27.11.1950
Neðri deild: 28. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í C-deild Alþingistíðinda. (2987)

60. mál, kaup á ítökum

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Þegar frv. nálega samhljóða þessu, sem hér liggur fyrir á þskj. 184, lá fyrir þinginu í fyrra, þá benti ég á m. a., að mál þetta væri allvíðtækt og þyrfti athugunar við. Síðan hafa verið gerðar á frv. nokkrar orðalagsbreytingar, og eru þær að mínum dómi til bóta, því að þær gera ákvæði þess skýrari en þau voru í fyrra. Engu að síður finnst mér þó ástæða til, að landbn., sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, athugaði enn betur orðalag á ákvæðum þess, og þá einkum 1. gr., þar sem skilgreint er, hvað skuli teljast ítök. Vil ég leyfa mér að vænta þess, að mér gefist kostur á að ræða við hv. n., annaðhvort í heild eða einstaka nefndarmenn, til þess að skýra betur, hvað mér er í huga.