14.02.1951
Sameinað þing: 42. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í D-deild Alþingistíðinda. (3931)

92. mál, skömmtun á byggingarvörum

Einar Olgeirsson:

Það hafa áður farið fram ýtarlegar umr. um þetta mál, án þess að hæstv. ríkisstj. hafi orðið við því að svara að nokkru þeim spurningum, sem ég hef beint til hennar, í sambandi við þær upplýsingar, sem ég gaf um afstöðu fjárhagsráðs til þessa máls. Það er í raun og veru slæmt, að það skuli ekki koma hér fram neitt um afstöðu hæstv. ríkisstj. í þessu máli. Hér hafa talað margir þm. í þessu mikilvæga máli, en hæstv. ríkisstj. hefur ekki fengizt til þess að láta að neinu leyti uppi sína skoðun um þessi mál, sem hér hafa verið rædd. Það hefur borið hér á góma, ekki aðeins þessa þáltill., heldur líka frv., sem liggur fyrir í Ed. og hefur verið stöðvað þar. Það hefur verið spurt að því af hálfu hv. þm., hvernig á því standi, að þetta frv., sem bersýnilegur þingvilji er á bak við, skuli hafa verið stöðvað. Það er hart, að hæstv. ríkisstj. skuli ekki fást til þess að gefa neina skýringu í þessu máli, þegar það liggur fyrir, að þingvilji er á bak við það. Þetta frv. er samþ. í Nd. með öllum greiddum atkv. á móti einu, afgr. í fjhn. Ed. samhljóða, þó þannig, að fulltrúi Framsfl. í n. er með brtt. við frv., en fulltrúar minnihl. flokkanna eru því samþykkir, að það nái fram að ganga óbreytt, og í sambandi við þessa þáltill. hafa komið fram upplýsingar um, að þetta mál hafi verið stöðvað af aðilum innan ríkisstj., án þess að nokkur skýring sé á því gefin, hvernig á því stendur. Ég álít þetta ástand ákaflega óviðkunnanlegt, og það hefur komið fram hér, að þm. úr stjórnarflokkunum hafa látið í ljós óánægju sína yfir þessari afstöðu hæstv. ríkisstj., án þess að fá nokkur svör þar við.

Ég ætla að leyfa mér að minnast ofurlítið á það, sem þeir þm., sem talað hafa hér í þessu máli á eftir mér, hafa komið nokkuð inn á. Hv. þm. Barð. kom inn á það sem svar við fyrirspurn frá öðrum þm., hvernig á því stæði, að ríkisstj. og fjárhagsráð virtust vera á ólíkri skoðun í þessum málum, og vitnaði í því sambandi í það, að fyrir nokkrum árum, þegar ríkisstj. var öðruvísi skipuð, þá hefði einn þm., þáv. samgmrh., hv. þm. Hafnf., upplýst hér á Alþ., að ráðh. réðu ekkert við þessa stofnun, fjárhagsráð. Nú fyndist mér ekki nema eðlilegt, að við fengjum að vita, hvort það er enn svo, að ríkisstj. ráði ekki við fjárhagsráð, því að þótt ekkert komi úr því, þá er viðkunnanlegra fyrir okkur þm. að hafa einhverja hugmynd um það, hver er hinn raunverulegi valdaaðili í landinu. Ég upplýsti samkv. bréfi frá fjárhagsráði, að fjárhagsráð lyti ekki Alþ. eða forráðamönnum mótvirðissjóðs, eins og er samkv. l. um fjárhagsráð, og ekki heldur ríkisstj., heldur ákveðnum aðila vestur í Bandaríkjunum, sem veitir leyfi til þess, að nota megi mótvirðissjóðinn. Svo að fjárhagsráð lýtur þessari amerísku n. sem sínum yfirboðara. Þá fer það, sem hv. þm. Barð. upplýsti, að verða skiljanlegt, að meira að segja ríkisstj. ráði ekki heldur við fjárhagsráð. En þetta er þá atriði, sem Alþ. á kröfu á að fá að vita, hvernig sé. Hv. þm. Barð. sagði, að þjóðin mundi ekki beygja sig undir úrskurð fjárhagsráðs, og það koma hvað eftir annað fram slíkar raddir í stjórnarflokkunum, að þeir vilji ekki beygja sig undir vald fjárhagsráðs, og það er ekkert óeðlilegt, að slíkt komi fram, ekki sízt þegar upplýst er, að fjárhagsráð hefur útlendan yfirboðara, sem líkindi eru til, að ákveði, hvað mikið Íslendingar megi leggja í byggingar, og annað slíkt. Ég held þess vegna, að þær raddir, sem hér hafa komið fram á eftir þeirri ræðu, sem ég hélt á grundvelli bréfs fjárhagsráðs, gefi tilefni til þess, að hæstv. ríkisstj. láti til sín heyra um sína afstöðu í þessu máli.

