19.02.1951
Neðri deild: 71. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í C-deild Alþingistíðinda. (3575)

165. mál, menntaskólar

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Árið 1946 voru sett þau lög um menntaskóla, sem nú gilda. Áttu þau lög að öðlast gildi þá þegar, en að sjálfsögðu var gert ráð fyrir, að það yrði þannig í framkvæmd, að þeir nemendur, sem sátu í skólunum, báðum menntaskólunum, þegar lögin voru sett, skyldu ljúka námi samkvæmt ákvæðum eldri laga, en hin nýja breyt. kæmi til framkvæmda jafnóðum og nýir nemendur settust í skólana. Efni þessarar löggjafar um menntaskóla má flokka í tvennt, eins og raunar efni annarrar skólalöggjafar. Annars vegar eru þau ákvæði, sem lúta að kennurum skólanna, kjörum þeirra, starfsemi og öðru, sem þá varðar, og í hinn flokkinn má setja þau ákvæði, sem fjalla um starfsemi skólanna, allt, sem 1ýtur að kennslunni sjálfri, nemendunum og aðbúnaði þeirra. Það hefur aldrei komið annað til greina af hálfu Alþ. en að þau ákvæði 1., sem lúta að störfum kennaranna, næðu jafnt til kennaranna við menntaskólann í Rvík og menntaskólann á Akureyri; það hefur aldrei annað komið til greina en að öll þau ákvæði, sem að kjörum kennaranna lúta, giltu jafnt um báðar þessar menntastofnanir. En öðru máli gegnir um þau ákvæði, sem lúta að sjálfri skólastarfseminni. Menntaskólinn í Rvík hefur ávallt sætt sig við það, án þess að hafa uppi nokkrar óskir um aðra skipun, að fylgja í einu og öllu þeim ákvæðum, sem í nýju löggjöfinni eru. En frá hálfu forráðamanna menntaskólans á Akureyri komu þá þegar fram óskir um það, að þeir mættu haga starfi skólans í samræmi við hin eldri ákvæði þrátt fyrir setningu þessarar skólalöggjafar. Í fyrstu sneru þeir sér til menntmrn, með þessar óskir, en þar kom veturinn 1948, að flutt var að beiðni forráðamanna menntaskólans á Akureyri frv. í þessari hv. d. af allmörgum þm., þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á meðan húsrými menntaskólans á Akureyri leyfir, að dómi skólastjórnar, skal skólinn starfa áfram með sama fyrirkomulagi og var fyrir gildistöku þessara laga, að því viðbættu, að landspróf gildir til upptöku í þriðja bekk skólans.“

Í þessu orðalagi fólst meira en það, að á Akureyri ætti að starfa gagnfræðadeild, heldur fólust í þessu þær óskir, að allt skólastarfið skyldi vera í samræmi við hin eldri ákvæði. Þetta kom til athugunar í menntmn. þessarar hv. d., og þótti ekki eðlilegt að fallast á þetta orðalag á frv. óbreytt, því að ef það hefði verið gert, hefði niðurstaðan orðið sú, að öll þau ákvæði nýju löggjafarinnar um menntaskóla, sem lúta að störfum kennaranna, hefðu verið gildandi gagnvart menntaskólanum á Akureyri, en ákvæðin, sem lúta að starfi skólans að öðru leyti, átt að vera með sama fyrirkomulagi og áður, þ. e. a. s. eftir reglugerð, sem upphaflega hafði verið sett fyrir menntaskólann á Akureyri, en sú reglugerð hlaut að verða endurskoðuð, eftir að nýja löggjöfin var sett, og þá hefði raunverulega enginn lagastafur verið fyrir hendi lengur um starfsemi menntaskólans, hefðu þessi ákvæði verið lögfest óbreytt. Það var því gengið svo frá því máli, eftir till. menntmn. þessarar d., að orðalaginu á þessu ákvæði var breytt í það horf, að sett voru tvenns konar skilyrði. Annars vegar, að leyfið var tímabundið við tvö ár, og sett í ákvæðið þessi setning: „enda starfi þá lærdómsdeild skólans samkvæmt lögum um menntaskóla, nr. 58 frá 7. maí 1946.