08.02.1951
Efri deild: 66. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í C-deild Alþingistíðinda. (3082)

70. mál, lyfsölulög

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég vil út af því, sem hv. frsm. heilbr.- og félmn. hefur sagt, og þeirri rökst. dagskrá, sem n. flytur um þetta mál, bæði um 3. og 4. málið á dagskrá, þ. e. frv. til lyfsölulaga og frv. til lyfjal. leyfa mér að taka eftirfarandi fram:

Það hafa mörg undanfarin ár, ég hygg allt upp undir 10 ár, verið flutt frv. hér á Alþ. varðandi þessi mál.

Það er augljóst, að þetta mál er komið í einhverja sjálfheldu, sem Alþ. hliðrar sér hjá að leysa á þeim grundvelli, sem málin hafa verið lögð fyrir. Nú eru það tvö frv., sem hér liggja fyrir um þetta sama efni. Ekki orkar það tvímælis, að núgildandi lagaákvæði um lyfjasölu og meðferð á þeim málum öllum eru úrelt orðin, því að eins og hv. frsm. n. tók fram, eru þau í meginatriðum allt frá 17. öld og aðeins smáatriði, sem hægt er að segja, að séu ekki mjög gömul lagaákvæði um.

Ég vil lýsa því yfir, að heilbr.- og félmn. lítur svo á, að hin mesta nauðsyn sé á að fá löggjöf um þessi mál sem fyrst, og með tilliti til þess, sem hv. heilbr.- og félmn. leggur hér til, að málinu sé vísað til ríkisstj. með þeim fyrirvara, að ríkisstj. láti fyrir næsta Alþ. taka til athugunar þau frv. bæði, sem hér liggja fyrir, og leggja síðan álit sitt í frv.-formi fyrir Alþ., þá vil ég segja það, að það mun ríkisstj. gera. Rn. mun láta undirbúa slíkt frv. á grundvelli þeirra till., sem hér liggja fyrir. Ég vil og taka það fram, að það verður mjög tekið til athugunar í þessu sambandi, hvort ekki sé rétt að skipta þessu máli í tvennt. Á ég þar við, að það getur mjög komið til álita, hvort ekki sé heppilegast að skipta þessu þannig, að ákvæðin varðandi fyrirkomulag á lyfjaverzluninni innanlands og annað þar að lútandi verði í sérstöku frv., og þá gæti Alþ. tekið sérafstöðu til lyfjasölukaflans. Virðist mér að ýmsu leyti eðlilegt, eins og nú er komið, að kljúfa málið þannig. Ég get vel ímyndað mér að sú sjálfhelda, sem Alþ. er komið í varðandi þetta mál, stafi af mismunandi skoðunum á þessum atriðum. Nú er það svo varðandi lyfjaverzlunina innanlands, að það eru einmitt hin tæknilegu atriði, sem ekki verða undirbúin nema af sérstökum fagmönnum, og er varla við því að búast, að Alþ. geti tekið tillit til sératriða, en væntanlega mun Alþ. fá þessi mál til úrlausnar á næsta þingi.