Þá kom hv. 3. landsk. nokkuð inn á, að því er mér virtist, að verja nokkuð af þeim ráðstöfunum, sem fjárhagsráði hafa verið bornar á brýn og lagt illa út fyrir því, að því er honum virtist. Mér er ekki ljós afstaða hv. þm. til þessarar þáltill., sem hér liggur fyrir, en mér virtist þó, að hann bæri fram nokkrar fyrirspurnir eins og til þess að ætla að móta sína afstöðu, ef hann fengi sínar upplýsingar um þær. Hann spurði, hvort fjárhagsráð mundi hafa gengið frá fjárhagsáætluninni fyrir 1951. Nú mun fjárhagsáætlun fjárhagsráðs fyrir 1951 alls ekki hafa verið lögð fyrir þá stofnun, sem hún fyrst og fremst ætti að koma til, sem er fjvn., þannig að Alþ. hefur ekki fengið tækifæri til að fjalla um þessa áætlun. Hins vegar virtist hv. 3. landsk. hafa nokkra hugmynd um, hvernig þessi fjárhagsáætlun mundi vera. Hann upplýsti, að innflutningur mundi ekki verða aukinn samkv. áætlun fjárhagsráðs 1951. Ég verð að segja, að það gengur langt valdið hjá embættismönnum í okkar þjóðfélagi, ef nokkrir embættismenn — fjárhagsráð — eiga að ákvarða um það, án þess að Alþ. hafi nokkuð um það að segja, hvernig ráðstafa skuli innflutningnum til landsins, og takmarka alla byggingarstarfsemi í landinu á þann veg, að meiri hl. af öllum byggingarverkamönnum sé atvinnulaus, meginið af öllum vélum, sem þjóðin á til hagnýtingar í byggingariðnaðinum, sé látið ónotað og möguleikarnir til að afla erlends gjaldeyris séu látnir ónotaðir með því að landsmönnum er bannað að afla gjaldeyris til þess að flytja inn byggingarefni fyrir. Ég benti á það í fyrri ræðu minni, að fjárhagsráði ber samkv. 2. gr. l. um fjárhagsráð að miða störf sín við það, að öll afkastageta þjóðarinnar sé hagnýtt til fulls, að hver verkamaður, sem er vinnufær, hafi næga og örugga atvinnu, enn fremur, að húsnæðisskortinum og óheilnæmum íbúðum sé útrýmt sem fyrst. Svo framarlega sem fjárhagsráð miðar störf sín við annað en þetta, ef það miðar störf sín við það að skapa atvinnuleysi til þess að gera hægt fyrir atvinnurekendur að halda niðri kaupinu, þá er það lögbrot, svo framarlega sem fjárhagsráð miðar störf sín við það, að forráðamenn erlendis geti haft áhrif á notkun mótvirðissjóðsins og sett fjárhagsráði skilyrði um að minnka fjárfestinguna, — svo framarlega sem fjárhagsráð miðar sinn innflutning á byggingarefni við slík fyrirmæli erlendis frá, þá er þetta lögbrot. Hv. 3. landsk. segir, að það sé ekki talið fært af gjaldeyrisástæðum að flytja inn meira byggingarefni. Ég vil í sambandi við þetta gera tvær aths., Í fyrsta lagi virðast mér innflutningsskýrslur síðasta árs, í samanburði við árið þar áður, sýna, að byggingarefnisinnflutningi sé að nauðsynjalausu haldið niðri, hann er svipaður að krónutölu meðan annar innflutningur er aukinn, þannig að mér sýnist, að það sé beinlínis verið að gera ráðstafanir til þess að hindra auknar byggingar á Íslandi. — Í öðru lagi vildi ég út frá þessari skoðun og út frá því, sem kom fram í gær hjá hæstv. fjmrh., þegar hann var að verja gjaldeyrisleysið, leyfa mér að gera nokkrar aths. Þá var bent á, að Ísland hefði nægilegt vinnuafl og gæti