm. taldi alveg tvímælalaust, hver hann yrði, og hefði sjálfsagt hver annar aðili en þessi hæstv. ríkisstj. gert það.

Hæstv. forsrh. tók upp í sinni ræðu þá ekki spánnýju kenningu, að kauphækkanir væru öllum til bölvunar, og þó mest þeim, sem fengju þær. Setjum nú svo, að þetta væri rétt, en mundi þá ekki sama regla gilda um fleiri en verkafólk? Mundi það ekki líka gilda um bændur, framleiðendur landbúnaðarafurðanna, en laun þeirra eru það verð, sem þeim er skaffað fyrir framleiðslu sína og þeir tugmilljóna kr. styrkir, sem hæstv. ríkisstj. skammtar þeim? Ég veit ekki betur en allan þann tíma, sem talað hefur verið um bölvun launahækkana hér, hafi af sömu mönnum verið haldið uppi þrálátri sleitulausri baráttu fyrir að hækka hlífðarlaust afurðaverðið og framlög hins opinbera til þessarar stéttar. Er þetta gert vísvitandi til að gera þeim bölvun? Nei, auðvitað er það gert til að bæta þeirra hag. En á þá að gilda annað lögmál í hagfræðinni um tekjur þessara manna en um tekjur verkamanna? Ég ætla ekki stuðningsmenn þessa frv. svo einfalda, að þeir haldi, að þetta sé rétt, enda er það ekki rétt, nema tvennt sé fyrir hendi, annars vegar fullkomin tekjujöfnun innanlands og hins vegar að ekki sé möguleiki að afla aukinna verðmæta, sem borið geti kauphækkanirnar. Það er vitað, að hið fyrra er alls ekki fyrir hendi, en þó hið síðara sé umdeilt, þá er það að minnsta kosti engum vafa undirorpið, að ef kauphækkun til handa einni stétt er henni til bölvunar, þá gildir það sama um aðrar. — Ég vil aðeins taka þetta fram til að benda á, að þetta frv. er ekki flutt af umhyggju fyrir alþýðuheimilunum eða heildarhag, heldur til þess að skipta á miklu óhagstæðari hátt fyrir verkalýðinn en áður hefur verið tekjum þjóðarinnar. Ég skal fúslega játa, að það er takmarkað, hvað unnt er að greiða verkamönnum hátt kaup, en slíkt verður að metast með hliðsjón af öllum aðstæðum.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta að sinni — ég fæ tækifæri til þess síðar. Ég þarf ekki að taka það fram, að ég er að sjálfsögðu andvígur þessu frv. og tel það gerræði gagnvart verkamönnum og launastéttum landsins yfirleitt, og þeim, sem standa að hæstv. ríkisstj., hlýtur að vera fullvel ljóst, að samþykkt þessa frv. verður ekki til að draga úr deilum í þjóðfélaginu, heldur gefur beinlínis tilefni til að efna til þeirra.

Ég vil aðeins nefna eitt atriði, til þess að það komi glöggt fram, að viðhorfið var annað hjá hæstv. ríkisstj. í des, s.l., þegar þessum sömu lögum var breytt þá, heldur en það er nú. Þá var á það bent af andstæðingum þess frv., að svo gæti farið, að verkamenn fengju hærra kaup vegna hækkaðrar vísitölu, sem e.t.v. færi upp í 130150 stig, og þá væri verulegt ósamræmi skapað milli launastéttanna í landinu, þeirra sem tækju kaup samkvæmt vísitölu annars vegar og opinberra starfsmanna hins vegar. Þessu var svarað á þann hátt, bæði af hæstv. viðskmrh. og hv. þm. Barð., að þetta væri ekki óeðlilegt, þar sem atvinna verkamanna væri ótryggari og ekki óeðlilegt, að þeir fengju bætta þá áhættu, sem þeir hefðu af því, að þeir yrðu að fara á mis við vinnu, og einnig væru opinberir starfsmenn betur tryggðir en verkamenn. Af þessu er sýnt, að ætlun þeirra var, að kaupgjald tæki hækkunum eða breytingum samkvæmt vísitölu, ef um það semdist, eða samningar væru fyrir hendi, er tilskildu það. Ég nefni þetta til þess að sýna, að það getur ekki verið, að hæstv. ríkisstj. hafi verið sama sinnis þá og hún er nú.