26.01.1951
Efri deild: 56. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1282 í B-deild Alþingistíðinda. (2706)

156. mál, almannatryggingar

Frsm. minni hl. (Finnbogi R. Valdimarsson):

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. frsm. meiri hl. sagði hér áðan, að ástæðan til þess, að ég varð ekki sammála hv. meiri hl., var eingöngu vegna ákvæða 4. gr. frv., en ekki annarra, því að þær eru hrein aukaatriði í frv. sjálfu. Og er það margra álit, að algerlega ónauðsynlegt og ástæðulaust sé að breyta þessu nú, á meðan ekki er fengin reynsla fyrir því, hvernig ákvæðin, sem sett voru hér fyrir nýár, muni reynast.

Ég álít sjálft ákvæði 4. gr. of lágt, og er ég algerlega ósammála því. Og einnig finnst mér of mikið gert úr því, að sveitarfélögin séu sek um vanskil á greiðslum til Tryggingastofnunarinnar. Ég álít, að þau hafi svo miklar og margvíslegar afsakanir, að þeim, sem standa fyrir þessum refsiaðgerðum, ætti að vera fullkunnugt um, á hvaða rökum þessar afsakanir eru byggðar.

Hér er um að ræða 5–6 útgerðarbæi á landinu, sem skulda Tryggingastofnuninni um 800 þús. kr. fyrir árið 1949. En eitt af þessum „seku“ sveitarfélögum hefur greitt skuld sína nú um áramótin, svo að vanskilin eru um 300–400 þús. kr. lægri en segir í nál. Og ég álít þetta ekkert stórvægilegt, miðað við gjöldin, sem hækkuð voru verulega með frv., sem samþ. var fyrir áramót.

Í gildandi lögum eru ákvæði, sem ættu að tryggja greiðslu vangoldinna skulda sveitarfélaga. Í lögunum eru ákvæði þess efnis, að ríkissjóður ábyrgist framlögin, og ráðuneytið hefur í lögum ýmis ákvæði, sem það getur beitt gegn þeim sveitarfélögum, sem gerast sek um vanrækslu, og er þar fyrst að nefna lögin um eftirlit með sveitarfélögum. Með þeim er hægt að setja þau undir eftirlit og beita þau dagsektum, ef opinber gjöld eru ekki greidd. En ekkert af þessum ákvæðum þykir nú duga lengur og talið nauðsynlegt að beita frekari refsiaðgerðum til þess að fá þessi gjöld greidd. Og ég verð að segja það, að mér finnst þetta óbilgjörn aðferð, sem kemur úr hörðustu átt af félmrn., sem ætti að vera í raun og veru verndari sveitarfélaganna. — En það er lagt til í 4. gr., að skuldareigandi geti valið úr tekjum sveitarfélaganna, það sem honum lízt, og innheimt það sjálfur. Mér finnst þessi ákvæði eindæmi, sem ekki ætti að setja í lög. Enda sætti þessi tili. eindregnum mótmælum fyrir jól, og hv. þm. S-Þ. tók þannig á móti henni, að hann sagði, að sér fyndist réttast að draga hana til baka.

Ég álít, að hæstv. ríkisstj. hefði átt að vera svo vel kunnugt um hagi útgerðarinnar nú um áramótin, að hún hefði átt að hafa sérstakar aðstæður til þess að skilja, að það er nálega ómögulegt fyrir útgerðarbæi, sem þurfa að leita að nýjum úrræðum ár eftir ár, að leggja þung gjöld á þegnana og gjalda útgjöld sín. Því að það getur verið erfitt að leggja á og innheimta útsvör í bæjum, þar sem sjómenn hafa ekki fengið kaup sitt greitt í eitt til tvö ár. Þær afsakanir, sem þessir „seku“ útgerðarbæir hafa, eru þá fyrst og fremst þær, að nær ómögulegt hefur verið að innheimta útsvör af þessum ástæðum, og ekki er óeðlilegt, þótt sveitarfélög þessi verði á eftir með opinber gjöld, þar sem greiðslan dregst svo mjög til þeirra sjálfra. En það eru miklu meiri gjöld en til trygginganna. Hversu mikið fer til trygginganna? Ég efast um, að það sé 25% allra opinberra gjalda, því að það er fjöldi annarra opinberra gjalda, sem sveitarfélögum er gert skylt að standa skil á. Það er öllum sveitarfélögum skylt að sjá um lögboðna barnafræðslu, enn fremur er þeim skylt að sjá um fátækraframfærslu. Þar að auki er fastur kostnaður við sveitarstjórnina sjálfa. Þetta eru allt óhjákvæmileg gjöld, og ég þekki sjálfur af eigin reynslu, að þessi föstu útgjöld eru 70–80% af útgjöldum sveitarfélaga, og þó víða meira.

Þá eru eftir 15–20% til þess að halda uppi atvinnulífi í viðkomandi sveitarfélagi. En það munu flest sveifarfélög telja sér skylt að reyna að halda uppi einhverju atvinnulífi í viðkomandi sveitarfélagi, því að ekki geta þau innheimt opinber gjöld, ef íbúarnir eru atvinnulausir.

Þessi opinberu gjöld fara vaxandi ár frá árí, og má segja, að það geti blessazt, en í slæmu árferði minnka möguleikar á að ná inn hinum opinberu gjöldum og að auka tekjur sveitarfélaganna með hækkuðum útsvörum, því að ríkið hefur þar forgangsrétt, þess vegna eru hin seku sveitarfélög afsakanleg á margan hátt, því að það er óhætt að fullyrða, að það er æ erfiðara og erfiðara að inna af hendi hin lögboðnu gjöld.