útvegað sér nægilegt byggingarefni og hefði nægar vélar til þess að vinna að auknum byggingum og það væri þörf fyrir byggingar. Hæstv. fjmrh. lýsti yfir, að það þætti ekki fært vegna jafnvægisins í efnahagslífinu að ráðast í nýjar framkvæmdir hér heima, svo sem t. d. til landbúnaðar, nema með því einu að veita aukin innanlandslán, með því t. d., að Landsbankinn lánaði Búnaðarbankanum 15 milljónir. Hæstv. fjmrh. lýsti yfir í því sambandi, að ef tekið væri 15 milljóna erlent lán og sá erlendi gjaldeyrir seldur Landsbankanum og Landsbankinn út á þann erlenda gjaldeyri lánaði Búnaðarbankanum 15 milljónir, þá væri allt í lagi. Ég vil biðja menn að taka eftir þessari yfirlýsingu hæstv. fjmrh. Hann virðist telja allt í lagi, svo framarlega sem Ísland tæki erlent lán, að auka seðlaveltuna innan lands og setja í krafti þess í gang það vinnuafl, sem er ónotað, og þær vélar, sem eru látnar ónotaðar. Ég veit ekki, hvort hæstv. ríkisstj. hefur hugsað út í þetta. Auðvitað þýðir þetta ekki annað en það að auka að sama skapi eyðslu erlends gjaldeyris innan lands, svo framarlega sem erlendi gjaldeyririnn er ekki tekinn til þess að kaupa ný framleiðslutæki. Svo framarlega sem hæstv. ríkisstj. ætlar sér að halda fast við það, að það sé heilbrigð pólitík að taka 15 milljóna erlent lán til þess að auka seðlaveltu Landsbankans, þá er það líka heilbrigt að taka svo og svo mikið erlent lán til þess að byggja húsnæði yfir Íslendinga, þá er það heilbrigt að auka seðlaveltuna, svo framarlega sem það er gert á þann hátt að taka erlent lán og selja Landsbankanum gjaldeyrinn og láta hann selja gjaldeyrinn. Það er jafnheilbrigt eins og að taka það handa landbúnaðinum. Ég vil vekja eftirtekt hv. þm. á, hvað þessir hlutir þýða, og ég skal um leið segja, hvað þeir þýða frá mínu sjónarmiði. Ég álít, að það sé ekkert annað en skilningsleysi hjá þeim mönnum, sem fjármálunum ráða, að þeir skuli standa í veginum fyrir því, að við fáum að nota okkar raunverulega innlenda fjármagn, það þýðir okkar vinnuafl og okkar tæki. Ef við höfum nægilegt vinnuafl, sem ekki er notað, og nægileg tæki og getum keypt inn fyrir það, sem við framleiðum, fyrir okkar útflutning, þá er heilbrigt og sjálfsagt, að við fáum frelsi til þess að byggja meira, og Íslendingar þurfa ekki að taka erlend lán til þess. Slíkt er heilbrigt, jafnvel þó að það þýði meira fé, sem veitt er út í veltuna hjá þjóðfélaginu og lánsfjárþenslu, eins og hæstv. fjmrh. kallaði það. Það er fyllilega heilbrigt, og ég er hræddur um, að þarna sé um eitt af tvennu að ræða: Annaðhvort er hæstv. ríkisstj. búin að skapa sér vitlausar hugmyndir um takmörkin fyrir fjárfestingu á Íslandi eða þá að henni er fyrirskipað erlendis frá, hvaða takmörk eigi að vera fyrir fjárfestingu. Hver eru þau eðlilegu takmörk fyrir fjárfestingu hér innan lands? Þau takmörk eru fyrst og fremst eitt: Það er vinnuaflið. Þegar okkar vinnuafl er fullkomlega hagnýtt og hagnýtt á þann skynsamlegasta hátt, sem þjóðfélagið þolir, þá er komið að takmörkunum fyrir því, hvað við treystum okkur til að setja mikið fast í fjárfestingu, jafnhliða