03.02.1951
Neðri deild: 61. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í B-deild Alþingistíðinda. (2477)

173. mál, gengisskráning o.fl.

Finnur Jónsson:

Mér virðist um þetta frv., að það sé að sumu leyti einkennilega fram borið, og um afgreiðslu þess er það vitað, að ólyst stjórnarflokkanna er svo mikil, að það þarf að smala þeim með harðri hendi hingað til hússins, svo að það verði fundarfært í þessari hv. d. Og af málflutningi hæstv. fjmrh. verður ekki annað heyrt en að jafnvel hann tali fyrir þessu máli ekki af neinni sannfæringu, heldur af einhverjum öðrum ástæðum, auk þess sem nú hefur verið valin sú leið að láta þetta mál fara nefndarlaust í gegnum þessa hv. d., en ástæðan fyrir því mun vera sú, að ríkisstj. er alveg ljóst, að þetta mál þolir ekki gagnrýni. Þess vegna hefur ríkisstj. gripið til þess óvenjulega ráðs að þvæla þessu máli gegnum þessa hv. d. án þess að láta það fara til nefndar.

Ástæður þær, sem færðar eru fyrir þessu frv., eru í rauninni alveg furðulegar. Og þegar betur er að gætt, þá eru þær rangar. Ég hef tekið eftir því, að það stendur hér í grg., með leyfi hæstv. forseta: „Nú hefur hins vegar komið fram ágreiningur milli verkalýðssamtaka og atvinnurekenda um skilning á gildandi lögum varðandi launagreiðslur, þar sem verkalýðssamtökin krefjast, að laun séu greidd samkvæmt þeirri meginreglu, sem gilti fyrir setningu dýrtíðarlaganna í árslok 1947.“ Um þetta liggur engin krafa fyrir frá verkalýðsfélögunum, m.ö.o., það, sem fært er fram í þessari grg. um afstöðu verkalýðsfélaganna, er rangt og bein ósannindi. Verkalýðsfélögin hafa ekki óskað eftir, að launagreiðslur færu fram eftir neinum öðrum reglum en þeim, sem gildandi samningar eru til um, en það er forðast að nefna það í grg. Af þessu er augljóst, að ríkisstj. þorir ekki fyrir sitt auma líf að láta koma fram, að deilan, sem hér er á milli ríkisstj. og verkalýðsfélaganna, er ekki um einhverjar venjur, sem hafi átt sér stað, heldur raunverulega um gildandi samninga lögum samkvæmt.

Sama má segja um ýmislegt annað, sem virðist ekki vera á neinum rökum byggt. Það stendur t.d. hér í grg.: „Verðlag á höfuðútflutningsafurðum landsmanna þolir ekki hærra kaupgjald að svo stöddu.“ Hvað veit ríkisstj. um verð á höfuðútflutningsvörum landsmanna á þessum tíma? Ekki nokkurn skapaðan hlut. Venjan er sú, að það kemur sjaldan í ljós fyrr en liður nokkuð á árið, hvað verðlagið er á aðalútflutningsvörum landsmanna. Og að þessu sinni bendir allt til þess, að verðlag á fiski hafi stórhækkað, m.a. er búið að minnka kjötskammtinn í Englandi, og það hefur óhjákvæmilega mikil áhrif á verðlag á fiski. Það, sem sagt er um verðlag á útflutningsvörum landsmanna í grg. þessa makalausa frv., er þess vegna raunverulega sagt út í loftið. — Ég hef sannfrétt, að það séu farin að berast hingað tilboð um verð á hraðfrystum fiski, m.a. frá Ameríku, sem eru miklu hærri en greitt var fyrir hraðfrystan fisk á s.l. ári, og hef ég fyrir satt; að núna nýlega hafi firma hér í bænum fengið fyrirspurn um, hvort það gæti útvegað fisk til Bandaríkjanna í 7 lbs. pökkum fyrir verð, sem svarar kr. 5,60 pr. kg, komið í höfn í New York. — Það má vera, að ríkisstj. sé þetta ekki kunnugt. Ég veit ekki, hvað hún hefur lagt mikla alúð við að kynna sér þessi mál, það sést að minnsta kosti ekki af þessu frv.

