15.02.1951
Efri deild: 72. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í C-deild Alþingistíðinda. (3236)

96. mál, fjárhagsráð

Landbrh. (Hermann Jónasson) :

Herra forseti. Það er ekki nema eðlilegt, að hv. þm. séu farnir að ókyrrast út af þeim drætti, sem orðið hefur á þessu máli, en þessi langi dráttur og beiðni hæstv. fjmrh. um frestun á málinu stafar af því, að nú undanfarið hefur verið unnið að lausn annars máls, sem hefur tekið allan daginn fyrir ríkisstj. Fyrir talsvert löngu var lagt fyrir fjárhagsráð að leggja skýrslu fyrir ríkisstj. um fjárfestingu á árinu o. fl., sem fróðlegt væri fyrir hv. þm. að athuga í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Skýrsla þessi er nú tilbúin fyrir nokkru, þó að ekki hafi enn gefizt tími til að halda fund með fjárhagsráði um hana. Í gær fór ég svo með tölur í Sþ. um fjárfestingu á s. l. ári og taldi hana hafa numið 520 millj. kr., en nú hef ég fengið nákvæmari upplýsingar um þetta, og er upphæðin nokkru hærri en ég gerði ráð fyrir — eða 547 millj. kr. Þessa skýrslu vildi hæstv. fjmrh. og ríkisstj. sjá, áður en málið væri afgreitt, enda talið eðlilegt, að hv. þm. vildu hafa hana til hliðsjónar í sambandi við afgreiðsluna. Mál þetta hefur nokkuð verið rætt og sú spurning borin fram af einum hæstv. ráðh., hvort ekki mundi vera hægt að gefa frjálsa byggingu smáíbúða, verbúða og útihúsa í sveit, og ætti ekki að þurfa að standa á svörum í þessu máli, þegar búið er að athuga öll gögn, sem varða það. Og það er alls ekki meiningin að láta mál þetta stranda hér, enda væru slík vinnubrögð ófær, og ég get fullyrt, að slíkt hefur hvorki vakað fyrir hæstv. fjmrh. né ríkisstj. í heild, þó að beðið hafi verið um frest á málinu og þessi dráttur hafi orðið á afgreiðslu þess hér í deildinni.