06.02.1951
Efri deild: 65. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1243 í B-deild Alþingistíðinda. (2553)

160. mál, læknishéruð

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Í sambandi við þetta frv. langar mig til að fá upplýsingar um tvennt. Það fyrra er, hvað liði þeirri allsherjar endurskoðun á læknaskipunarlögunum, sem milliþinganefnd hefur starfað að. Hið síðara, hvað gera á við læknisbústaðinn í Ögri. N. leggur til, að læknisbústaðurinn verði í Súðavík, en mér skilst, að einhver ákvæði eða fyrirheit þurfi að vera um það að koma húsinu í verð, og er ekki ljóst af frv., hvernig það verði gert, en munurinn er sáralítill að þjóna í Ögri eða Súðavík. Í Súðavík er að vísu fleira fólk í kringum lækninn, og þaðan er einnig vegur til Ísafjarðar. Þetta er að vísu plús, en það verður að athugast, hvort munurinn er svo mikill, að það réttlæti að leggja í þann kostnað, sem óhjákvæmilega leiðir af því að flytja lækninn. Ég vil gjarnan heyra frá stj. og n., hvað gera eigi við þetta hús eða hvort það eigi að standa autt og ónotað. Það getur svo farið um þennan flutning eins og fór, þegar læknirinn var fluttur frá Ármúla í Vatnsfjörð. Læknissetrið er nú búið að vera þarna á fjórum stöðum, þó að aldrei hafi verið lagt í verulegan kostnað við flutning þess, nema þegar byggður var læknisbústaðurinn í ögri.