Þegar tekið er tillit til þessara tveggja atriða, sem ég nú hef getið um að rangt er farið með í grg., annars vegar, að verkalýðssamtökin krefjist, að laun séu greidd samkvæmt þeirri meginreglu, sem gilti áður en dýrtíðarl. voru sett í árslok 1947, og svo hins vegar, að útflutningsafurðir landsmanna hafi lækkað í verði, þá fæ ég skilið, hvers vegna hæstv. ríkisstj. kærir sig ekki um að fá nál., eins og þingsköp mæla fyrir, um þetta mál. Ég geri ráð fyrir, að ríkisstj. hafi viljað komast hjá, að í nál. væri bent á tvær slíkar höfuðvillur í grg. fyrir frv., sem ríkisstj. telur sig þurfa að koma í gegnum þingið á svo skömmum tíma sem raun ber vitni um.

Það var á hæstv. fjmrh. að heyra, að framleiðslan hefði nú gengið skrykkjótt undanfarið, og ég vil taka undir það, það vita allir, að framleiðslan hefur gengið mjög skrykkjótt, og líka lýðum ljóst, að það er hæstv. ríkisstj. að kenna, hvað framleiðslan hefur gengið skrykkjótt, bæði út af togaraverkfallinu og líka út af því, hve seint hefur gengið að koma vélbátaflotanum á stað. Það sýndi sig með togaraverkfallið, að undir eins og ríkisstj. tók að sér fyrir alvöru að leysa málið og leitaði til þeirra manna, sem áður höfðu staðið fremstir í að leysa svona deilur, eins og hv. þm. Hafnf. (EmJ), þá leystist málið á nokkrum dögum. Hvers vegna gerði ríkisstj. ekki þessar tilraunir fyrr? Var það fyrir sinnuleysi, eða fyrir það, að hún vildi láta þennan atvinnurekstur ganga eins illa og hann gekk? Vildi hún viðhalda togaraverkfallinu? Hæstv. ríkisstj. var kunnugt um það, að þeir menn, sem að lokum gengu í það að leysa togaraverkfallið, höfðu oft leyst sams konar deilur á svo til stuttum tíma, og það er fyrst, þegar stj. leitar til manna utan ríkisstj., utan flokka ríkisstj., sem tekst að leysa togaraverkfallið. Já, það er næstum því hart, að hæstv. fjmrh. skuli standa hér upp og tala um, að nú hafi gengið skrykkjótt að koma vélbátaútveginum á stað. En hverjum er það að kenna? Það er hæstv. ríkisstj. að kenna, — hinu dæmalausa sinnuleysi, sem hæstv. ríkisstj. hefur sýnt í þessu máli. — Útvegsmenn höfðu hér fund í haust, þar sem þeir bentu á, að ekki væri fyrir hendi starfsgrundvöllur fyrir vélbátaútveginn, og það var ekki á þetta hlustað, en til málamynda settir menn til þess að tala við útvegsmenn, menn, sem höfðu ekki neinn myndugleika til þess að tala við þá. Útvegsmenn óskuðu eftir samtölum, ég hygg að það hafi verið fyrir miðjan okt., og settu sérstaka n. og fólu stjórn samtaka sinna og framkvæmdastjóra að eiga tal um þetta við ríkisstj. Nú vil ég ekki draga úr því, að mér er vel ljóst, að mikil vandkvæði eru á því að finna lausn í þessu máli, enda í rauninni engin lausn fengin á þessu enn þá. En þó held ég ekki að þetta mál hafi verið vandasamara en það, að ef ríkisstj. hefði af alvöru viljað beita sér fyrir lausn málsins, þá hefði verið hægt að gera það á réttum tíma, áður en þingi lauk fyrir jól og áður en fjárl. voru afgr. En hæstv. ríkisstj. sýndi enga alvöru í því að reyna að leysa þessi mál. Það er fjarri því, að ég beri nokkurt traust til hæstv. ríkisstj., sérstaklega eftir það, að hún hefur sýnt mikið framkvæmdaleysi í þessu máli, en hitt er ég þó viss um, að ef hæstv. ríkisstj. hefði af alvöru lagt sig fram um að leysa þessi mál, þá hefði það tekizt. En þarna var engin alvara að verki, engin alvara eða skilningur á því, að það þyrfti að gera verulegt átak í þessu máli, og sannast að segja verður maður að viðurkenna, að svonefnd lausn, sem hæstv. ríkisstj. hefur boðið útvegsmönnum upp á, hún er sú versta leið, sem hægt er að fara, og það er auðséð, að dýrtíðin verður látin hækka út af þessu miklu meira en orðið hefði raun á, ef aðrar leiðir hefðu verið farnar. Það hefur aldrei gefizt vel að selja verzlunina á einokun. Margir tala um, að ríkiseinokun sé vond, en ég held, að versta einokun á verzlun sé einokun einstakra manna á henni. Ríkisstj. segist hafa heitið útvegsmönnum að gera ráðstafanir til þess, að um 1/5 af innflutningsverzluninni verði seldur á einokun, og jafnhliða er því heitið, að allt verðlagseftirlit á hinum einokuðu vörum sé afnumið. Nú mundu sumir segja, að það sé gott, ef útvegsmenn geti fengið dálítið af peningum og rétt sinn hag eftir þessari aðferð, sem fengin er að láni frá dönsku einokunarkóngunum og þótti þá aldrei góð. En því er ekki að heilsa, að þetta geti komið útgerðarmönnum að gagni. Eins og allir vita, þá eiga útvegsmenn ákaflega þröngt um fé, og þeir hafa ekki peninga til þess að gera út, nema af mjög skornum skammti. Sama má segja um frystihúsin, að þau eru í rauninni alveg í vandræðum mörg þeirra með að hafa fé til daglegs rekstrar. Það, sem þess vegna gerist í þessu máli, er það, að útvegsmenn og flest frystihús verða að framselja þessi gjaldeyrisréttindi, og þegar búið er að framselja þau, þá verða það einhverjir efnamenn, sem fá einokunaraðstöðu í verzluninni fyrir 1/5 innflutningsins eða því sem næst. Þetta verður því til þess að gera muninn á fátækum og ríkum enn þá miklu meiri en hann hefur verið áður og auka dýrtíðina í landinu sérstaklega. — Nú má vera, að einhver segi, hvað kemur það þessu máli við. En það kemur einmitt þessu máli við, sem hæstv. fjmrh. var að tala um. Ríkisstj. hefur gert tilraun til þess að festa kaupgjaldið, hún hefur líka gert tilraun til, en þó ekki alvarlega, að festa verðlag á landbúnaðarafurðum, en hins vegar hefur hæstv. ríkisstj. alveg láðst að gera það, sem þykir alveg sjálfsagt í öðrum siðuðum löndum, þar sem gripið er til þess að gera jafnframt ráðstafanir til þess að halda niðri dýrtíðinni, til þess að hún vaxi ekki upp úr öllu valdi.

