01.03.1951
Neðri deild: 76. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1318 í B-deild Alþingistíðinda. (2735)

156. mál, almannatryggingar

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði um þetta mál. Mínar skoðanir á því falla alveg saman við hans, og líklega er það vegna þess, að við höfum báðir haft nokkuð af því að segja, hvernig gengur að ráða fram úr fjárhag bæjar- og sveitarfélaga nú, en þetta mál grípur mjög inn á það. svið, eins og hér hefur verið lýst. Ég get því undirstrikað þau sjónarmið, sem komu fram í hans ræðu, og þar við hef ég engu að bæta. En það er eitt atriði enn í sambandi við þetta mál, sem ég vildi vekja nokkra athygli á og máske snertir sveitarfélögin úti á landi enn meira en Reykjavík. Mér sýnist, að með samþykkt 3. gr. frv. yrðu þeir litlu möguleikar sveitarfélaganna til að fleyta sínum fjárhag áfram yfir örðuga tíma með nokkrum lánum út á væntanlegar tekjur gerðir að engu. Með samþykkt 3. gr. væri búið að gefa einum aðila rétt til að leggja hald á tekjur sveitarfélaga og eyðileggja með því möguleika þeirra til að veðsetja þær fyrir lánum, svo að þau gætu fleytt sér þannig yfir erfiða tíma. M.ö.o. gera ónýtan möguleika sveitarfélaga til að veðsetja sínar tekjur. Ég held, að ríkissjóður fengi fljótt að finna til þess, að þessi leið er síður en svo til að bæta úr um rekstur sveitarfélaga almennt. Ég lít svo á, að með þessu sé raunar verið að taka þann eðlilega rétt af sveitarfélögunum að ráðstafa sínum tekjum sjálf. Það er verið að gera sveitarfélögin ómyndug, þar sem þau eiga ekki að hafa ráðstöfunarrétt á sínum tekjum samkv. lögum. En það ber að gæta að því, að fyrir getur komið, að sveitarfélögin standi í vanskilum á skuld til fleiri aðila, og þar hefur Tryggingastofnun ríkisins enga sérstöðu. Eins og hv. 7. þm. Reykv. gat um, eru það margir aðilar, sem eiga kröfur á sveitarfélögin og þurfa ekki síður að fá sínar greiðslur á réttum tíma en Tryggingastofnunin. Og ég álit rétt, að Tryggingastofnun ríkisins stendur betur að vígi hvað þetta snertir en flestir aðrir aðilar, sem eiga kröfur á sveitarfélög. Það er t.d. á valdi ráðh. samkv. gildandi lögum að setja viðkomandi sveitarfélag undir opinbert eftirlit og skipa mann til þess að hafa eftirlit með fjárreiðum þess, ef það stendur ekki í skilum gagnvart því opinbera. Þetta vald er til staðar, og ýmsum sveitarfélögum hefur verið hótað, að því yrði beitt gagnvart þeim. En það virðist svo, sem þessi réttur ráðh. þyki ekki nógur. M. ö. o.: það hefur verið viðurkennt, að þau hafi farið réttilega með sínar tekjur, en þó á að svipta þau réttinum til þess að ráðstafa tekjunum sjálf og veita ríkisvaldinu vald til þess að sölsa undir sig mikinn hluta þeirra. Þetta mál er annars flutt þannig af ýmsum, að hér sé verið að berjast fyrir hagsmunum Tryggingastofnunar ríkisins, þar sem henni sé nauðsynlegt að standa undir skyldugreiðslum til almennings. Nú veit ég það, að Tryggingastofnunin er alls góðs makleg, en engu að síður er þetta atriði túlkað ranglega. Tryggingastofnunin sem slík getur ekki orðið fyrir neinum skakkaföllum í þessu efni. Hún hefur sinn bakhjarl, þar sem ríkissjóður er, en hann stendur í ábyrgð fyrir framlögum sveitarfélaganna. Hví er þá ekki sagt við sveitarfélögin: Ef þið standið ekki í skilum á lánum, sem ríkissjóður hefur ábyrgzt, svo sem til hafnarmannvirkja, rafmagnsvirkjana o.fl., þá verður gengið í fjárhirzlu ykkar og tekið svo og svo mikið af tekjum ykkar til þess að greiða þessar skuldir? — Þarna er um að ræða skuldir, sem koma á sama hátt niður á ríkissjóði og skuldirnar til trygginganna, og ef þessi háttur yrði hafður á, mundi hlutfallsupphæðin, sem ríkissjóður hefði rétt til að leggja hald á, hækka brátt úr 1/4 álagðra útsvara upp í 1/2 og að síðustu svo, að ríkissjóður hefði allan rekstur sveitarfélaga í sinni hendi. Þetta er máske það, sem vakir fyrir mönnum, en þá held ég væri réttara að notfæra sér þau ákvæði, sem nú eru í lögunum, að taka fjárforráð af sveitarfélögunum og setja yfirmann yfir þau. Það er sannarlega rétt, sem komið hefur fram hér, að hagur sveitarfélaga hefur á undanförnum árum verið að þrengjast meir og meir, og nú er svo komið, að þau geta mörg ekki staðið við skuldbindingar sínar. Einn þeirra aðila, sem orðið hafa fyrir þessum dráttum á greiðslum frá sveitarfélögunum, er Tryggingastofnun ríkisins, en ég hygg það muni sízt halla á hana umfram ýmsa aðra aðila. Ef það er orðið svo nú, að mörg sveitarfélög geti ekki staðið við sínar skuldbindingar, þá á að fara aðra leið í þessum efnum en þá, sem hér er valin. Það á þá að taka þessi mál í heild og finna úrræði til þess að bæta úr því ástandi, en ekki fara þessa leið, að steypa þeim út í enn meiri örðugleika og svipta þau yfirráðum yfir sínum tekjum. Ég fyrir mitt leyti mælist ekki undan því, að reynt verði að finna leið til að koma í veg fyrir, að sveitarfélög geri sér leik að því að vanrækja greiðslur til trygginganna. En ég tel, að það sé til ákvæði í núgildandi lögum, sem eigi að geta komið í veg fyrir slíkt, og því engin ástæða til að gera þessi gjöld rétthærri en aðrar kröfur. Ég vildi því biðja hæstv. forsrh. að athuga vel þá hættu, sem felst í því að torvelda fyrir sveitarfélögunum þá möguleika, sem þau nú hafa, til þess að veðsetja tekjur sínar og fleyta sér með því yfir erfiða tíma, en þann möguleika tel ég útilokaðan, ef þessi gr. yrði samþ. Þetta vildi ég biðja hæstv. ráðh. að athuga sérstaklega og hverjar afleiðingar það ástand mundi hafa. — Að síðustu vil ég svo taka undir orð hv. 7. þm. Reykv., að skora á hv. þm. að fella 3. gr. frv., því að ég tel hana lítið betri nú en hún var á fyrra stigi málsins. Afleiðingarnar mundu verða í stórum dráttum þær sömu, og því tel ég rétt að fella hana alveg úr frv.