“ Þar með var stefnt að því að taka af öll tvímæli um það, að starf menntaskólans á Akureyri ætti að fara eftir ákvæðum hinna nýju laga, þó að honum væri leyft að hafa sérstaka miðskóladeild í tvö ár umfram það, sem menntaskólinn í Rvík hefur. Þessi till. menntmn. þessarar d. náði samþykki þingsins, og þar með var það mál afgreitt fyrir tvö ár, nokkurn veginn með samkomulagi þeirra aðila, sem um málið fjölluðu, eins og t. d. fræðslumálastjóra annars vegar og forráðamanna menntaskólans á Akureyri hins vegar. Nú hefði ég fyrir mitt leyti kosið, að við þetta hefði verið staðið í öllum greinum, þannig að þegar þetta tveggja ára tímabil væri liðið, félli þessi kennsla niður í menntaskólanum á Akureyri, en nú liggur fyrir frv., þar sem farið er fram á að framlengja þetta ákvæði enn að nýju.

Þeim rökum, sem færð eru fyrir þessu frv. nú og færð hafa verið fyrir málinu áður, má skipta í þrennt. Í fyrsta lagi, að það sé betra, að nemendur dveljist lengur í einum og sama skóla, það hafi betri áhrif á nemendur, að skólinn sé 6 ára skóli en að hann sé 4 ára skóli. Í öðru lagi er því haldið fram, að húsrými menntaskólans á Akureyri sé það mikið, að þess vegna séu góð tök á því að hafa þar miðskóladeild enn um sinn, og í þriðja lagi eru svo þau rök, að það sé sparnaður þjóðfélagslega, bæði fyrir ríkissjóð og heimilin, að geta lokið miðskólanámi í þessari deild á tveimur vetrum í stað þess að miða við, að miðskólanámið sé þriggja vetra nám. — Ég vil leyfa mér að fara nokkrum orðum um þessi atriði, hvert fyrir sig, og bregða upp mynd af því, hvernig mér virðist þetta mál horfa við.

Það er kunnugt, að meðal skólamanna, bæði hér á landi og erlendis, er ekki alls kostar eining um það, hvort meiri árangurs megi vænta af skólastarfinu, að menntaskólarnir séu 6 ára skólar eða 4 ára skólar. Forráðamenn menntaskólans á Akureyri hafa látið þá skoðun í ljós, bæði fyrr og síðar, að þeir teldu skólastarfinu hefur borgið, ef skólinn væri ákveðinn 6 ára skóli. Þau rök, sem hníga undir þessa skoðun, eru aðallega þau, að sé um góðan skóla að ræða, sem hafi holl áhrif á nemendurna, þá séu meiri líkur til þess, að þau áhrif móti nemendurna varanlegar, eftir því sem skólinn er lengri. Þetta eru þau aðalrök, sem undir þetta hníga. En svo eru aftur aðrir skólamenn, og það mjög lærðir menn og merkir, sem halda því fram, að þessu sé einmitt ekki svona farið, það sé ekki hollt fyrir nemandann að vera bundinn við einn og sama skóla allt frá fermingaraldri til tvítugs, öll sín þroskaár. Þess verði að gæta, að menntaskólanámið sé að öllum jafnaði ekki lokaskrefið á