Hæstv. fjmrh. var að tala um, að verkamenn hefðu ekkert upp úr almennum kauphækkunum. Það er nú svo. En hvaða vopn hafa verkamenn gegn ríkisstj., sem hagar sér eins og þessi ríkisstj. hefur gert, nema almenna kauphækkun, — ríkisstj., sem er að reyna að bera sig saman við heiðarlegar ríkisstj. á Norðurlöndum og í Bretlandi, sem halda niðri dýrtíðinni eftir mætti, þó að þær festi kaupgjald? Gagnvart ríkisstj., sem svíkst alveg um þennan þátt dýrtíðarráðstafana, hafa verkamenn engin önnur vopn en kauphækkun. Ríkisstj. verður að gera sér það ljóst, og það er betra, að hún geri það fyrr en seinna, að með því aðgerðaleysi, sem hún hefur hér í dýrtíðarmálunum, neyðast verkamenn til þess að beita kauphækkunarvopninu. Nú er í þessu tilfelli ekki um það að tala, að verkamenn ætli að beita neinni kauphækkun, það lá ekkert fyrir um það, að þeir ætluðu að hækka grunnkaup, — þeir hafa aðeins látið í ljós, að þeir óskuðu eftir því að fá framkvæmda samninga, sem hafa verið settir úr gildi um tíma með l., en eru enn í fullu gildi; þeir samningar eru ekki um grunnkaupshækkanir, heldur um dýrtíðaruppbót samkvæmt vísitölu. Nú sagði hæstv. fjmrh., að sér þætti eiginlega hart, ef það ætti að teljast til árása að láta afskiptalaust, hvað gerist í kaupgjaldsmálum, og mér skildist hann halda því fram, að með þessu lagafrv. væri verið að gefa kaupgjaldsmálin laus. Þetta er rétt hvað viðvíkur grunnkaupinu, en það er það alls ekki hvað viðvíkur þeirri dýrtíðaruppbót, sem verkamenn telja sig eiga rétt á samkvæmt samningum við atvinnurekendur. Það er þess vegna mesti misskilningur, ef hægt er að halda því fram í öðru orðinu, að kaupgjaldsmálin séu látin alveg laus, um leið og verið er að setja samninga, sem verkalýðsfélögin telja hafa gildi samkvæmt l., alveg úr gildi.

Nú skal ég ekki fjölyrða um þetta mál frekar. Mér þótti rétt að láta þetta koma fram í sambandi við ræðu hæstv. fjmrh. og út af þeirri grg., sem ríkisstj. hefur látið fylgja þessu frv., sem er bæði röng og villandi.