09.02.1951
Sameinað þing: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í D-deild Alþingistíðinda. (3927)

92. mál, skömmtun á byggingarvörum

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Mér sýnist á nál. hv. meiri hl. allshn. og heyrðist það raunar einnig á ræðu frsm. n., að um sé að ræða skoðanamun milli stuðningsmanna ríkisstj. í allshn. annars vegar og fjárhagsráðs hins vegar um mál, sem ekki verður talið þýðingarlítið.

Þessi till. fjallar um afnám skömmtunar á byggingarvörum. Stuðningsmenn ríkisstj. í allshn. vilja samþykkja þessa till. og gefa innflutning byggingarefnis frjálsan, en ein voldugasta stofnun ríkisins, fjárhagsráð, er till. andvíg. Ekki verður annað sagt en að það sé næsta skoplegt, að stuðningsmenn ríkisstj. skuli vilja eitt, en helzta stofnun ríkisstj. annað í mikilvægu máli. Enn þá skoplegra er þó, að enginn skuli fá að vita, hvað ríkisstj. vill í þessum efnum, ráðherrastólarnir standa auðir, og enginn veit skoðun ráðherranna á málinu. Þeir láta afskiptalaust, að stuðningsmenn ríkisstj. á Alþingi berjist við fjárhagsráð. Hvort hér er um skrípaleik einn að ræða og ætlunin alls ekki sú, að till. sé tekin alvarlega, skal ég láta ósagt, en það verð ég að segja, að ríkisstj. sýnir flm. till. mjög takmarkaða virðingu með því að láta hana algerlega afskiptalausa eins og málum er háttað.

Um efni till. vil ég segja þetta: Allir hljóta að vita, hvers vegna byggingarvörur hafa verið skammtaðar undanfarið. Það er vegna þess, að gjaldeyri hefur skort til þess að flytja inn nægilega mikið byggingarefni til að fullnægja eftirspurninni innanlands. Ef hægt á að verða að afnema skömmtunina á þessari vörutegund, þá verður að vera hægt að auka innflutninginn svo mikið, að hægt sé að fullnægja eftirspurninni. Þess vegna hefði það verið rétt og sjálfsagt af allshn. að kynna sér hjá fjárhagsráði, hvort auka eigi innflutning á byggingarvörum, svo að svari til eftirspurnar. Verði innflutningurinn hins vegar ekki meiri og eftirspurnin hin sama, þá hlýtur einhver skömmtun að vera nauðsynleg.

Hér er um svo mikilvægt atriði að ræða, að ekki er hægt að ganga fram hjá því. Þess vegna hefði mátt búast við einhverju í nál. allshn„ sem gæfi til kynna, að það stæði til að auka innflutning um leið og skömmtuninni yrði af létt, svo að ekki þyrfti að óttast óeðlilega verzlun á þessu sviði í framtíðinni. Nú hef ég ástæðu til að ætla, að í drögum til innflutningsáætlunar fyrir 1951 sé ekki gert ráð fyrir að auka innflutning byggingarvara. Það er því augljóst, að verulegur skortur verður á þessum vörum áfram. Það verður eftir sem áður ekki unnt að fullnægja eftirspurninni, og þess vegna nauðsynlegt að halda einhvers konar skömmtun áfram. Með þessari till. er því verið að flytja skömmtunina úr höndum fjárhagsráðs og í hendur byggingarvöruinnflytjenda. En skoðanir hljóta að vera skiptar um það, hvort slíkt sé heppilegt.

Hv. frsm. lét þess getið, að ein af fyrstu vöruteg., sem yrðu gefnar frjálsar, mundu verða byggingarvörur. Það kemur mér á óvart, að jafnaðsópsmiklum stuðningsmanni ríkisstj. og hv. þm. Vestm. er skuli vera það ókunnugra en öðrum hv. þm., að ríkisstj. hyggst ekki gefa þessar vörur frjálsar eða losa þær undan höftunum. Þess vegna er það ekki röksemd til stuðnings þessari till., að búast megi við því, að innflutningur verði gefinn frjáls á þessum vörum.

