01.03.1951
Efri deild: 78. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1276 í B-deild Alþingistíðinda. (2689)

171. mál, atvinnuréttindi útlendinga

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Það eru aðeins örfá orð. — Þetta frv., sem hér liggur fyrir, var samið af lögfræðingi dómsmrn. ásamt manni úr félmrn. Þessi atriði, um rétt erlendra manna, heyra bæði undir dómsmrn. og félmrn., eins og kunnugt er.

Það hafa komið hér fram nokkrar brtt. Ég var ekki við, þegar hv. frsm. allshn. hóf mál sitt, en eftir því, sem mér hefur virzt og ég hef kynnt mér þetta og talað við menn nú síðast í dag, bæði útlendingaeftirlitið og þá menn, sem hafa undirbúið málið, þá skilst mér, að þessar till. séu í meginatriðum samkomulag þeirra á milli, og tel ég þá, að með þessum brtt., sem hér eru fram komnar, ætti að mega ná samkomulagi um frv., þannig að það gæti gengið fram í því formi, sem það er í nú.

Hv. 1. þm. N-M. hreyfði hér vissum aths. og sagði, að fylgi sitt við frv. væri bundið því, að tekið yrði til athugunar fyrir næsta Alþ., hvort ekki ætti að gera einhverjar breyt. á frv. Ég get ekki sagt neitt ákveðið um það á þessu stigi málsins. Mér virðist nú þessar aths. ekki vera stórvægilegar. Ég get ekki séð, að það sé neitt stórt atriði, þó að menn, sem þurfa að fá erlenda sérfræðinga frá verksmiðjum til þess að setja upp vélar hér heima, þurfi að fá leyfi fyrir þá til þess að mega gera það. Þetta er svo einfalt og sjálfsagt atriði, að slíkt verður náttúrlega alltaf leyft, og getur ekki tafið fyrir slíku, þó að veita eigi leyfi til þeirra hluta. — Hitt atriðið er dálítið vafasamara, þ.e. með námsfólk, t.d. stúdenta, sem vildi koma hingað og dvelja hér eitthvað til að kynnast landinu og þá kannske fá möguleika til að vinna sér inn einhvern hluta af ferðakostnaðinum með því að stunda sveitavinnu eða önnur störf stuttan tíma. Ég hefði getað hugsað mér, að gerð væru einhver undanþáguákvæði í þessu frv. varðandi það fólk. Hins vegar held ég nú, að hv. þm. mikli það fyrir sér, að þetta þurfi að valda svo miklum vandkvæðum, að fá slík leyfi. Þegar slíkir hópar hafa sótt um að mega skreppa hingað til landsins, hefur það alltaf gengið í gegnum einhverjar stofnanir, t.d. upplýsingaskrifstofu háskólans eða Búnaðarfélagið, og að sjálfsögðu getur það ekki valdið neinum miklum erfiðleikum að fá leyfi hjá ráðuneytinu til þess að mega taka á móti slíkum mönnum og ráðstafa þeim um stuttan tíma. En ég hefði vel getað hugsað mér, að sett væru undantekningarákvæði í frv. um hluti eins og þessa, en hef ekki trú á, að þess þurfi, og ætti það ekki að þurfa að hindra, að slík ferðalög geti átt sér stað, og þarf ekki neitt fyrir þeim að tefja.

Það var nú ekki annað en þetta, sem ég vildi taka fram, en eins og ég tók fram við 1. umr. málsins, legg ég áherzlu á, að þetta frv. nái fram að ganga, því að það eru ýmis ákvæði í því, sem óneitanlega eru til bóta frá l. frá 1927.