16.01.1951
Neðri deild: 50. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í C-deild Alþingistíðinda. (3517)

137. mál, fasteignamat

Jón Pálmason:

Herra forseti. Eftir að hafa hlustað á ræðu hv. þm. Mýr., þá liggur mjög nærri því, að manni detti í hug, að hann hafi samið þetta frv., sem hér liggur fyrir. En þó þykir mér það ákaflega undarlegt, ef slík grautargerð eins og þetta frv. er er samin af jafngreindum manni og hv. þm. Mýr. er, því eins og hv. þm. Borgf. hefur rækilega bent á, er þetta í raun og veru furðulegt frv., sem hér liggur nú fyrir til umr.

Hv. þm. Mýr. sló úr og í í ræðu sinni um það, hvort þetta væri nýtt fasteignamat eða ekki, sem frv. gerir ráð fyrir, og komst m. a. að þeirri niðurstöðu, að þetta væri ekki nýtt fasteignamat og þess vegna væri ekki nauðsynlegt að breyta eldri lögum um það vegna frv., sem hér liggur fyrir. Þarna virtist mér koma nokkuð hvað á móti öðru hjá þessum hv. þm. Og ég álít þetta frv. svo vitlaust, að ég álít, að það geti ekki verið samið af hv. þm. Mýr.

Ágreiningurinn hér um þetta mál er þessi: Eigum við nú að stofna til nýs fasteignamats eða ekki? — Það er fyrir tveim árum búið að ákveða, að almennt fasteignamat skuli fara fram á 25 ára fresti, í stað þess að áður var það á 10 ára fresti. Það mun því láta nærri, að eftir 10 ár eða nálægt því ætti að fara að undirbúa það nýja fasteignamat. Ég er á sömu skoðun og hv. síðasti ræðumaður, þm. Borgf., um það, að þegar almennt fasteignamat fari fram, verði að undirbúa það vel og rækilega, en ekki flaustra því af á neinn hátt. Ég er einnig þeirrar skoðunar, að það sé engin þörf á að láta það almenna fasteignamat fara fram með mjög stuttu millibili. Hv. þm. Mýr. hélt hér fram, að það þekktist víða annars staðar, að fasteignamat færi fram á 5 ára fresti. Skal ég ekkert um það segja, því að ég hef ekki þekkingu á því. En mér þykir líklegt, að þar, sem um stórþjóðir er að tala, þá sé erfitt að taka til greina í mati breyt., sem gerðar eru á fasteignum, jafnóðum og þær eru gerðar. En það má segja, að hér á landi séu gerðar breyt. á fasteignamatinu á hverju ári, því að þær eru metnar jafnóðum og gerðar eru húsabætur, bæði íbúðarhúsa, útihúsa, verzlunarhúsa o. s. frv. Hér er því fasteignamatinu raunverulega breytt á hverju ári.