Ég vil taka það skýrt fram, að því fer víðs fjarri, að skilja beri orð mín svo, að ég sé á móti því að slaka til á þeim lamandi höftum, sem verið hafa á byggingu íbúðarhúsa undanfarin ár. En ég tel höfuðgallann á skipan þeirra mála ekki fólginn í því, að byggingarvörur eru skammtaðar og menn þurfi að sækja um leyfi til byggingarframkvæmda, heldur í hinu, að fjárhagsráð hefur verið of svifaseint í afgreiðslu fjárfestingarleyfa. Ég tel, að fjárhagsráði sé í lófa lagið að komast hjá miklum hluta þeirrar óánægju með störf þess, sem nú ríkir, með því að taka betur í smávægileg leyfi, sem litlu máli skipta, og afgreiða þau með meiri hraða. Reynslan hefur sýnt, að það er mjög erfitt að veita undanþágur varðandi tilteknar tegundir húsa, því að þá lægju ekki fyrir nægilegar skýrslur um, hve mikið efni hefði farið í þessi hús. Hefur því verið talið nauðsynlegt að láta kerfið ná til allra húsabygginga. Þetta hefur að vísu verið óvinsælt og dýrt fyrirkomulag, en fjárhagsráð hefði ekki þurft að gera þetta allt jafnóvinsælt og það er, ef starfshættir hefðu verið einfaldari og skynsamlegri. Meinið er ekki það, að stefnan sé röng, heldur er framkvæmdinni ábótavant. En óánægjan hefur orðið til þess, að þeir, sem eru á móti þessum ráðstöfunum, nota nú tækifærið til þess að fá afnumda skömmtunina að fullu og öllu, þótt það verði til þess að skapa misrétti, brask og ýta undir alls konar bellibrögð á viðskiptasviðinu, en það óttast ég einmitt að verði, nema tilætlunin sé að auka innflutninginn að því marki, að hægt verði að fullnægja eftirspurninni. Mér finnst því algerlega óverjandi að samþykkja þessa till. til þál. áður en ríkisstj. hefur gefið út tilkynningu um, að ætlunin sé að auka innflutninginn. Eigi ekki að auka innflutninginn, næst ekki það takmark þessarar till. að stuðla að byggingu hentugra og ódýrra íbúða, heldur verður afleiðingin sú, að almenningi verði torveldað að koma upp yfir sig íbúðum, en þeir, sem bezta aðstöðu hafa gagnvart byggingarvöruinnflytjendunum, verða látnir ganga fyrir um byggingarefni. En ef stefna ríkisstj. og fjárhagsráðs beinist í þá átt, að innflutningurinn verði aukinn svo, að hægt verði að fullnægja eftirspurninni, þá er ég því fullkomlega samþykkur, að öll skömmtun á þessum vörum verði afnumin og byggingarefni til íbúða af hæfilegri stærð gefið frjálst.

Ég tel, að í nál. meiri hl. allshn. sé vitnað til umsagnar fjárhagsráðs á mjög hæpinn hátt, þar sem segir, að andmæli þess (þ. e. fjárhagsráðs) séu eingöngu byggð á því, að með samþykkt þessarar till. yrði aðstaða ráðsins til að gera grein fyrir meðferð svokallaðs mótvirðissjóðs torvelduð og ekki nægilega tryggilega séð fyrir dreifingu á byggingarvörubirgðum þeim, sem fyrir hendi eru. En í bréfi sínu segir fjárhagsráð, með leyfi hæstv. forseta: „Ef nú á að gera hvort tveggja, að gefa frjálsar þær óákveðnu framkvæmdir, sem um ræðir í till. (sbr. „hæfileg íbúðarhús“), og jafnframt sleppa allri skömmtun byggingarefna, er tökunum raunverulega sleppt af þessum málum. Fjárhagsráð hlyti þá að renna blint í sjóinn um það, hvað því væri óhætt að leyfa af öðrum framkvæmdum, og gæti ekki gert neina fullnægjandi grein fyrir því, hvernig þessi mál stæðu.“

Hér er till. andmælt eindregið og á öðrum grundvelli en lýtur að ráðstöfuninni á mótvirðissjóði. Ef hluti af framkvæmdunum yrði gefinn frjáls, væri fjárhagsráði gert erfitt um að starfa skynsamlega að leyfisveitingum. — Ég vil ítreka tilmæli mín til ríkisstj. og allshn. um að gera skýra grein fyrir stefnu ríkisstj. í þessu máli. Ef það kemur í ljós, að ætlunin sé ekki að auka innflutninginn, þá er það hrein og bein glæframennska að samþ. þessa till. Það var látið í veðri vaka, að almenningur eigi að njóta góðs af þessari till. Hitt er þó sönnu nær, að samþykkt hennar mundi bitna á almenningi.