14.02.1951
Sameinað þing: 42. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í D-deild Alþingistíðinda. (3941)

92. mál, skömmtun á byggingarvörum

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er leitt að þurfa að tala við ráðherrastólana í stað ráðh. sjálfra. Er það æði óviðkunnanlegt, að ríkisstj. skuli ekki vera viðstödd, nema þá til þess að halda ræðu eins og hæstv. landbrh. hélt hér áðan. Hann talaði um, að fyrir tveimur dögum hefði borizt skýrsla frá fjárhagsráði til ríkisstj. um að leyfa fjárfestingu fyrir 520 millj. kr. Hann hlýtur að vita, að frá þjóðhagslegu sjónarmiði er það tvennt ólíkt, erlent fé fengið að láni eða sem gjöf, eða mótvirðissjóður. Hann sagði, að 520 millj. kr. væri gífurleg fjárfesting. Það þýðir ekki að slá þessu fram. Ef þetta er allt erlent lán eða úr mótvirðissjóði, er það sama sem engin fjárfesting. Það má hafa eðlilega fjárfestingu fyrir utan þetta. Og þessi 520 millj. kr. fjárfesting gerði ekki meiri kröfur til íslenzks vinnuafls en svo, að svo og svo mikið af vinnufæru fólki á Íslandi mundi vera atvinnulaust. Það er hart, að maður í ráðherrastóli skuli leyfa sér að slá slíku fram. Ef Íslendingar fá lán til að kaupa fyrir þúsundir króna vélar, sem nota á næsta ár, er ekki einn eyrir lagður til hliðar af því, sem þjóðin vinnur. Það er ekki til neins að skella svona hlutum fram. Það verður að gera greinarmun á því, hvernig þetta er fengið. Að segja, að hér sé 520 millj. kr. fjárfesting, og gefa í skyn, að það séu einhver ósköp, er aðeins til að blekkja þingheim. Hæstv. ráðh. segir, að ekki standi á leyfum. Er það vitandi vits eða fyrir slóðaskap, að fjárhagsráð úthlutaði leyfum svo seint, að ekki var hægt að byggja neitt allt s. l. sumar? Veit ekki fjárhagsráð, að hús eru byggð á sumrin og svo unnið við þau að innan á veturna? Hæstv. landbrh. var að skella skuldinni á tíðarfarið og talaði drýgindalega. Veit hann ekki, hvernig tíðarfarið er hér á Íslandi, og að fjárhagsráð hefur eyðilagt heilt sumar, sem hefði mátt nota til bygginga? Það vantaði leyfi, en ríkisstj. gekk svo langt, að hún hindraði menn í að kaupa inn vörur. Það var hægt að kaupa inn fyrir milljónir króna, svo framarlega sem vörurnar hefðu verið látnar í skip, áður en leyfi frá fjárhagsráði fékkst. Það bannaði ríkisstj. Af heimsku eða öðrum ástæðum hefur landið verið skaðað um milljónir króna. Leyfin voru gefin út 6 mánuðum of seint. Svo talar hv. þm. Ísaf. um, að ríkisstj. þyrfti að hjálpa til að útvega hráefni. Vill ekki hæstv. ríkisstj. láta vera að skipta sér af þessum málum? Það er bezt að lofa Íslendingum að fá frelsi og bót, en ekki að eyðileggja fyrir þeim. Hæstv. ráðh. sagði, að menn töluðu um að nota fé úr mótvirðissjóði til bygginga. Ekki hef ég minnzt á það og enginn hér. Ég geri mér ekki þær hugmyndir, að Ameríkanar leyfi það. — Í sambandi við seðlaútgáfu vil ég leyfa mér að vitna í landsbankalögin, en viðvíkjandi þeim er mér kunnugt um, að er eitt af þeim tilfellum, sem ríkisstj. ruglar algerlega saman, og verð ég að rekja það nánar. Í landsbankalögunum er mælt fyrir um tryggingu á seðlum, og byggjast þau á þeim hugmyndum, að það séu frjáls viðskipti og að íslenzkir seðlar séu gjaldgengir hvar sem er erlendis, og til þess að þessir seðlar séu í fullu gildi eigi þjóðin að eiga svo og svo mikið gull, erlendan gjaldeyri eða erlend verðbréf, til þess að hægt sé að selja þessa íslenzku seðla hvar sem er í heiminum. Landsbankal. ganga út frá því, að það sé frjáls útflutningur og frjáls innflutningur, þ. e. að frjáls alþjóðaviðskipti séu með gjaldeyri hverrar þjóðar, sem lýtur frjálsu framboði og eftirspurn á heimsmarkaðinum. Þetta er ástandið, sem ríkti hér fram til ársins 1934, og er frjálst hagkerfi, þar sem um er að ræða frjálst framboð og eftirspurn á markaðinum um alla þessa hluti, og þá lýtur gengið líka þessum lögmálum, og þegar gengið markast á þennan hátt, þá er það Landsbankinn, sem skráir það. Þetta er það hugmyndakerfi, sem landsbankalögin, er hæstv. ráðh. las úr, byggjast á. En búum við enn við þetta hugmyndakerfi? Voru þessi lög framkvæmd, þegar hæstv. núv. landbrh. var forsrh. Íslands? Eða hefði Landsbankinn kannske verið kominn á hausinn, ef þessi lög hefðu verið framkvæmd árin 1936–1937? Því miður getur ráðherrastóllinn ekki svarað. Ég vildi bara minna hæstv. ráðh. á, ef hann væri hér núna, að meðan hann var í stjórn sem forsætisráðh., var gerbreytt um hagkerfi, þar sem útflutningur og innflutningur var „kontroleraður“ og íslenzka krónan ekki seljanleg erlendis og henni ekki heldur ætlað að vera opinber, gjaldgengur gjaldeyrir utan Íslands, þar sem íslenzka krónan hefur aðeins orðið skiptimynt hér innanlands og útgáfa íslenzkra seðla byggist á allt öðrum hugmyndum en þeim, sem landsbankalögin voru sniðin eftir á sínum tíma. Og það hefur verið gengið lengra í þessum efnum, íslenzka krónan er orðin lokuð mynt, sem aðeins á við okkar land og miðast við allt annað en staðizt getur á alþjóðagjaldeyrismarkaði. Þegar þannig er komið, hlítir útgáfa seðla og veiting lána allt öðrum lögmálum en þeim, sem liggja til grundvallar landsbankalögunum, og þá hljótum við að miða við það, og það er einmitt það, sem fjárhagsráðslögin gera. Þau fyrirskipa hagkerfi á Íslandi. Í 2. gr. fjárhagsráðslaganna segir, að starfsemin skuli miðast við, að framleiðslugetan sé nýtt til fulls og öllum landsmönnum tryggð næg atvinna. Þessi lagafyrirmæli eru óhugsandi nema með lokuðu hagkerfi, þ. e. hagkerfi, sem aðeins á við Ísland, og einungis er tekið tillit til Íslands til að ná því, sem felst í þessum fyrirmælum.