Bæði hv. þm. Mýr. og hæstv. forsrh. létu í það skína, að það væri ekki horfandi í það, þó að eytt væri í það nokkrum millj. kr., sem það mundi kosta að stofna til þessa fasteignamats. Mér þykir nú undarlegt að heyra þetta, þegar ástandið er orðið þannig hjá okkur, að ríkisútgjöldin eru orðin álíka mikil og allur útflutningur þjóðarinnar, og við vitum ekki, hve lengi er hægt að halda uppi því kerfi, sem hér er ríkjandi í ríkisrekstrinum. Mér þykir það líka furðu gegna að heyra það af munni hv. þm. Mýr., að það sé nú nærri komið því jafnvægi í okkar fjármálum, sem við óskum eftir í okkar þjóðfélagi. En sannleikurinn er, að við vitum ekki, hve mikil röskun kann að verða á því sviði á næstunni, og þess vegna getur nú verið einhver óheppilegasti tími til þess að hefja framkvæmdir um nýtt fasteignamat. Hitt er annað mál, að ég geng inn á þær röksemdir, sem hér hafa komið fram, að fasteignamatið er í ósamræmi við annað verðlag í landinu, bæði verðlag á peningum og annað verðlag. Og þetta misræmi er hægt í sambandi við fasteignamatið að leiðrétta til bráðabirgða, eins og hv. þm. Borgf. tók réttilega fram. Og það á að gera án þess að fara út í að framkvæma nýtt fasteignamat. Að vísu er ég alveg fráhverfur því að láta mér detta í hug að fara í því efni út í slíkar öfgar eins og mér virðist koma fram hjá hv. þm. Mýr., að leiðrétting á matinu ætti að gefa í auknum sköttum upp undir 5 millj. kr. Hann taldi, að það lágmark, sem þar kæmi til greina í sambandi við hækkun matsins, væri ferfalt fasteignamatsverð á við það, sem það er nú bókfært. Enda þótt ég álíti, að það eigi að breyta matinu með bráðabirgðaákvæðum til hækkunar, þá tei ég það fjarstæðu að fara svo í þessa hluti. Annars er það svo, að nýjar húseignir og annað, sem bætist við fasteignirnar í landinu, er metið árlega og tekið með sem skattgrundvöllur. Og höfuðtilgangurinn með flutningi þessa máls hér er að fá breyt. til hækkunar á sköttum og útsvörum. Ég veit, að hér og þar á landinu mun það eiga sér stað, að þegar hreppsnefndir jafna niður útsvörum, þá hækka þær í sínum útreikningum þeim viðkomandi fasteignamatið prósentvís, og eins og nú er, er það ekki óeðlilegt. En ef farið er út í þá bráðabirgðaákvörðun, sem það frv., sem hér liggur fyrir, er um, þá vildi ég að sjálfsögðu hafa þá undantekningu í þeim efnum, að jarðir og húseignir, sem eru í eyði og ekki er bítið í, væru ekki hækkaðar neitt. Og virðist mér, að líka gæti mjög vel komið til mála, að fjmrn. óskaði eftir, að skattanefndir legðu fram till. sínar um það, áður en frá þessari bráðabirgðabreyt. er gengið, hvað þeim fyndist viðkomandi matinu um verðgildi þeirra jarða, sem vegna samgönguleysis væru sérstaklega illa settar, og hvort ekki bæri að ákveða, að þær væru ekki hækkaðar í mati, en að öðru leyti væri matinu breytt bara með bráðabirgðahækkun á matinu frá því, sem nú er. Ég tel, úr því sem komið er, að heppilegast sé að byggja á þeim grundvelli, sem nú er, til bráðabirgða og fara svo að undirbúa nýtt fasteignamat og gera það vandlega, þegar tími er til kominn, og það ætti að vera fimm árum áður en það ætti að ganga í gildi, sem væri 1965.

Ég geng inn á það, sem ýmsir hafa hér sagt, m. a. hæstv. forsrh., að það sé ekkert skemmtilegt fyrir þá, sem eiga jarðir og aðrar fasteignir, að þeir séu settir eins langt niður í eignaframtali og þar af leiðandi skatti og nú er. Þess vegna getum við allir verið sammála um að breyta þessu til bráðabirgða, eins og ég hef tekið hér fram og sem mér virðist vaka eindregið fyrir hv. þm. Borgf. að vel gæti komið til mála.

Þá vil ég aðeins víkja að því, sem hv. þm. Mýr. taldi að ég hefði farið rangt með, hvað síðasta fasteignamat kostaði. Ég hef ekki tölur um það hér fyrir framan mig. En fasteignamatsn. kostaði eitthvað yfir 1200 þús. kr., en hve mikið hreppsfélögin hafa þurft að borga, hef ég ekki tölur um. En mér virðist, að það muni ekki vera fjarri lagi, sem ég sagði, að fasteignamatið í heild hafi kostað verulega mikið á aðra millj. kr.

Nú er hér stungið upp á því í þessu frv., að nefnd hér í Reykjavík geri tillögur og skrá yfir mat allra fasteigna í landinn og sendi síðan til allra hreppsnefnda og bæjarstjórna á landinu. Fæ ég ekki séð, hvaða erindi fasteignamatsskrárnar eiga til hreppsnefnda og bæjarstjórna, því að það er alls ekkert, en hins vegar ætti að senda fasteignamatið öllum skattanefndum. Þar á það heima, en ekki hjá hreppsnefndunum. — Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða um þetta mál, en vænti þess, að hv. fjhn. athugi vel, með hverju hún er hér að mæla, og vona ég, að n. komist að annarri niðurstöðu við nánari athugun, því að þetta frv. á annaðhvort að fella eða að öðrum kosti að gerbreyta því.