því, sem við höldum uppi þeim lífsstandard, sem þjóðfélagið á þeim tíma fæst til að sætta sig við. Þetta hefur verið sú meginregla, sem farið hefur verið eftir um þessa takmörkun, t. d. í okkar nágrannaþjóðfélögum, sem barizt hafa með verulegum árangri á móti atvinnuleysinu. Nú hefur við þær umr., sem farið hafa fram í Nd. um lántökuna, hvað eftir annað verið skorað á ríkisstj. að segja til um, hvar þessi takmörk eru fyrir fjárfestingunni, sem hún hugsar sér, hvað mörg hundruð milljóna megi setja á ári í fjárfestingu, en hún hefur aldrei fengizt til að upplýsa það. Það er talað um það eins og eitthvert dularfullt fyrirbrigði, hver fjárfestingin megi vera, það er sagt, að ef fjárfestingin er stórkostleg, þá þýði það lánsfjárþenslu, og annað þess háttar. Ég held, að allar þessar fullyrðingar, sem hæstv. ríkisstj. sjálf aldrei þorir að gefa upplýsingar um, séu byggðar á fölskum forsendum, það er hugsað út frá okkar aðstöðu fyrir stríð um okkar seðlaveltu og um okkar lánsfjárveitingar frá hálfu seðlabankans, en það er ekki hugsað út frá þeim möguleikum, sem þjóðfélagið hefur til þess að starfa nú. Þjóðfélag, sem hefur stórfellda tækni eins og okkar þjóðfélag, þarf meiri veltu en þau þjóðfélög, sem litla tækni hafa; við þurfum margfalt meiri veltu en við þurftum fyrir stríð. Og ef vanþekkingin eða hleypidómarnir hjá hæstv. ríkisstj. á þessu sviði eiga að standa í veginum fyrir því, að Íslendingar fái að nota sitt vinnuafl og afla sér byggingarefnis til að byggja, þá er verið að fremja glæp gagnvart öllum þeim, sem nú standa uppi húsnæðislausir, og það er hart af því Alþ., sem hefur afnumið húsaleigul., að ætla að bæta því ofan á að banna mönnum að byggja. Þeir, sem hæst tala um lýðræði og mannréttindi, ættu að útskýra, hvað þeir meina með því að ætla að reka fjölskyldur út á götuna og banna þeim algerlega að hafa nokkra möguleika til þess að komast inn, en það er gert með því að afnema þau l., sem nú banna mönnum að reka menn út úr húsnæði, en halda í gildi l., sem banna mönnum að byggja. Hafa þeir flokkar, sem standa að slíku, gert sér ljóst, hvað þeir eru að gera? Það er verið að níðast á þeim smæstu í þjóðfélaginu, svipta þá þessum litlu möguleikum, sem þeir hafa til að byggja yfir sig eða fjölskyldu sína. Það er ekki aðeins, að það sé verið að hindra hið svo kallaða einstaklingsframtak eða þá, sem gegnum nýjar byggingar eru að skapa sér atvinnu, heldur beinlínis verið að hindra, að það sé til húsnæði fyrir þá, sem ætla að reisa heimili í þjóðfélaginu, fyrir þá, sem á að henda út vegna þess að það er búið að afnema húsaleigul. Ég skil ekki, hvernig þeir menn hugsa, sem ætla að halda þeim ákvæðum í l. að banna mönnum að byggja, en segja við alla þá, sem eiga hús: Við skulum lofa ykkur að henda fólkinu út eins og þið viljið. — Það hafa nokkrir embættismenn hér í Reykjavík verið valdir til þess að banna mönnum að reyna þannig að bjarga sér sjálfir, og það er að ganga svo langt, að það er verið að taka sjálfræðið af einstaklingnum og banna honum allar bjargir. Það á sízt við af þeim flokkum, sem sífellt eru að prédika, að