12.01.1951
Neðri deild: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í C-deild Alþingistíðinda. (2954)

11. mál, hvíldartími háseta á togurum

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Mér finnst varla hægt að láta þetta mál fara í gegnum þingið án þess að fara nokkrum orðum um þá meðferð, sem það hefur sætt bæði á þessu og síðasta þingi.

Þessi rökstudda dagskrá, sem hér hefur komið fram í sambandi við þetta mál, er táknræn fyrir, að engin stétt hefur þurft að sækja til Alþingis um vinnutíma sinn. En undirstaðan að því, að einmitt þetta mál um hvíldartímann kom til Alþingis, var sú, að frá upphafi var ákveðið, að vinna á sjó væri öðrum lögmálum háð en vinna í landi. Í fyrstu tíð var vinnan á bátunum háð gæftum og fiskiríi, en eftir að togararnir komu til landsins og föst vinna var á þeim allan sólarhringinn, þá var ekkert tillit tekið til, hvort sjómenn fengju einhverja hvíld eða ekki. En hvað alla aðra vinnu snerti var ákveðinn viss hvíldartími. Það getur verið alls kostar rétt með togaravinnu, að engin ásfæða sé til að láta hana ekki hlíta sömu lögmálum og vinnu í landi. Og þá getur maður skilið þessa rökstuddu dagskrá. En þegar búið er að kippa því úr hugum sjómannanna, að vinna þeirra sé bundin öðrum aðstæðum en vinna í landi, þá munu þeir krefjast þess að vinna sína 8 tíma og fá eftirvinnugreiðslu fyrir þá tíma, sem þeir vinna fram yfir, alveg eins og t. d. á eyrinni. Og hin rökstudda dagskrá er ekkert annað en vilyrði fyrir þessu. En sjómennirnir sjálfir hafa ekki komið fram með neinar slíkar kröfur — þeir vilja vinna hálfan sólarhringinn.

En Alþingi sýnir með þessari rökstuddu dagskrá, að þetta sé bara venjuleg firra. Þess vegna finnst mér hin rökstudda dagskrá gefa til kynna þann vilja Alþingis að láta hið sama gilda á sjó og á landi. Það minnsta, sem nokkrum manni hefði getað dottið í hug, er, að Alþingi hefði fylgt þeim samningum, sem sjómenn sjálfir hafa gert. En það hefði dálítið að segja, að aðilar, hver í sínu lagi, séu ekki vakandi yfir að ná sér niðri vegna þess, hve illa hefur verið farið með þá í þessu sambandi. Þeir mundu afkasta meiru í vinnunni og mundi það fyllilega vega upp á móti nokkurri kjararýmkun.

Ég ætla svo ekki að tefja þetta mál með lengri ræðu, en vil láta það koma fram, að ég mun greiða atkv. á móti þeirri rökstuddu dagskrá, sem fram hefur komið.