23.01.1951
Efri deild: 54. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í C-deild Alþingistíðinda. (3714)

154. mál, öryrkjahæli

Flm. (Karl Kristjánsson) :

Eins og sagt er í grg., þá er þetta mál fram komið eftir beiðni stjórnar Sambands íslenzkra sveitarfélaga. Það felur í sér ósk um heimild til handa þessari stjórn til, fyrir hönd sveitarfélaga landsins, að reisa öryrkjahæli og fá til þess nokkurn stuðning frá ríkinu.

Þegar Samband íslenzkra sveitarfélaga, sem stofnað var eftir 1940, hélt annað landsþing sitt, þá kom þetta mál fyrst til umræðu. Þar var rætt um þau sérstöku vandræði, sem sveitarstjórnir landsins og landsmenn yfirleitt ættu við að stríða vegna þess, að ekkert hæli er til í landinu, sem tekur við hinum svonefndu vandræðamönnum, sem eru venjulega öryrkjar. Öllum, sem þátt tóku í umræðunum, kom saman um, að þetta væri eitt örðugasta verkefni sveitarstjórna, auk þess sem þetta vandræðafólk ætti hvergi öruggan samastað og mörg heimili í landinu yrðu fyrir krossburði af völdum þessa ástands. Á þinginu var skipuð nefnd til að athuga ástandið og gera till. um úrbætur. Nefnd þessi sendi fyrirspurnir til allra sveitarfélaga landsins um, hve margir öryrkjar, sem hvergi væri hægt að fá hæli fyrir, væru á þeirra vegum, og enn fremur hvers konar öryrkjar það væru. Á landsþinginu tveim árum seinna lagði þessi nefnd fram athuganir sínar og till. Þessar athuganir voru ekki tæmandi vegna þess, að ýmsar sveitarstjórnir höfðu ekki svarað. Það er einu sinni illur ávani hér á landi, að illa er svarað fyrirspurnum. Má vera, að það sé af því, að skriffinnskan er orðin svo mikil, að menn líti á fyrirspurnir sem nokkurs konar ágang og góð málefni gjaldi þar hinna óþarfari. 76 sveitarfélög töldu, að þau hefðu fyrir vandræðafólki að sjá, 154 mönnum samtals, sem vantaði hæli fyrir. En auk þess er vitað, að í landinu eru margir slíkir öryrkjar, sem vandamenn hugsa um, vandamenn, sem í mörgum tilfellum hafa erfiðar kringumstæður og hafa þetta fólk á heimilum sínum, og þó að það vilji ekki segja þessa vandamenn sína til sveitar, þá væri annað mál, ef til væri stofnun, þar sem hægt væri að koma þessu fólki fyrir. N. var falið að starfa áfram, og sérstaklega var henni falið að leita samvinnu um þetta mál við Reykjavíkurbæ, sem hafði fyrir sitt leyti tekizt að finna nokkra úrlausn með því að reka sérstakt hæli fyrir slíka menn í Arnarholti á Kjalarnesi. Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga skrifaði bæjarstjórn Reykjavíkur og bað um samvinnu í þessu máli, og bæjarstj. kaus tvo fulltrúa, sem áttu að hafa viðræður við n., sem ég áðan nefndi, og stjórn sambandsins. Og það urðu till. þeirra manna, stjórnarinnar, n. og fulltrúanna frá Reykjavíkurbæ, að lýsa því yfir, að þeir teldu æskilegt til úrlausnar, að samvinna hæfist milli Reykjavíkurbæjar og annarra sveitarfélaga um það að stækka hælið í Arnarholti og gera það að landshæli fyrir slíkt fólk. Áætlun var gerð um það, hve mikið mundi þurfa að stækka hælið til þess að ráða bót á brýnustu aðkallandi þörfum, og sú áætlun hljóðaði upp á 2 millj. kr. Á þessu hæli hefur Reykjavíkurbær haft um 60 vistmenn til jafnaðar. Þetta sameiginlega álit var sent bæjarráði Reykjavíkur, en það lýsti því yfir, að á því stigi, sem málið er, gæti það ekki fallizt á það, að Arnarholtshælið væri stækkað og gert að landshæli. Þegar landsþing Sambands ísl. sveitarfélaga var haldið á Þingvöllum í sumar sem leið, þá skilaði n. af sér störfum og lagði fram ásamt stjórn sambandsins till. í frv.-formi. Þessar till. ásamt álitinu voru afgr. á landsþingi Sambands ísl. sveitarfélaga með svo hljóðandi yfirlýsingu, sem ég vil leyfa mér að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Sambandsþing ísl. sveitarfélaga, haldið á Þingvöllum 26.–27. ágúst 1950, ályktar, að brýna nauðsyn beri til, að stofnað verði hið fyrsta öryrkjahæli, sem sé eign allra sveitar- og bæjarfélaga í landinu. Sambandsþing lýsir sig samþykkt í meginatriðum frv. því, sem útbýtt hefur verið á þinginu. En þar sem vitað er, að samkomulag næst ekki um að reisa slíkt hæli að Arnarholti á Kjalarnesi, samþykkir þingið að fela stjórn og fulltrúaráði að hefja framkvæmdir um byggingu slíks hælis svo fljótt sem auðið er.“

