04.12.1950
Neðri deild: 32. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í C-deild Alþingistíðinda. (2946)

11. mál, hvíldartími háseta á togurum

Frsm. meiri hl. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Frv. þessu, sem hér liggur fyrir, um breyt. á h nr. 53 27. júní 1921, um hvíldartíma háseta á íslenzkum botnvörpuskipum, og á l. nr. 45 7. maí 1928, um breyt. á þeim l., var vísað til sjútvn. ásamt öðru frv., um lengingu hvíldartíma háseta á botnvörpuskipum, efnislega að mestu samhljóða þessu frv. Við afgreiðslu málsins var það frv. lagt til grundvallar, sem fyrr var útbýtt í þinginn, þ. e. a. s. þetta frv.

Samkomulag hefur ekki orðið innan n. um afgreiðslu málsins; minni hl., hv. 2. landsk. þm., mælir með samþykkt frv., en meiri hl. leggur til, að frv. sé afgr. með svo hljóðandi rökstuddri dagskrá:

„Þar sem Alþingi hefur þegar sett lög um lágmarks hvíldartíma háseta á botnvörpuskipum og aðilar hafa nýlega orðið ásáttir um að gera nánari ákvörðun hvíldartímans að samningsatriði, telur deildin ekki rétt að svo stöddu, að ríkisvaldið hafi frekari afskipti af þessu máli, og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“