námsbrautinni, nemandinn ætli sér annað meira, í háskóla hér á landi eða erlendis, þá eigi hann eftir að mæta nýjum viðhorfum og þurfi að aðhæfast nýjum viðfangsefnum, og mundi hann verða betur undir það búinn, ef hann ætti kost á því á þroskaárum sínum að kynnast fleiri skólum en einum, og það sé þess vegna betri árangurs að vænta, ef nemandinn eigi kost á því að fá reynslu í fleiri en einum skóla fyrir 20 ára aldur. Í þessu sambandi má vitna til þess, að fátt er hollara uppeldi manna en dvöl á góðum heimilum, en samt er það nú svo, að hinn ævaforni málsháttur: „Heimskt er heimaalið barn“ — geymir í sér djúpa lífsspeki, þannig að þrátt fyrir holl áhrif góðra heimila hefur nemandinn samt gott af því að fara út í heiminn og sjá fleira en á sínu heimili, kynnast fleiri viðhorfum en hann á kost á í sínu umhverfi. Nú ætla ég mér ekki þá dul að kveða upp úrskurð um það, hver af þessum rökum, sem ég hef drepið á, eru mikilvægust, til þess skortir mig vissulega bæði þekkingu og lífsreynslu. En á það vil ég benda,að ef það eru rök, sem forráðamenn menntaskólans á Akureyri halda fram, að það sé betra, að nemendur sitji lengi í sama skóla, — ef það eru rök, þá eru þau ekki sérstæð fyrir menntaskólann á Akureyri, heldur algild rök, sem ná til fleiri menntastofnana í landinu. Og ef þingið ætlar að afgreiða málið eins og það er með þessum rökum aðallega, ja, hvers á þá menntaskólinn í Rvík að gjalda, og hvers ætti þá það fólk, sem þann skóla sækir, að gjalda af hálfu þingsins, ef þm. almennt vilja fella þann úrskurð, að það sé betra, að menntaskólinn sé 6 ára skóli en 4 ára skóli? Og þó að enginn vilji bera brigður á það, að menntaskólanum á Akureyri sé vel stjórnað og hann hafi holl áhrif á nemendur, þá eru það ekki heldur sérstæð rök fyrir þá einu stofnun, því að við getum ekki haldið því fram, að enginn skóli í landinu hafi holl áhrif á nemendur nema menntaskólinn á Akureyri einn. Ég held því, að ef hv. þm. ætla að leggja þessa röksemd til grundvallar, komist þeir í nokkurn vanda, hætti sér út á nokkuð hálan ís, þegar þeir ætla að fara að gera upp á milli einstakra skóla í landinu í þessum efnum.

Nú er því þannig farið, að í þessu frv. kemur það fram, sem mjög er sjaldgæft, að forráðamenn skólans á Akureyri óska eftir því að fá til kennslu nemendur af lægra skólastigi. Ég held, að þess séu ekki dæmi, að gagnfræðaskólar óski eftir því að taka að sér barnakennslu eða háskólar kennslu undir stúdentspróf, þó að prófessorar hafi að sjálfsögðu næga menntun til þess að veita slíka þekkingu. Nei, hin reglan er miklu algengari, að skólar æski eftir því að bæta við sig hærra skólastigi. Það var krafa menntaskólans á Akureyri á sinni tíð, og þær kröfur hafa komið fram frá gagnfræðaskólunum á Ísafirði, Eiðum og Laugarvatni, og fleiri skóla mætti telja af því tagi. Ég held því, að ef þingið ætlar að hafa þessa röksemd að bakhjarli, komist þm. í nokkurn vanda, þegar þeir eiga að mæta kröfum frá t. d. gagnfræðaskólanum á Ísafirði, Eiðaskóla, Laugarvatnsskóla