fólkið eigi að bjarga sér sjálft, en ekki að gera allar kröfur til ríkisins. Hvað var viðkvæðið, þegar verkalýðurinn var að berjast fyrir atvinnu á atvinnuleysisárunum fyrir stríð? Jú, verkalýðurinn heimtar og heimtar allt af öðrum, en ekkert af sjálfum sér. Þetta kvað stöðugt við. En hvað heimtar hann svo núna? Einfaldlega það, að hann fái aðeins lagalega heimild til þess að koma sér upp þaki yfir höfuðið af eigin rammleik, ef hann skyldi einhvers staðar geta náð í peninga og byggingarefni. Einhverjir kunna nú að segja, að þetta sé ekki til neins, verkalýðurinn fái ekkert lánsfé, og hann sé jafnilla staddur, hvort sem hann fái þetta leyfi eða ekki. — Ég verð þá að segja þeim, sem þannig kunna að hugsa, að þar sem neyðin rekur á eftir, þar er margra bragða leitað, og það er jafnvel svo, að þó menn nytu ekki aðstoðar bankanna, þá mundu ýmsir ráðast í að koma þaki yfir höfuð sér, ef þeim væri það ekki bannað. Þannig segja t. d. margir byggingarverkamenn, sem nú ganga atvinnulausir í hópum: Við skulum hjálpast að að byggja hver fyrir annan, þó að við fáum vinnu okkar ekki borgaða í öðru en slíkri samhjálp, ef eitthvað verður rýmkað um þau höft, sem nú eru á byggingum. — Og sjómaðurinn segir: Ef ég fæ í friði fyrir ríkisstj. að vinna við minn bát og kaupa mér efni í minn húskofa fyrir þann gjaldeyri, sem ég afla, þá reisi ég mér líka hús og þarf ekki aðra hjálp til en frelsi til að ráðstafa þeim verðmætum, sem ég skapa. — Það er nú neyðarástand um land allt, sem ríkisstjórnin hefur með aðgerðum sínum og aðgerðaleysi leitt yfir þjóðina og ber ábyrgð á. Og með ráðstöfunum sínum er hún að viðhalda þessu ástandi og bannar mönnum hreint og beint alla sjálfsbjargarviðleitni. En hvers vegna í ósköpunum? Ef þetta fólk sér einhver ráð, þar sem ríkisstj. stendur ráðalaus, hvers vegna þá ekki að láta það um að bjarga sér eins og bezt gengur? Nei, einokunin á útflutningi og innflutningi stendur alls staðar í vegi fyrir slíkri sjálfsbjörg; hún gerir það að verkum, að fólk í sveitum og þorpum úti um allt land hrópar nú í sinni neyð til Alþingis um hjálp; það hefur að vísu í höndum atvinnutækin og viljann til að bjarga sér, en það fær bara ekki að nota þau.

Með þessum orðum er ekki sagt, að svo kölluð frjáls verzlun sé neitt „ídealt“ ástand; en hún hefur það fram yfir þá einokun, sem nú þjakar landslýð, að hann hefur þó frelsi til að reyna að bjarga sér eftir því, sem föng eru til. Bæjunum, sem á árunum 1920–40 brutust þannig í að afla sér tækja og höfðu möguleika til að bjarga sér, í fátækt sinni, enda þótt atvinnurekendurnir hlypust stundum á brott með atvinnutækin, þeim er nú neitað að bjarga sér. Og þessum fjötrum má ekki hagga. Þannig hefur frv. um að slaka á höftum þessum verið stöðvað í efri deild, og meirihlutafylgi þingsins við þá till., sem hér liggur fyrir, á að hindra í að samþykkja það með valdboði ríkisstj. og tilvísunum fjárhagsráðs í erlenda menn, sem segja, að ekki megi auka fjárfestinguna á Íslandi. Ríkisstj. ber fram í þessu máli augljósar og vísvitandi blekkingar eins og þá, að fjárfestingin í sambandi við