06.03.1951
Sameinað þing: 49. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1395 í B-deild Alþingistíðinda. (2884)

76. mál, áfengislög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil ítreka það, sem ég sagði hér áðan, að það gætir mikils misskilnings í þessu máli hér á Alþ. Ég get vel skilið, að hv. þm. séu á móti því frv., sem hér liggur fyrir, því að þótt þeir líti þannig á, að hér sé um óvanaleg afbrot að ræða og að þetta mál sé plága út af fyrir sig, þá geti þeir ekki sætt sig við að láta réttvísina og löggæzluna fá slík vopn í hendur sem frv. gerir ráð fyrir. En ástæðan til þess, að við ýmsir viljum þó víkja frá því og láta réttvísina og löggæzluna fá sterkari vopn í hendur en flesta aðra, er sú, að leynivínsala úr bifreiðum er svo mikil plága, að erfitt er við að una, bæði hér í bænum og ekki hvað sízt úti á landi í sambandi við samkomur. En auk þess er hér um að ræða afbrot, sem óvenjulega erfitt er að sanna og hindra, og þess vegna verður að beita til þess óvenjulegum ráðum, en svipuð ákvæði og 1. gr. frv. felur í sér eru að fróðustu manna yfirsýn talin nauðsynleg til þess að reyna að koma í veg fyrir þessa tegund afbrota. Ég get vel skilið, að menn séu á móti þeim aðferðum, sem hér er lagt til að beita, þótt þeir viðurkenni að ólögleg áfengissala í bifreiðum sé orðin mikil plága.

Ég get ekki skilið þá deilu, sem út af þessu máli er risin, eins og ég hef bent á í hv. Ed. Deila þessi er um einskis nýtt orðalag, hvort sem um er að ræða orðalag hv. Nd. eða hv. Ed. eða það orðalag, sem ég hef stungið upp á, það kemur í einn stað niður fyrir dómstólunum. Eins og hv. 1. þm. Eyf. sagði réttilega, þá er sá verknaður, sem hér um ræðir, þess eðlis, að beinni sönnun verður ekki við komið og hér er ekki hægt að sanna með öðru en sterkum líkum. Hér er verið að tala um óorðið — það, sem ekki hefur gerzt. Þess vegna krefjast hv. þm. Barð. og hv. 1. þm. Eyf. þeirrar sterkustu sönnunar, sem hægt er að koma við. Með þeirra orðalagi halda þeir við hinni sterkustu sönnun, sem sé að sanna með sterkustu líkum. Ég geri ráð fyrir, að þeir hafi ekki gert sér grein fyrir, hvað er sönnun og hvað er ekki sönnun. Ef þeir lesa t.d. 112. gr. í frv. til laga um meðferð opinberra mála (frá 1948, ég hef ekki annað við höndina), þá munu þeir sjá, að líkur eru ein tegund sönnunar, og í grg. frv. á 52. bls. við 13. kafla segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Meginreglan er sú, að sönnunarbyrðin fyrir sekt manns hvílir á ákæruvaldinu, en heimilt er dómstólum að meta, hvort svo sterkar líkur eru fram komnar á hendur sökunaut, að sekt hans verði ekki vefengd með skynsamlegum rökum.“

Hér segir, að sterkar líkur gegn sökunaut sanni sekt hans, ef talið er, að þær verði ekki vefengdar með rökum, og ekki hægt að búast við, að líkurnar verði sterkari. — Af hverju er ég þá að flytja hér brtt., ef allt kemur í einn stað niður? Af því að ég hafði sönnun eða a.m.k. sterkar líkur fyrir því, að ef ég hefði ekki flutt þessa till., þá mundi till. hv. Nd. verða tekin hér upp og líklega samþ., en ég óttast, að þá yrði frv. fellt í heild. Ég taldi útilokað, að hv. þingmenn vildu fella þetta frv. einungis vegna orðalagsins, sem ég legg til að verði á frv. Ef það kæmi á daginn, þá mundi ég taka aftur brtt. mína, en þó ekki, ef brtt. frá hv. Nd. kemur fram. Þess vegna vildi ég leita álits forgöngumanna frv. í hv. Nd., hvort þeir geti ekki fallizt á brtt. mína eða hvort þeir muni greiða atkv. með óbreyttu frv. frá hv. Nd.