og úr ýmsum fleiri áttum, en slíkar kröfur hafa verið uppi hér í þinginu að undanförnu, og ég held, að þm. kæmust í nokkurn vanda, ef þeir ættu að fara að gera upp á milli menntaskólanna í landinu að þessu leyti. Hingað til hefur Alþ. staðið gegn þeim kröfum að gera Eiðaskóla og gagnfræðaskóla Ísafjarðar að menntaskóla, en eins og ég sagði áður, hefur frv. um þetta verið flutt oftar en einu sinni hér í þinginu, og fram að þessu hefur fræðslumálastjóri staðið gegn þessum kröfum, og er það gert með það fyrir augum, að menntaskólinn á Akureyri taki á móti þeim nemendum hvaðanæva af landinu, sem óska að afla sér menntunar til stúdentsprófs, og þeir nemendur njóti þeirra forréttinda, sem Akureyrarskóli hefur fengið vegna ákvörðunar Alþ. að geta tekið þá í heimavist. Og ég fæ nú ekki betur séð en að menntaskólanum á Akureyri sem menntaskóla sé sýnt fullt traust og full viðurkenning með því að ætla honum þetta hlutverk í skólakerfi landsins og að hann sé vel sæmdur af því, þó að forráðamenn skólans leggi ekki á það ofurkapp að fá undir sitt þak börn, 13–15 ára, um leið og þau sleppa út úr barnaskólunum. Ef á hinn bóginn þingið tæki þá stefnu að láta undan síga í þessum efnum og veitti ekki aðeins menntaskólanum á Akureyri rétt til þess að vera 6 ára skóli, heldur fleiri skólum í landinu, er auðséð, að þróunin yrði sú, að lærdómsdeildarnemendur, sem ella kæmu í menntaskólann á Akureyri, settust að annars staðar, svo að skólinn mundi færast meir í það horf að verða gagnfræðaskóli, og ég er alls ekki viss um, að sú þróun þyki æskileg frá sjónarmiði forráðamanna menntaskólans á Akureyri eða frá sjónarmiði Alþingis.

Þá kem ég að annarri röksemdinni, þ. e. húsnæði menntaskólans á Akureyri. Það verður að viðurkenna, að sú röksemd, svo langt sem hún nær, er alveg sérstæð fyrir þá menntastofnun. En þegar á það er litið, þá kemur það nú fyrst í hug manns: Ja, hvers vegna stendur menntaskólinn á Akureyri svona vel að vígi, eins og hann lætur uppi, með húsnæði? Er það ekki vegna þess, að Alþ. sjálft, fjárveitingarvaldið, hefur á undanförnum árum litið til þessa skóla með fullkominni viðurkenningu? Er það ekki vegna þess, að Alþ. hefur frekar beint fjárframlögum sínum þangað en til annarra menntaskóla? Á sama tíma hefur menntaskólinn í Rvík ekki fengið svo mikið sem lóð undir sinn skóla, heldur verður að búa enn í dag, langsamlega elzti menntaskóli landsins, við 100 ára gamalt húsnæði. Og það er ekki hægt að neita því, að það er eftirtektarvert, að þegar fjárveitingarvaldið hefur þó sýnt Akureyrarskóla þessa viðurkenningu, kemur fram ótti um það hjá forráðamönnum Akureyrarskólans, að húsrými verði of mikið fyrir það hlutverk, sem honum er ætlað að gegna í skólakerfi landsins samkv. l. En grg. þessa frv. fylgir skýrsla frá menntaskólanum á Akureyri, og hún sýnir það, að miðað við þetta skólaár, veturinn í vetur, þá eru í miðskóladeildinni, þeirri deild, sem hér um ræðir, 99 nemendur. Þar af eru 54 frá Akureyri, unglingar, sem hafa komið úr barnaskóla