15.02.1951
Neðri deild: 69. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í C-deild Alþingistíðinda. (3614)

181. mál, hafnarframkvæmdir í Rifi

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Þetta mál hefur skýrzt nokkuð við þau svör, sem hv. flm. frv. hafa gefið við fyrirspurnum mínum. Það liggur fyrir, eins og ég benti á, að jafnvel þótt frv. sé mjög stutt, þá felast í því nýmæli, sem hvorki eru í samræmi við ákvæði hinna almennu hafnarl. né í samræmi við ákvæði l. um landshöfn í Keflavík, m. ö. o., svo virðist sem með þessu frv. sé ákveðinn nýr flokkur hafna. Nú hafa verið í hafnarl. ákveðin miklu fleiri atriði en stofnfjárframlögin ein. Þar er kveðið á um rekstur hafna og ýmislegt fleira, sem ekki þarf upp að telja. Út af þessu vildi ég aðeins láta í ljós þá skoðun, að eðlilegra væri að taka þetta mál upp í því formi að flytja frv., sem hefði fleiri ákvæði að geyma en þetta frv. hefur um það mannvirki, sem hér er stofnað til.