01.03.1951
Neðri deild: 76. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1324 í B-deild Alþingistíðinda. (2739)

156. mál, almannatryggingar

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Ég hef engu við það að bæta, sem ég sagði áðan um 3. gr. frv. Ég stend aðeins upp til þess að leiðrétta misskilning, sem fram kom í ræðu hv. þm. Borgf. Hann skilur 3. gr. svo, að aðeins komi til þessara aðgerða vegna vanskila, þegar hægt er að kenna sveitarfélögunum um trassaskap. Hér er um algeran misskilning að ræða. Það er alveg sama, hvort vanefndir á greiðslunum stafa af getuleysi, trassaskap eða þrjózku. Ég held, að hv. þm. Borgf. sættist um það og sjái, ef hann talar við lögfræðing, að það er ekki nokkur vafi á, að orðin eru skilin þannig, að um vanskil sé að ræða, án tillits til orsaka. Ef dráttur er á greiðslu, þá eru það vanefndir. Í 3. gr. frv. kemur ekki fram, að ástæðan fyrir vanefndunum þurfi að vera trassaskapur eða þrjózka, enda er útilokað fyrir ríkisstj. að meta, af hvaða ástæðum gjöldin eru ekki greidd. Þetta nær til hvers konar dráttar á greiðslu, hver sem ástæðan er. Vænti ég þess, að hv. þm. Borgf. geri sér grein fyrir þessu.