26.01.1951
Efri deild: 56. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í B-deild Alþingistíðinda. (2705)

156. mál, almannatryggingar

Frsm. meiri hl. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa frv. Hún fékk skrifstofustjóra félmrn. á sinn fund og ræddi ýtarlega við hann um einstakar gr. þess. Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, en minni hl. hefur skilað séráliti á þskj. 562 og leggur til, að á frv. verði gerðar þrjár breyt., eins og segir aftan við nál.

Fyrsta breyt. er sú, að 1. gr. falli niður, en efni hennar er það, að Tryggingastofnuninni sé heimilt að innheimta kröfuna hjá dvalarsveit móðurinnar allt til þess tíma, að framfærslusveit barnsföður er viðurkennd eða ákveðin með úrskurði, ef um ágreining er að ræða um framfærslusveit barnsföður.

Ég gerði grein fyrir því við 1. umr., hvers vegna ráðh. telur ástæðu til að breyta þessu, og hef engu við að bæta, en vil þó endurtaka það, að allur réttargangur byggist á, að sveitarfélögin eigist við innbyrðis um málið og yfirvald úrskurði ágreining á milli þeirra, en áfrýja megi svo til félmrn., sem fellir endanlegan úrskurð. Telur meiri hl. rétt að samþykkja greinina, en fallast ekki á rök minni hlutans.

Um 2. gr. er enginn ágreiningur, en minni hl. leggur til, að 3. gr. sé orðuð svo: „Sveitarstjórn er skylt að greiða iðgjald skv. 109. gr. laganna fyrir þá eina, sem vegna slysa, sjúkdóms, örorku, elli eða ómegðar hafa eigi haft þær tekjur, að þeim beri að greiða tekju- og eignarskatt. Synji sveitarstj. umsókn um iðgjaldagreiðslu, má áfrýja þeim úrskurði til yfirskattanefndar.“ Skv. því er ætlazt til, að sveitarstjórnir greiði því aðeins iðgjöld, að tekjur hlutaðeigandi hafi orðið svo litlar vegna slysa, örorku o.fl., að honum beri ekki að greiða tekju- og eignarskatt.

Nú er svo til ætlazt, að leitað sé eftir þessu af hálfu hlutaðeiganda, og verða þá sveitarstjórnir auðvitað að meta aðstæðurnar, sem fyrir hendi eru, og fella síðan úrskurð sinn. Og það má fullyrða, að þessi málarekstur mundi taka langan tíma, og líklegt er, að honum yrði ekki lokið, fyrr en í lok gjaldársins. Iðgjaldagreiðsla yrði því ekki innt af hendi, fyrr en svo seint, að til baga yrði fyrir Tryggingastofnunina. Ég álít því, að ákvæði 26. gr. laganna séu réttmæt, og hefur meiri hl. n. sömu skoðun. Ég held líka, að minni hl. leggi ekki mikið upp úr þessu ákvæði, heldur sé aðalágreiningurinn um 4. gr.

Munurinn á frv. og brtt. virðist í fljótu bragði vera sá, að felld er niður heimild ráðuneytisins til að leggja hald á vissan hundraðshluta útsvara. En ákvæðið um 25% er sett af handahófi, því að í flestum tilfellum er það hærra en heimildin segir til um. En þó er það í einstöku tilfellum heldur van en of við fljóta athugun.

Þetta var rætt allmikið hér í deildinni fyrir jól. Og einnig var það rætt í n. og við skrifstofustjóra heilbr.- og félmrn. Aðalágreiningurinn var sá, að ef sveitarfélög komast í vandræði með skil, þá sé það nokkuð algengt, að ýmsir stærri útsvarsgreiðendur, sem reka verzlun eða þ. u. l., láni þeim fé, sem þeim er svo fært til skuldar. En hætt er við, þar sem þannig er ástatt, að aðstæður yrðu ófullnægjandi vegna slíkra skuldbindinga.

Ég álít, að þau ákvæði, sem í frv. eru um þetta efni, séu á þann veg, að sveitarfélögin megi vel við una. Ég tel enga ástæðu til að ætlast til, að félmrn. gangi lengra í að nota heimild 4. gr. en telja má fært og eðlilegt þykir á hverjum tíma. Og ég vildi mega vænta, að mikið gagn yrði af þessari grein, og tel ég ekki rétt að breyta henni, eins og minni hl. leggur til.

Ég bið svo afsökunar, að ég skyldi fara að ræða meir þessar brtt., en ég hélt, að málið færi ekki til nefndar.