Sogs- og Laxárvirkjunina sé svo óskapleg, að þar sé ekki á bætandi. Staðreynd er hins vegar, að við þurfum t. d. miklu minna vinnuafl til Sogsvirkjunarinnar nú heldur en 1936 og höfum afkastamikil tæki og reynslu, sem okkur skorti þá, auk þess sem við fáum féð til framkvæmdanna erlendis frá. Allt þetta tal er vísvitandi ósannindi og þjónar ekki öðrum tilgangi en að viðhalda atvinnuleysi og neyð hjá þjóðinni. Ég skil, að hæstv. ríkisstj., sem er að drepa niður allt atvinnulíf í landinu með sinni einokunarkló, kærir sig ekkert um að ræða þessi mál, og allra sízt þannig, að þjóðin megi fylgjast með þeim umræðum. En ég vil þó a. m. k., að hér á Alþ. komi fram einhver andmæli gegn þessu háttalagi. Og víst væri það ómaksins vert, ef unnt er, að krefja hæstv. ríkisstjórn sagna um það, hvernig hún kemur því heim, að á sama tíma og hún bannar landslýð að byggja yfir sig, þá kemur hún með till. um að taka erlend lán til að auka þá fjárfestingu, sem í öðru orðinu verður að forðast. — Altso: ég er steinhættur að skilja þennan hugsunarhátt. Er það meiningin, að auka megi fjárfestinguna, bara ef það er gert með erlendum lánum og peningarnir ekki teknir úr Landsbankanum, heldur úr erlendum bönkum? Er ekki ástæða til, að hæstv. ríkisstj. reyni að skýra þetta fyrir Alþingi? Ef það er rétt, sem hæstv. fjmrh. hélt fram í Nd. í gær, ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu, að við fengjum ótakmörkuð erlend lán til bygginga í landinu. En ef þetta er meining hæstv. ríkisstj., þá verður að fara að ræða þessi mál á allt öðrum grundvelli en hingað til. Sé sú stefna „accepteruð“, og ef ekkert er í vegi fyrir því að taka erlend lán, engin hætta fyrir sjálfstæði landsins og allt í lagi með slíka fjárfestingu — ja, þá er málið komið á allt annan grundvöll, og það ætti þá ekkert að vera því til fyrirstöðu t. d., að byggingarsamvinnufélögin tækju slík lán erlendis o. s. frv. Mig grunar annars, að ekki sé til nema ein skýring á þessu —, að Landsbankanum hafi verið fyrirskipað að stöðva sínar lánveitingar við ákveðna krónutölu, ákveðið hámark, — og ég vil skjóta því inn í: of lágt hámark, þar sem þeir, sem skipunina gefa, þekkja ekki framleiðslumöguleika íslenzku þjóðarinnar; og séu það hinir sömu, sem framkvæmdu útreikninga gengislækkunarlaganna, þá er auðvitað að fenginni reynslu af þeim lögum ekki að sökum að spyrja. Hins vegar, ef Íslendingar geta fengið erlend lán, þá er þeim leyfilegt að auka fjárfestinguna innan lands. — Og hvað þýðir þetta? Það þýðir, að það er búið að taka Landsbankann undan valdi Íslendinga, og hann heyrir nú undir erlenda yfirboðara; við verðum að leita til annarra banka og taka t. d. lán í Englandi í gegnum Landsbankann, byggingarsamvinnufélögin verða að leita láns í Danmörku o. s. frv.

Með yfirlýsingum ríkisstj. hér í þessum umr., þá á Alþingi kröfu á að fá að vita, hvað raunverulega vakir fyrir henni. Eftir frammistöðu hennar í sambandi við setningu gengislækkunarlaganna, þá verðskuldar hún ekki það traust, að henni sé fylgt í blindni, einkum þegar hún segir eitt í dag og annað á morgun um mikilvæg mál.