Akureyrar. Hinn hlutinn, 45, er utan af landi, og af þessum 45 eru 18 í heimavist, en 25, eða 27, eru ekki í heimavist, heldur á heimilum á Akureyri, og í stað þessara 18 miðskólanemenda, sem eru í heimavist, hefur 39 lærdómsdeildarnemendum, sem sótt hafa um vist í heimavistinni, verið vísað frá. Þetta stendur í skýrslunni frá forráðamönnum menntaskólans á Akureyri. — Þá er þess einnig getið, að heimavistarhúsið sé í smíðum og hafi ekki verið tekið til nota nema að litlu leyti, en þegar það verði fullgert, sé gert ráð fyrir, að það taki 160 nemendur. En ef litið er á þá tölu lærdómsdeildarnemenda, sem nú eru í menntaskólanum á Akureyri utan af landsbyggðinni, er sú tala 165. M. ö. o., það stendur nálega alveg heima tala lærdómsdeildarnemenda í menntaskólanum á Akureyri utan af landsbyggðinni og það rúm, sem gert er ráð fyrir, að heimavistarhúsnæðið veiti, þegar það er komið til fullra nota. Mér sýnist því, að þessi skilríki, sem menntaskólinn á Akureyri leggur þm. í hendur, sýni það, að allar líkur bendi til þess, að heimavistarhúsið verði fullsetið lærdómsdeildarnemendum utan af landsbyggðinni næstu ár, því að ég tel ekki líkur til þess, að þeim nemendum, sem sækja um inntöku í lærdómsdeild, fari fækkandi frá því, sem nú er. Við verðum að gera okkur grein fyrir því, að margir skólar víðs vegar um landið hafa nú þegar fengið réttindi til þess að búa nemendur undir lærdómsdeildarnám, — réttindi til þess með hinn almenna landsprófi, sem þreytt er. Mér finnst því, að allar líkur bendi til þess, að slíkum nemendum fari fremur fjölgandi en fækkandi, og hvert eiga þeir að leita? Nú er ástandið þannig í Rvík, að menntaskólinn er fullsetinn eða meira en það og ekki líkindi til þess, að húsrými hans aukist á allra næstu tímum. Hér við bætist það, að fræðslumálastjórnin hefur látið það undan síga fyrir kröfum Ísfirðinga, að hún hefur leyft, að við gagnfræðaskólann á Ísafirði starfi einn bekkur, sem samsvari 1. bekk í lærdómsdeild. Í bréfi, sem fræðslumálastjórnin skrifaði, þegar þessi ákvörðun er tekin, og prentað er í skýrslu gagnfræðaskólans á Ísafirði, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðuneytið fellst eftir atvikum á, að þessi háttur verði hafður á kennslunni í vetur, enda valdi það ekki aukakostnaði, og skólastjórar menntaskólanna fallist á að taka nemendur þessa bekkjar í 2. bekk lærdómsdeildar, ef þeir sækja og standast próf, er fari fram í samráði við skólastjóra menntaskólanna.“

M. ö. o., það er gert ráð fyrir, að þessi bekkur starfi með því skilyrði, að nemendur úr honum geti komizt í lærdómsdeild menntaskólanna, ef þeir æskja þess. Og hvert eiga þá þessir nemendur að leita, sem koma frá Ísafirði? Ekki komast þeir inn í menntaskólann í Rvík, því að hann er fullsetinn, og þá er ekki í annað hús að venda en menntaskólann á Akureyri, og mér finnst beinlínis ástæða til að benda þm. á, að þeir þurfi að gefa því auga og búa svo um hnútana í löggjöfinni, að menntaskólinn á Akureyri fyrst og fremst taki á móti slíkum nemendum.