Það er ekki til neins fyrir hæstv. ríkisstjórn að blanda þessu tvennu saman og vitna til skiptis í landsbankalögin, — að þau eigi að gilda í sambandi við lántöku erlendis, — og hins vegar að halda öllum þeim höftum, sem búin eru að vera á Íslandi frá því árið 1934, og þeim fyrirmælum, sem fjárhagsráðslögin fara eftir. Það eru því blekkingar, sem hæstv. ráðherra hefur farið með í þessu efni. Ef hann ætlar að halda fast við það, sem hann sagði viðvíkjandi Landsbankanum og seðlaútgáfunni, þá verður hann alveg að breyta um hagkerfi, gefa frjálsan útflutning og innflutning á Íslandi og breyta þeim aðferðum, sem hæstv. ríkisstjórn hefur við að taka lán erlendis, til að tryggja gengi íslenzkrar myntar á erlendum markaði og gefa Íslendingum frjálst, hvar þeir taka lán erlendis, hve mikið og með hvaða skilmálum. Það er ekki til neins, þegar hæstv. ráðh. er samþykkur að viðhalda höftunum í þessum efnum, að vera að vitna til þess, að samkv. landsbankalögunum, sem miðast við frjálst hagkerfi, eigi þetta að vera svona og svona um seðlaútgáfuna. Ég vil taka það fram í sambandi við það, sem hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði sagt, að seðlarnir væru bara pappír, að seðlaútgáfuna á að miða við það, að allt vinnuafl, sem til er í landinu, sé hagnýtt. Þegar því marki er náð, og svo á að fara að gefa út seðla, jafnvel þó að það væru dollara- og pundsseðlar, þá eru þeir einskis virði vegna þess, að ekki er hægt að skapa meira en vinnuaflið getur hagnýtt.

Viðvíkjandi byggingarstarfseminni og því, að hæstv. ráðh. lét sem nóg væri gefið út af seðlum til að kaupa sement og annað byggingarefni frá útlöndum, ætti ég ekki að þurfa að ítreka, að byggingarkostnaðurinn miðast við innlent vinnuafl, tæki o. fl. Hvað snertir erlenda efnið, þá er það ekki nema 20–30% af verði bygginganna. Það, sem framleiðslan þarf, er að fá að vera í friði með þau verðmæti, sem hún skapar. Hún þarf að fá að selja þau og kaupa fyrir þau aftur, m. a. byggingarefni, og fá að flytja það inn. Það hefur verið talað um það hér, m. a. af hv. 3. landsk. þm., hvort það sé til gjaldeyrir til að kaupa byggingarefni. Ég vil segja honum, að það er hægt að skapa gjaldeyri, en ríkisstj. hefur bannað okkur það. Hún bannar okkur að skapa gjaldeyri til að kaupa byggingarefni.

Út af því, sem þm. Ísaf. sagði um, að byggingarefni hefði vantað, sérstaklega steypustyrktarjárn, er því til að svara, að það hefur legið hér fyrir í 4 mán. till. frá mér um útflutning á ísl. afurðum, þar sem m. a. er bent á, að hægt væri að fá steypustyrktarjárn fyrir ísl. freðfisk, en ísl. ríkisstjórnin hefur ekki viljað veita frelsi til þeirra viðskipta.

Hæstv. ráðh. var að tala um, að ég hefði verið með fjandskap við landbúnaðinn. Þarna talar hæstv. ráðh. alveg út í hött. Ég hélt hér ræðu í gær, en sagði ekki eitt orð á móti því að taka lán til landbúnaðarins, en það var það, sem ég átti að hafa fjandskapazt við. Það er leitt, að hæstv. ríkisstjórn skuli ekki treysta sér til að standa fyrir sínum málstað. En ég vonast til, að hæstv. forseti sjái um, að hæstv. ríkisstjórn verði látin leggja fram þessa áætlun, sem hæstv. ráðh. var að tala um. Hann lofaði, að hún yrði ekki afgr. nema með vilja Alþingis, og því eigum við heimtingu á að fá að sjá hana.