05.02.1951
Neðri deild: 63. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1267 í B-deild Alþingistíðinda. (2665)

171. mál, atvinnuréttindi útlendinga

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Hv. frsm. heilbr.- og félmn. hefur nú skýrt frv., svo að það er engu við það að bæta frá minni hálfu. Eins og hann hefur tekið fram, er þessi endurskoðun á l. frá 1927 nauðsynleg orðin vegna breyttra staðhátta og nokkurs ruglings, sem kominn er á um það, á hvern hátt útlendingar hafa fengið leyfi til dvalar við vinnu hér á landi.

Af þeirri reynslu, sem fengizt hefur, þykir rétt að leggja til, að allar undanþágur verði burt felldar, eins og þær, sem landbúnaðurinn hefur haft að undanförnu, að þurfa ekki sérstakt leyfi til þess að ráða fólk til sín. Það virðist heppilegra, að þetta sé allt í sama formi.

Ég ætla ekki að fara að ræða frv. sérstaklega, en ég vil aðeins geta þess af hálfu rn., vegna þess að málið kemur svo seint fram í þinginu, að ef ekki kemur fram neinn skoðanamunur í þessari hv. d., þá vildi ég fyrir mitt leyti mælast til þess, að málið fengi að ganga greiðlega í gegnum þessa hv. d., svo að nokkrar líkur gætu verið til þess, að hægt væri að afgr. það hér frá þinginu, áður en þingi verður slitið. Ég reikna frekar með, að hér sé ekki um átaka mál að ræða.