Þá kem ég loks að þriðju röksemdinni, sem getið er um hér í grg. forráðamanna menntaskólans á Akureyri, og það er sá sparnaður, sem af því leiði, að þarna sé um tveggja ára nám að ræða, en miðskólanámið að jafnaði bundið við þrjá námsvetur. Samkvæmt skólalöggjöfinni er gert ráð fyrir því, að unglingar, sem lokið hafa barnaskólaprófi, setjist í unglingaskóla eða miðskóla. Eftir þriggja vetra nám í slíkum unglingaskóla ljúka þeir landsprófi, sem veitir rétt til inngöngu í lærdómsdeild, eins og áður er tekið fram. Þetta er vissulega miðað við það, að börnin úr barnaskólanum taki ekkert hlé á námi, heldur gangi beina leið úr barnaskólanum, eftir að hafa lokið barnaprófi, inn í unglingaskólann. Nú er það að sjálfsögðu rétt, að nemendur, sem eru allvel gefnir og hafa hug á framhaldsnámi, geta áreiðanlega, ef þeir vilja og hafa tíma til, numið heima, þannig að þeir hlaupi yfir einn vetur á þessu stigi. Ég get því búizt við, að ekki sé vandkvæðum bundið fyrir allmarga einstaklinga, eins og þá, sem eiga heima úti í sveit og verja kannske einum til tveimur vetrum í sjálfsnám, að hlaupa yfir bekk á þessu fræðslustigi. En allt öðru máli er að gegna þegar farið er að miða við heilar bekkjardeildir, hópa, sem eiga að ganga að barnaprófi loknu gegnum það nám, sem miðskólar veita. Ég fyrir mitt leyti er ekki trúaður á það, að það eitt, að börn, sem hafa lokið barnaskólanámi á Akureyri, stunda sitt miðskólanám í húsakynnum menntaskólans, ráði úrslitum um það, að þau taki námið á tveim vetrum í stað þriggja, ef þeir sömu nemendur störfuðu í húsakynnum gagnfræðaskólans á Akureyri. Nei, það þarf áreiðanlega meira til. Þess vegna er það, að þegar í þessu máli er miðað við heilar bekkjardeildir, tel ég mjög hæpið, þó að forráðamenn menntaskólans á Akureyri byggi allt þetta mál á þeirri forsendu, — mjög hæpið, að rétt sé stefnt með því að ætlast til þess til frambúðar að framkvæma þetta nám á tveimur vetrum. Og það er ekki ófróðlegt fyrir þm., sem samþ. bráðabirgðaákvæðin, sem að þessu lutu, er þeir eiga nú að fara að endurtaka slíka samþykkt, þótt að vísu sé í nokkuð breyttu formi, að gera sér grein fyrir því, hvernig reynslan hefur orðið af þessu starfi miðskóladeildarinnar við menntaskólann á Akureyri. Þar sem þetta mál er flutt inn í þingið að nýju, tel ég rétt, að þm. sé gerð ofurlítil grein fyrir því. Skilríki um þá reynslu liggja víðar fyrir en hjá menntaskólanum sjálfum, einnig hjá landsprófsnefnd í Rvík og fræðslumálaskrifstofunni.

Þetta nám hefur verið framkvæmt þannig, að fyrst er valið úr þeim börnum, sem útskrifast úr barnaskóla Akureyrar. Er farið eftir prófum þeirra og líkum fyrir því, að þarna sé um gott námsfólk að ræða. Næst kemur það, að ég ætla, að felldar hafa verið niður tvær námsgreinar, sem venja er að kenna sömu aldursflokkum í öðrum skólum, í því augnamiði að bæta ekki um of á námsskrána, en létta nemendum gönguna gegnum þetta skólastig á tveimur árum.. Á s. l. vori gengu svo milli 30 og 40 nemendur undir landspróf eftir að hafa verið í þessari deild menntaskólans á Akureyri. Þau prófverkefni, sem sýndu lélegasta útkomu, voru ekki send landsprófsnefnd, þar sem augljóst þótti, að þeir nemendur mundu ekki standast prófið. Veit ég ekki með vissu, hvað þeir voru margir, en 31 úrlausn var send landsprófsnefnd. Þar af stóðust 20 próf, en 11 voru úrskurðuð frá. Af þessum 20 voru 9, sem hlutu 2. einkunn, sem er frá 6–7.25. 