17.11.1950
Neðri deild: 23. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1228 í B-deild Alþingistíðinda. (2513)

44. mál, sveitarstjórnarkosningar

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Mig langar til þess að taka undir það, sem hv. þm. A-Húnv. sagði, að nauðsynlegt væri að breyta ákvæðum gildandi sveitarstjórnarlaga um það, hvernig atkvæði skuli reiknuð, þegar metið er, hver eða hverjir kosnir hafi verið af hverjum lista um sig við hlutfallskosningar, þ.e.a.s. ákvæðunum um útstrikanir á listum. Ég vil taka undir þessi ummæli vegna þess, að hv. 2. þm. Reykv. andmælti þeim skoðunum sem hv. þm. A-Húnv. lét í ljós. Ég er hv. þm. A-Húnv. sammála um, að það er bráðnauðsynlegt að endurskoða ákvæði sveitarstjórnarkosningalaganna um þetta efni og reyndar kosningal. líka. Sú regla, sem gildir nú um þetta efni, er mjög óeðlileg, og ég staðhæfi, að ákvæði l. um sveitarstjórnarkosningar um þetta efni grundvallast á hugsunarvillu. Það er fráleitt að telja tölu varamanna með, þegar reiknað er út, hvaða maður á lista hefur náð kosningu. Og það er þeim mun fráleitara sem kjósa á fleiri menn. — Ég nefni Reykjavík sem dæmi. Þegar kjósa á 15 menn í bæjarstjórn, þá er engin skynsemi í því að reikna hverjum manni aðeins einn þrítugasta af atkv. Þegar verið er að kjósa til bæjarstjórnar, er ekki verið að kjósa varamenn. Enginn maður telur það hafa þýðingu, hverjir skipa varamannasæti á listanum. Það er hreint formsatriði, og þeir menn, sem þau sæti skipa, telja alls ekki að vera þeirra á listanum hafi nokkra úrslitaþýðingu fyrir niðurstöðu kosninganna eða að þeir muni hljóta sæti í bæjarstjórn. Það kemur auðvitað í hæsta lagi til álita að reikna með þeirri tölu, sem raunverulega á að kjósa. Ég hefði jafnvel getað hugsað mér að ganga enn þá lengra, þ.e. að miða við tölu þeirra, sem hafa raunverulega náð kosningu. — En um það skal ég ekki ræða frekar, enda ekki gott að skýra þessi atriði án töludæma, sem er ekki gott að koma við í slíkum umræðum.

Það er rétt hjá hv. 2. þm. Reykv., að það er æskilegast að hafa rétt kjósanda til breyt. á framboðslista sem rýmstan. En sá réttur má ekki vera svo rúmur, að í honum felist skilyrði til handa tiltölulega mjög litlum minni hluta til þess að geta haft úrslitaáhrif á niðurstöður kosninganna. En eins og sveitarstjórnarl. og kosningal. eru nú, hefur tiltölulega lítill minni hluti hvers flokks úrslitaáhrif á það, hverjir skipa þau sæti flokksins í sveitar- eða bæjarstjórninni, sem flokkurinn í heild á rétt til eftir atkvæðatölu við kosningar. Þetta nær ekki nokkurri átt og getur ekki hafa verið tilætlun höfunda sveitarstjórnarl. og kosningal. — Hér í Reykjavík eru kosnir 15 bæjarfulltrúar og hverjum manni á lista ekki talinn nema einn þrítugasti hluti atkv. Það liggur í augum uppi, að t.d. hjá Sjálfstfl., sem þó er stærstur, þyrfti ekki nema tiltölulega fámennan hóp, 300–400 manns, til að ráða því með samtökum um útstrikanir, hvaða aðilar kæmu til með að skipa neðri hlutann af þeim sætum, sem flokkurinn kemur til með að fá samkv. atkvæðatölu sinni. Lítið brot af kjósendafjöldanum getur tekið fram fyrir hendur meiri hl. kjósendanna, sem listann kjósa, og ráðið niðurstöðunni í verulegum atriðum. Það er óeðlilegt og ekki til þess að tryggja lýðræðisréttindi eða eðlileg og heilbrigð réttindi kjósendanna til þess að láta ekki flokkana bjóða sér hvað sem er. Í því felst viss hætta, að kjósendur séu beittir ofríki af stjórnum flokkanna. En ákvæði l. eru allt of rúm. Ég tel, að það hafi dregizt of lengi að endurskoða þessi ákvæði l. um sveitarstjórnarkosningar og kosningalaganna. Því tek ég sterklega undir það, sem hv. þm. A-Húnv. sagði um þetta, og geri þau tilmæli að mínum, að hv. n. athugi þessi ákvæði sveitarstjórnarl. og enn fremur kosningal. og taki til athugunar, hvort ekki sé rétt að bera einnig fram till. um hliðstæða breyt. á þeim.