Þannig var málið afgreitt á landsþingi Sambands ísl. sveitarfélaga, en í sambandinu eru nú um 130 sveitar- og bæjarfélög, allir kaupstaðir og öll stærstu kauptúnin, svo að mannfjöldinn í þessum sveitarfélögum, sem taka þátt í sambandinu, er rúmlega 110 þús., en alls eru utan sambandsins um 100 smærri sveitarfélög, og fólksfjöldinn í þeim er um 30 þús. Það er því mikill meiri hluti sveitarstjórna í landinu, sem stendur á bak við þá fulltrúa, sem mættu á landsþinginu, sem afgr. þessa ályktun, sem ég las áðan.

Nú sá stjórn þessa félagsskapar sér ekki fært að hefja framkvæmdir um byggingu á slíku hæli, nema til grundvallar væri hægt að leggja landslög þar um, og þess vegna er nú frv. þetta fram komið. Það er í frv. farið fram á, að Sambandi ísl. sveitarfélaga sé gefin heimild til þess að reka þetta hæli fyrir hönd sveitarfélaga landsins, en að hæstv. félmrh. ákveði, að fengnum till. frá stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, hvar hælið skuli reist og hvenær það skuli taka til starfa. Þannig verður það á valdi hæstv. ríkisstj., hvenær hafizt verður handa um byggingu hælisins og hvar það verður reist. Hælið á að vera sameign allra sveitarfélaga landsins, með þeirri undantekningu þó, að Reykjavíkurbær stendur þar utan við, þangað til samkomulag kynni að nást, en þá getur hann gengið inn í og gerzt meðrekandi hælisins, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., en það mundu mjög margir telja æskilegt. Stofnkostnaður hælisins á að greiðast af sveitarfélögunum eftir vissum reglum, sem hér eru fram teknar í 3. gr. frv., og er framlagið miðað við mannfjölda og skal fara hækkandi eftir því, hvað sveitarfélögin eru mannmörg. Svo er gert ráð fyrir því, að ríkissjóður leggi fram 1½ millj. kr. í eitt skipti fyrir öll. Hins vegar er gert ráð fyrir því, að ef stofnframlag hrekkur ekki og síðar þætti þörf á að stækka hælið, þá megi samkvæmt þessum l. heimta inn hjá sveitarfélögum nýtt framlag, sem þó má ekki vera hærra en helmingur af stofnframlagi, reiknað eftir sömu reglum og stofnframlagið. Það er gert ráð fyrir því, að stjórn hælisins sé skipuð þremur mönnum; tveir þeirra séu kosnir af Sambandi ísl. sveitarfélaga, annar sem fulltrúi fyrir bæi og kauptún, en hinn fyrir önnur sveitarfélög. Hins vegar skipar félmrh. þriðja manninn, sem er formaður stjórnarinnar. Þannig á að greina vald stjórnarinnar milli hreppa og kaupstaða og kauptúna. Kjörtímabil stjórnarinnar er 4 ár.