11 hlutu fyrstu einkunn, sem er frá 7.25 og þar fyrir ofan. En af þessum 11 voru aðeins 4, sem komust yfir meðaleinkunnina 8, m. ö. o. af milli 30 og 40 nemendum fá aðeins fjórir meðaleinkunnina 8 og þar yfir. Þetta er árangurinn af því í þessari ágætu menntastofnun að ætla sér að taka þriggja ára nám á tveimur árum. Það er mála sannast, að aðrir skólar, sem bjuggu nemendur undir alveg sams konar landspróf, þola fyllilega samanburð við þetta. Þegar á þetta er litið annars vegar og hins vegar á það, að hér eiga hlut að máli ekki fullþroska menn eða menn með verulega lífsreynslu, heldur börn á aldrinum 13–16 ára, þ. e. á örasta þroskaskeiði, þá er rétt að gæta að því, að námsskorpunni er ekki þar með lokið, heldur eiga þessi börn fyrir höndum langt nám, því að auðvitað stefna þessir nemendur yfirleitt að því að ljúka stúdentsprófi og jafnvel ná háskólaprófi. Því tel ég, að þm. þurfi að gæta þess vel, hvort sá sparnaður, sem talað er um í grg. menntaskólakennaranna á Akureyri, sé ekki fulldýru verði keyptur, ef hann raunverulega verður nokkur, þegar á allt er litið. Ég held jafnvel, að þessi röksemd verði léttvæg fundin. Auk þess má geta þess, sem í rauninni er ekki mjög stórt fjárhagsatriði, að ríkissjóður greiðir allan rekstrarkostnað í menntaskólunum, föstum kennurum gagnfræðaskólanna að fullu, en bæjarfélög greiða nú hluta af rekstrarkostnaði gagnfræðaskólanna. En þó að þetta sé ekki stórt fjárhagsatriði, er samt aðgætandi, að með þessu er stigið spor til að færa allan rekstrarkostnað þessara nemenda yfir á ríkið.

Ég hef viljað benda á, hvernig mér virtist þetta mál liggja fyrir og að það er á fleira að líta en óskir menntaskólans á Akureyri. Þegar þm. gera þessi mál upp, er full ástæða til að vega rökin í heild með ró, en gera ekki málið að tilfinningamáli einu gagnvart einni ágætri menntastofnun í landinu.

Þó að rök móti þessu máli séu mörg, eins og ég hef þegar dregið fram, hef ég þrátt fyrir það fallizt á að fylgja málinu, ef brtt., sem n. ber fram, verður samþ. Ég skal skjóta því inn í, að það hefur haft nokkur áhrif á þessa ákvörðun mína, að 1. og 2. flm. þessa máls hafa sýnt mjög mikla sanngirni. Ég hef haft samband við þá um málið í n. og utan hennar, og mér virðist sannast að segja, að þeim sé margt af því ljóst, sem um þetta mál er að segja. En með brtt. er það fyrst og fremst ákveðið, að þetta verði afgr. í heimildarformi og lagt á vald fræðslumálastjórnarinnar að úrskurða, hvort framkvæmd verði framlenging þessarar deildar næstu tvö ár. Í öðru lagi er tekið fram og lögfest, ef brtt. nær samþykki, að utanbæjarnemendur lærdómsdeildar skuli sitja fyrir húsnæði í heimavist. Með því á að girða fyrir, að endurtaki sig það, sem átt hefur sér stað, að nemendum, sem sækja um heimavist og ætla að sækja lærdómsdeildina, sé vísað frá heimavistinni í tugatali. Og í þriðja lagi er það fram tekið í brtt., að þessi miðskóladeild skuli verða óskipt. Nemendur eru nú 99 í tveimur ársdeildum. Af því hlýtur að leiða, að um skiptingu er að ræða. En með því að ákveða, að deildin skuli vera óskipt næstu tvö ár, hlýtur að leiða af því, að nokkur fækkun verður á nemendum í þessari deild, en fram er tekið, að utanbæjarnemendur skuli sitja fyrir námi í deildinni, ef þeir sækja nógu margir til þess að fylla þennan bekk. Ef þessi brtt. fellur hins vegar, mun ég ekki sjá mér fært að fylgja málinu. Í því er fyrirvari mínu fólginn.