23.02.1951
Neðri deild: 74. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í C-deild Alþingistíðinda. (3495)

128. mál, Iðnaðarbanki Íslands

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. þm. Hafnf. leggur áherzlu á að hraða málinu. Skyldi það vera vegna þess, sem hann stendur hér upp til þess að hreyta skætingi í menn? Hann heldur því fram, að ég hafi hindrað afgreiðslu þessa máls. Rétt frá skýrt er þetta þannig, að ég hef ekki sagt eitt orð um þetta mál fyrr en nú við 3. umr. Hitt er rétt, að ég hef oftar en einu sinni vakið athygli hæstv. forseta á því, að þetta mál hefði ekki hlotið eðlilegan undirbúning, þar sem ekki hefði verið rætt við hæstv. ríkisstjórn um það. Hæstv. forseti hefur séð það og gert ráðstafanir til þess að úr því yrði bætt. Ég man ekki betur en þegar málið var tekið út af dagskrá síðast, að þá hafi það verið eftir beiðni eins af flm., og þannig mun það jafnvel hafa verið oftar.

Hv. þm. Hafnf., sem lætur mjög hátt um nauðsyn þessa máls, var í ráðherrastóli ekki alls fyrir löngu. Hann var þar í 5 ár samfleytt, og ekki er nema rúmt ár síðan hann losnaði úr þeim sessi, og ég man ekki betur en hann hafi verið iðnmrh. Þá var þessi brýna og mikla þörf fyrir sérstakan iðnaðarbanka ekki komin. Það var fyrst síðast í nóv. í fyrra, sem þessi þörf skapaðist. Hv. þm. Hafnf. finnst það eðlilegt, að frv. um stofnun nýs banka sé látið ganga í gegnum þingið, án þess að hæstv. ríkisstjórn fái tækifæri til þess að athuga það og það þótt vitað sé, að hæstv. ríkisstjórn hefur til meðferðar endurskoðun bankalöggjafarinnar yfirleitt. Ég bendi á, að form. n. og flm. átti að vera innan handar að ræða við stjórnina um þetta mál, því að flokksbræður hans í ríkisstj. fara með bankamál og iðnaðarmál. Það er langt um liðið frá því að frv. var flutt, en það er nú fyrst fyrir fáeinum dögum að flm. frv. ræddu við stjórnina, þegar rúmir 2 mánuðir voru liðnir frá því að frv. var lagt fyrir deildina, og þess vegna var þá óskað eftir því, að málinu yrði frestað, en hefði verið brennandi áhugi fyrir því, að málið fengist afgr., hefðu þeir átt að ræða fyrr við hæstv. stjórn. Það er því fullkomið öfugmæli, að ég hafi á nokkurn hátt hindrað afgreiðslu þessa máls. Hitt er rétt, að ég hef bent á, að málið hafi ekki fengið eðlilegan undirbúning og athugun, og ég vil benda á, að hún hefur ekki enn farið fram.

Út af því, sem ég sagði um lánveitingar bankanna til iðnaðarins, sagði hv. þm. Hafnf., að það vantaði samanburð. Það er vafalaust svo, að meira fé er bundið í sjávarútveginum en í iðnaðinum, enda er það eðlilegt, og einkum þó hjá hraðfrystihúsunum.

Ég hef ekki tæmandi skýrslur um landbúnaðinn, en á landshankanefndarfundi í gær, þar sem við hv. þm. Hafnf. vorum báðir, kom það fram, að það lítur út fyrir, að útlán til landbúnaðarins hafi numið um 35 millj. kr. frá þeim banka um síðustu áramót. Samkv. reikningum Búnaðarbankans nema útlánin frá stofnlánadeildum bankans um 45 millj. króna, auk þess á sparisjóðsdeild bankans nokkurt fé útistandandi í lánum, en það er ekki sundurliðað, og slíkt á einnig við um víxla bankans. Þetta er ekki tæmandi skýrsla til samanburðar, en ég hef ekki haft aðstöðu til þess að afla mér hennar.

Ýmislegt kemur til athugunar í sambandi við stofnun sérstaks iðnaðarbanka, og spurning er það nokkur, hvort þessi bankastofnun sé hagkvæm fyrir iðnaðinn. Jafnvel þó að iðnaðurinn leggi fram nokkrar millj. króna og ríkið 3½ millj., þá er það gefið mál, að þessi banki verður fyrst um sinn lítil stofnun. Þess vegna er óvíst, að slík bankastofnun verði iðnaðinum til ávinnings, et aðrir bankar draga úr útlánum sínum til hans: Það eru svona hlutir, sem vert væri að athuga, og iðnaðarmenn mættu gjarnan taka til athugunar, hvort allt væri fengið með stofnun slíks banka. — Þessar aths. vildi ég láta koma fram, en ég vil ekki þreyta hæstv. forseta með lengri ræðu um þetta mál, enda tel ég þess ekki þörf.