Ég hef aldrei neitað því, að það verður að finna leið til þess að greiða þessi gjöld, en um hitt getur menn greint á, til hvaða ráða verður gripið. Bæjar- og sveitarfélög hafa ákvæði til þess að ná inn opinberum gjöldum, en þá er þess gætt, að ekki sé gengið of nærri einstaklingnum, t.d. má ekki ganga nær honum en sem svarar 30% af tekjum hans, því að það er talið, að einstaklingurinn komist ekki af, ef nær er gengið. Eins er um sveitarfélögin, það verður að takmarka, hvað nærri má ganga. Þau verða að geta haldið áfram eðlilegum störfum. En í frv. eru hins vegar engin ákvæði um það, hvað mikið má taka. Og meira að segja má velja úr þær tekjur, sem bezt mun ganga að ná, svo að sveitarfélögin geta verið óstarfhæf, ef þetta frv. nær fram að ganga.

Ég hefði viljað koma á nokkrum viðurlögum vegna vangoldinna gjalda til trygginganna og hef því lagt til, að ekki megi taka meira en sem nemur 25% álagðra útsvara, og sveitarfélögum verði gert að skyldu að standa skil á þeim mánaðarlega eða ársfjórðungslega.

Það eru í 4. gr. ákvæði um það, að sveitarstjórnir skuli greiða innheimtumanni ríkissjóðs gjöld þessi, um leið og útsvörin falla í gjalddaga. Nú er það vitað, að útsvör eru ekki greidd í gjalddaga, og því ekki hægt að gera sveitarfélögunum það að skyldu að greiða þau um leið. En sveitarfélög halda hins vegar uppi innheimtu útsvara allt árið, og ef mín till. næði samþykki, væri auðvelt að fylgjast með því, hvernig þessi innheimta gengi, og gæti þá fulltrúi trygginganna gengið að sínum prósentum jafnóðum. Ég held, að þetta væri nægilegt til þess, að skuldin ætti að nást og grynna á þeim gjöldum, sem falla í gjalddaga.

Ég held, að það hafi verið hv. þm. S-Þ., sem komst svo að orði, að hann gæti aldrei samþ. svo orðaða till. Og ég segi það sama, og ég held, að allir þeir, sem til þekkja í sveitarfélögum, geti ekki verið með slíkri till., og það er ekki hyggilegt af þeim, sem bera hag trygginganna fyrir brjósti, að vera með henni.

Ég drap á það í nál. mínu, að Tryggingastofnun ríkisins eigi svo mikið undir því, að gott samkomulag sé við sveitarfélögin, að það er heimskulegt að stuðla að ósamkomulagi þeirra á milli með harðýðgislegri innheimtu. Og ég held, að hlutur þeirra sé betur tryggður með minni tili. en frv.

Ég skal svo að lokum minnast á þær aðrar brtt., sem ég hef gert við frv., þó að ég leggi ekki eins mikla áherzlu á þær, nema brtt. við 3. gr., sem er að mestu í samræmi við brtt., sem ég flutti í fyrra og var þá samþ., en til móts við þessa till. var nokkuð komið fyrir áramótin. Ég tel ekki rétt, að sveitarfélögum sé gert að greiða iðgjöld fyrir aðra en þá, sem vegna slysa, sjúkdóma, elli, örorku eða ómegðar hafa svo litlar tekjur, að þeir geta það ekki sjálfir, og ég tel, að það sé engin ástæða til að undanþiggja einstaka menn þessum nefskatti.

Þá er það l. brtt. við 1. gr. Það var 8. gr., sem var samþ. hér í fyrra fyrir áramótin, eftir að félmrn. hafði haft þær till. til meðferðar; þá lagði það til, að þær yrðu samþ. óbreyttar, enda þótt það hefði átt að sjá, hvaða erfiði þessi gr. mundi valda í framkvæmd. Og hv. frsm. minntist á það, að það væri ekki erfitt að framfylgja þessari gr., heldur hefði félmrn. alltaf kviðið of mikið fyrir henni. Og ég sé enga ástæðu til að breyta þessu nú, því að áður á árinu eru komin fram 2–3 mál af þessu tagi. — En í því tilfelli, þar sem óvíst er um framfærslusveit, þá hef ég fært rök að því, að réttara sé að snúa sér beint að því að finna hana en að þvæla inn í þetta aðila, sem óvíst er um. Nú hefur hv. 4. þm. Reykv. sagt, að þetta sé gert til þess að losa ríkið við mannahald, og ég held, að þessi 1–2 tilfelli á ári sé of lítið til að halda mann til þess að athuga þau. Og það er óþarfi fyrir tryggingarnar að reyna að koma þessu af sér yfir á sveitarfélögin, því að ef gert er ráð fyrir, að tryggingarnar fari þessa leið með barnsfaðernismál, þá er raunverulega verið að koma þessu yfir á oddvitana, en það er ástæðulaust, því að ef ágreiningur verður, ber að greiða þau meðlög úr ríkissjóði. Annaðhvort á sveitarfélagið að greiða meðlagið, og ef ágreiningur verður, eiga tryggingarnar að greiða það. En endanlega er það ríkið, sem á að greiða, ef annar aðili finnst ekki. — Aðalatriði breytinga minna er, að 4. gr. verði bætt, en annars legg ég áherzlu á, að 1. gr. falli niður.