02.03.1951
Neðri deild: 77. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1332 í B-deild Alþingistíðinda. (2759)

192. mál, mótvirðissjóður

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Hv. 3. landsk. þm. (GÞG) sagði, að það hefði verið tekið fram, þegar Marshallsamstarfið hófst, að það væri ætlunin að nota mótvirðissjóðinn til að greiða niður ríkisskuldir. Það kann vel að vera, að það hafi komið fram í sambandi við það, að menn hygðu gott til þess að greiða niður ríkisskuldir. En eins og hann tók fram, þá fer það eftir því almenna fjárhagsástandi í landinu, hvort ástæða er til að nota mótvirðissjóðinn til að greiða niður skuldir ríkissjóðs, eða hvort óhætt er að verja honum innan lands. Málið er þannig vaxið, að ef jafnvægi er á þjóðarbúskapnum, ef ekki er halli á fjárlögum og ekki er lánað úr bönkunum meira en eðlilegt er og fjárfestingin er innan eðlilegra takmarka, þá er ekki neitt athugavert við það, þó að fé mótvirðissjóðs sé notað til útlána, eins og hér er fyrirhugað. Og þessi uppástunga, sem hér er lögð fram, er byggð á því, að stefna ríkisstj. er sú að halda jöfnuði á fjárl., halda útlánastarfsemi bankanna í eðlilegum skorðum og hafa fjárfestinguna það hóflega setta miðað við ástandið, að þessi stóru fyrirtæki geti rúmazt innan eðlilegrar fjárfestingaráætlunar. Ef hægt er að halda stefnunni þannig, þá er ekkert athugavert við það, þó að mótvirðissjóðurinn sé notaður til þess að lána út í því skyni, sem hér er fyrirhugað, en ef mistekst um þessi atriði, sem ég hef minnzt á, þá getur skapazt verðbólga. Málið horfir þá þannig við, að ef allt er í lagi frá þessu sjónarmiði, þá er ekkert athugavert við það, þó að mótvirðissjóðurinn fari út jafnóðum og hann myndast. Það, að leyfa útlán úr mótvirðissjóði, á ekkert skylt við venjulega útlánaaukningu bankanna, því að það eru full verðmæti, sem koma inn í landið á móti mótvirðissjóði. Spurningin er aðeins, hvort fjárhagsmálin eru þannig að öðru leyti, að óhætt sé að nota mótvirðissjóðinn jafnóðum og hann myndast. Á undanförnum árum hefur fjármálaástandið verið þannig, að það gat ekki talizt eðlilegt, að mótvirðissjóðurinn færi í umferð, það var aðeins hægt að nota hann til skuldagreiðslu. En ef tekst að ná betri tökum á því á þessu ári, þá á ekkert að vera því til fyrirstöðu, að mótvirðissjóðurinn sé lánaður í fyrirtæki, án þess að af því myndist verðbólga. — Í þessu sambandi er fróðlegt að kynna sér, hvernig þessum málum er háttað í öðrum löndum. Í þeim löndum, þar sem fjárhagsjafnvægi er náð, þar hefur mótvirðissjóðurinn verið lánaður út til fyrirtækja eða til að kosta fyrirtæki, en þar, sem ekki hafa náðst tök á fjárhagsmálunum, þar er mótvirðissjóðurinn settur fastur eða notaður til skuldagreiðslna. Einmitt af þessum ástæðum er það sérstaklega nauðsynlegt fyrir okkur að koma lagi á okkar fjárhagsmál og gæta þess, að ekki sé halli á fjárl. eða óeðlileg útlánapólitík rekin í bönkunum eða fjárfestingin of mikil. Ef það er, þá þýðir það, að mótvirðissjóðurinn frýs fastur og við stoppum með þau fyrirtæki, sem við ætlum að reyna að koma á fót með sjóðnum. — Eins og lesa mátti út úr ræðu hv. 3. landsk. þm., þá gat aldrei komið til mála að nota allan mótvirðissjóðinn til að greiða ríkisskuldirnar, af því að hann var hærri en ríkisskuldirnar, en eins og ég sagði, þá hefur það verið á döfinni hjá ríkisstj. að nota nokkuð af sjóðnum til að greiða ríkisskuldir, en um það munu verða teknar ákvarðanir í dag eða á morgun, hvort ríkisstj. leggur til, að því yrði bætt inn í þetta frv.

Það er rétt, sem hv. 3. landsk. þm. tók fram, að það fer eftir hví, hvernig tekst um önnur efni, hvort þetta verður til þess að ýta undir verðbólgu eða ekki. Ætlunin hefur verið að miða þetta við þá stefnu, sem reynt er nú að framkvæma og hvað eftir annað hefur verið lýst.