16.02.1951
Neðri deild: 70. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í C-deild Alþingistíðinda. (3618)

183. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson) :

Herra forseti. Í 5 gr. laga um lax- og silungsveiði segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Héraðsmönnum öllum er veiði jafnheimil í vötnum í afréttum og almenningum, sem héruð eiga eða nota með löglegri heimild og ekki eru einstaks manns eign.

2. Öllum er veiði heimil í vötnum í afréttum og almenningum og öðrum lendum utan landareigna lögbýla, enda geti enginn sannað einstaklingsréttarheimild til þeirra.“

Eins og hv. þm. heyra, er þessi grein nokkuð óljós og hefur reynzt enn þá vandmeðfarnari í framkvæmd, en þetta er skýrt af öðrum liðum. Í þeim vötnum, sem óvéfengjanlega eru í svokölluðum almenningum og enginn hefur rétt til, er öllum mönnum heimil veiði. Það, sem hefur varnað því um aldaraðir, að veiðin í þessum vötnum yrði fyrir óhæfilegum ágangi, eru erfiðleikarnir á að sækja þangað veiði. Hafi veiðin verið farin að minnka, þá hefur ekki þótt svara kostnaði að sækja veiði þangað, svo að hún hefur fengið næði til að aukast aftur. Þannig hefur hún friðazt af sjálfu sér. Nú á seinni tímum hefur þetta viðhorf breytzt, er samgöngutækin urðu fullkomnari. Nú geta menn farið í sterkum, nýtízku bílum yfir landið þvert og endilangt, og eftir að menn hafa tekið flugvélarnar í sína þjónustu og geta setzt á þeim á veiðivötnin, vofir sú hætta yfir, að einstakir menn leggi undir sig veiðina í þessum vötnum og noti til þess stórfelld tæki og veiðarfæri, sem þeir hafa komið sér upp og ekkert til sparað. Með slíkum aðferðum geta þessi veiðivötn eyðzt að fiski, sem fjarlægðin hefur bjargað frá því á undanförnum öldum.

Þetta hefur sérstaklega komið fram við fiskivötnin í Rangárvallasýslu, og hafa þm. þess kjördæmis borið sig upp við landbn. fyrir hönd þeirra manna, sem umsjón hafa með þessum vötnum og rétt á þeim. Óska þeir eftir því, að einhver ákvæði verði sett, sem kæmu í veg fyrir, að þessi veiði yrði gereyðilögð á skömmum tíma á þennan hátt. Landbn. hefur snúið sér til veiðimálanefndar, og fyrir forgöngu hennar hefur þessi gr., 5. gr., verið orðuð á þennan hátt:

„1. Búendum, sem rétt eiga til upprekstrar á afrétt, er heimil veiði í vötnum á þeim afrétti til bústarfa á sama hátt og verið hefur, enda sé veiðiréttur í þeim vötnum ekki einkaeign.

2. Nú hafa ferðamenn áfangastað við veiðivatn á afrétti eða almenningi, þar sem veiðiréttur er ekki einkaeign, og mega þeir þá veiða fisk í því vatni til matar sér á ferðalaginu. Eigi er mönnum rétt að gera ferð sína að slíku vatni til að stunda veiði.“

Þarna er reynt að ákveða í lagaformi, að sá háttur skuli haldast, að þeir, sem næstir búa og möguleika hafa til að skreppa upp að vötnunum, megi veiða þar fisk til búdrýginda. Eins mega þeir, sem leið eiga um þessar slóðir, veiða fisk til matar síns, en það má ekki gera aðför að vötnunum með stórfelldum veiðivélum, sem hætta getur stafað af. Það má segja, að það geti verið dálítið erfitt að framfylgja þessu, en líkur eru til, að nærsveitamenn slíkra vatna, sem fylgjast með ferðum manna og eiga þarna nokkurra hagsmuna að gæta, muni verða nokkurs konar verndarar þessara lagafyrirmæla.

Það er nú orðinn alllangur tími síðan núgildandi lax- og silungsveiðilög voru sett. Það hafa komið fram á þeim ýmsir ágallar, sem reynt hefur verið að bæta úr öðru hvoru, og er þó langt frá, að allir þeir ágallar séu bættir, sem menn hafa komið auga á. Væri því full ástæða til að taka málið allt til endurskoðunar og byggja þá á þeirri reynslu, sem fengizt hefur. Það hafa komið fram tilmæli um, að fleiri brtt. yrðu fluttar við frv. nú á þessu þingi, en til þess að þessi löggjöf verði endurskoðuð þarf miklu lengri tíma en þá fáu daga, sem eftir eru af þinginu. Landbn. hefur því farið þá leið að flytja þessa einu brtt., því að hún hefur sannfært sig um nauðsyn þess, að varnir verði settar við, að nú á fáum árum verði veiði þessara vatna eyðilögð eða stórspillt.

Ég legg því til fyrir hönd landbn., að hv. Nd. hraði svo afgreiðslu þessa máls, að það geti orðið að lögum á þessu þingi, og ætla ég, að ekki þurfi að verða ágreiningur um það.