Nú má segja, að með þessari fjárhæð, sem hér hefur verið nefnd, sé rennt blint í sjóinn með því að áætlun hefur ekki enn þá verið gerð nema viðkomandi stækkun á hælinu í Arnarholti, og var sú áætlun gerð á árinu 1949. Hins vegar þótti ekki tiltækilegt að gera áætlun um hælið, enda svo mjög spursmál, sem enn eru óleyst, eins og t. d. hvar hælinu yrði valinn staður, hvort unnt sé að festa kaup á byggingum á hentugum stað, er nota mætti í þessu skyni, deildaskipting o. s. frv. En það út af fyrir sig á að ákveða með reglugerð. En þó að þetta sé þannig á vegi statt, að ekki liggi fyrir kostnaðaráætlun, þá þótti nú rétt að fara af stað með þetta frv., enda ekki rétt að leggja í tilkostnað, ef það lægi fyrir, sem ólíklegt má telja, að hæstv. Alþ. synjaði um stuðning við þetta nauðsynlega mál, sem hér er talað um.

Það hefur verið, eins og ég gat um áðan og sjálfsagt allir hv. þdm. þekkja, mikið erfiðleikamál fyrir sveitarstjórnir að ráðstafa þessum öryrkjum, og þó að hægt hafi verið að koma þeim fyrir, þá hefur vistin orðið óskaplega dýr. Hér í grg. er nefnt dæmi um, að einn slíkur einstaklingur hafi kostað sveitarfélag um 900 kr. á sólarhring, sem var greitt um skeið fyrir hann. Það má því telja, að þetta mál sé mjög margþætt og nauðsynlegt á margan hátt. Það er nauðsynlegt til þess að firra sveitarfélögin erfiðleikum þeim, sem í því felast, að varla er hægt að fá stað fyrir þessa öryrkja og oft kostar það mikla vinnu að útvega slíku fólki dvalarstað. Og svo verður dvalarstaðurinn dýr, þó að hann fáist, sem oft er ekki nema með því móti, að heimilin taki þessa menn að sér, og verða þau þá nokkurs konar krossberar vegna síns góðverks. Þessir erfiðleikar fara vaxandi vegna þess, að það gerist fámennara á heimilum víðs vegar úti um landið. Og eftir því sem fjárhagurinn batnar hjá fólki, þá verður það þannig, að þeim fækkar, sem vilja leggja það á sig að taka þessa öryrkja á heimilin. En áður var það oft, að menn lögðu þetta á sig til þess að afla heimilum sínum tekna. En nú er reynslan sú, að slíkar ástæður eru óvíða fyrir hendi. En það er mikið mannúðarmál vegna fólksins sjálfs að geta búið því öruggan líknarstað.

Loks vil ég geta þess, að margt af þessu vandræðafólki gæti, ef vel væri að því búið, leyst ýmis verkefni af hendi, ef skilyrði væru til þess að láta menn nota hæfileika sína, en þau skilyrði eru oft ekki fyrir hendi þar, sem tekizt hefur að koma þeim fyrir á einstökum heimilum. Þetta hæli þyrfti að vera byggt upp með tilliti til þess að geta látið fólkið, sem þar dvelur, hafa viðfangsefni.

Ég sé ekki ástæðu til þess að lengja þetta mál á fyrsta stigi umr. Ég vænti þess, að frv. verði greið ganga til 2. umr., og leyfi mér að leggja til, að því verði vísað til heilbr.- og félmn. Ég óska þess, að sú n., sem tekur það til meðferðar, líti á málið með velvilja og taki það til skjótrar afgreiðslu. Það er liðið á þingtímann, og vel má vera, að n. þyki ástæða til þess að leita umsagnar ýmissa aðila um þetta frv. Þess vegna geri ég mér litlar vonir um, að frv. verði afgr. á þessu þingi. Hins vegar vona ég, að frv. fái þær undirtektir hjá hv. þdm. hér og n., sem tekur það til meðferðar, að því verði vísað til þeirra aðila, sem rétt þykir, og fái þannig undirbúning, svo að hægt verði að leggja það fyrir næsta Alþ.