Ég ætla ekki að fara sérstaklega út í það, sem kom fram hjá hv. þm. Ísaf. og hv. 3. landsk., að fjárhagsráð hefði veitt of mikið af leyfum, né það, sem hv. þm. Ísaf. kom með, að það þyrfti öflug ríkisafskipti til að tryggja innflutninginn. Ég vil þó í því sambandi segja, að hvað ríkisafskiptin snertir, þá fer árangur þeirra eftir því, hvernig þeim er beitt. Það er enginn efi á, að á þeim tíma, er allir höfðu næga atvinnu og t. d. var eins mikið byggt og frekast var kostur á, þá var nauðsynlegt, að ríkið hefði eftirlit með fjárfestingunni, skipulagningu í atvinnulífinu. En ef reynt er á atvinnuleysistímum að viðhalda húsnæðisskortinum t. d., þá eru slík afskipti skaðleg fyrir þjóðfélagið. Og hvað snertir afskipti fjárhagsráðs, sem sumir vilja kalla „áætlunarbúskap“, þá vil ég taka það fram, að að svo miklu leyti sem menn bjuggust við, að það gegndi því hlutverki, þá skil ég ekki í öðru en allir þeir menn hafi orðið fyrir hinum sárustu vonbrigðum og vilji fullkomlega afbiðja sér, að starfsemi þess sé sett í nokkurt samband við hugmyndir sósíalismans um áætlunarbúskap. Sá „áætlunarbúskapur“ er ekki annað en einokun tveggja höfuðklíkna í þjóðfélaginu, sem rífast um gjaldeyrinn eða verzlunarleyfin og fjárhagsvaldið. Og þegar svo er komið, að afskipti fjárhagsráðs miða að því að auka vanda og húsnæðisskort allrar alþýðu, þá hlýtur hún að berjast fyrir því, að þessari einokun sé útrýmt, án þess hún á hinn bóginn geri sér nokkrar tyllivonir um, að „frjáls verzlun“ færi henni annað en möguleikann til að geta barizt. Það fær hún ekki nú. Henni eru allar bjargir bannaðar. En hún hefur áður orðið að berjast á grundvelli frjálsrar samkeppni, og hún getur knúið fram ýmislegt á þeim grundvelli, þar sem hún aftur á móti er algerlega bundin og heft af þeirri einokun, sem nú á sér stað og er að leiða yfir hana sárustu neyð. Það hefur hingað til ekki verið til neins fyrir þá, sem sent hafa bænarskrár til Alþingis alls staðar utan af landi um frelsi til að bjarga sér; það hefur verið daufheyrzt við þeim og allt vald verið sameinað hjá þessari einokunarskrifstofu. En það fólk, sem þannig eru allar bjargir bannaðar, það mun ekki þola slíkt til lengdar.

Þá vil ég í sambandi við afgreiðslu þessa máls leggja áherzlu á það, að till. mín á þskj. 199, um að gefa frjálsan innflutning á byggingarefnum, verði samþ. Ég fæ ekki betur séð, fyrst á að stöðva það frv., sem liggur fyrir Ed., en hið minnsta, sem Alþ. geti þá gert, sé að samþykkja þessa till. með breytingu minni, en hún mundi þá hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta:

Till. til þál. um frjálsan innflutning á byggingarvörum o. fl.

Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að gefa nú þegar frjálsan innflutning á byggingarvörum og gefa frjálsa byggingu hæfilegra íbúðarhúsa, er menn byggja til eigin afnota, enn fremur byggingu útihúsa í sveitum og verbúða.“ — Og ég vil nú spyrja þá hv. flokka, sem kenna sig við frjálsa verzlun eða samvinnu: hvað sjá þeir eiginlega hættulegt í því, að þjóðin fái þetta frelsi, kynslóðin, sem tók við húsalausu landi um aldamótin síðustu, þar sem t. d. þjóð eins og Englendingar búa í aldagömlum húsum og alls auðs eru erfðir, en við höfum orðið að skapa öll okkar efnahagslegu verðmæti á einum aldarhelmingi? Hvers vegna í ósköpunum á nú að hindra þessa sköpun verðmæta, annaðhvort með vitlausu hagkerfi eða erlendu valdboði? Hvað mælir á móti því, að við getum verið frjálsir að því að byggja upp okkar lítt numda land? Við aukum þó ekki framleiðslu okkar og afköst með öðru móti, eins og sífellt er þó talað um, að þjóðin verði að gera. Og hvað er þessu eiginlega til fyrirstöðu? Þjóðin krefst þess nú að fá frjálsari hendur til að bjarga sér. Og ég vil eindregið skora á hv. alþm. að greiða atkv. með þessari brtt. og ganga þannig tryggilega frá því, að mál þetta sé afgr. eins og þjóðarvilji er fyrir.