08.11.1950
Sameinað þing: 12. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í D-deild Alþingistíðinda. (3980)

73. mál, loftskeytastengurnar á Melunum í Reykjavík

Flm. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Mér er ánægja af að heyra álit hæstv. flugmrh. á því, að hann telur mikla nauðsyn á því að fá stengurnar fluttar, en ég er ekki eins ánægður með yfirlýsingu hæstv. fjmrh. um það, að ekki sé hugsanlegt að eyða 400 þús. kr. í þessu skyni. Það held ég að sé of sterkt til orða tekið, því að slíkt verður að fara eftir því, hvað mikið kann að vera í húfi. Það er að sjálfsögðu rétt hjá hæstv. fjmrh., að það getur vel verið, að flugráð hafi ekki skarað eins í þessu máli og nauðsynlegt hefur verið og ekki í samræmi við þær yfirlýsingar, sem það hefur gefið á nauðsyn þessa verks, en það er ég ekki maður til að dæma um.

Ég vil í sambandi við störf þeirrar n., sem skipuð var að tilhlutun fyrrv. símamálaráðh., JPálm, og minni, er ég var í sæti fjmrh., til þess að athuga þetta mál, aðeins koma að því, að hér ber eitthvað á milli mála. Hæstv. flugmrh. upplýsti, að hann hefði hinn 21. okt. fyrst fengið í hendur þetta álit, og eftir því að dæma hefði það ekki átt að liggja fyrir fyrr en nú í haust. Það rétta er, að álitsgerðin er dags. 24. febr. 1950 og þá undirskrifuð af fulltrúum flugráðs og landssímans. Þess vegna hlýtur hún að hafa legið í ráðun., þegar hæstv. flugmrh. tók við þessum störfum, og hafi hann ekki séð hana fyrr en 21. okt., þá hefur hún ekki verið tekin fram eða hann ekki spurt eftir henni. Það er því ekki tilfellið, að n. hafi verið eins lengi að störfum og hæstv. ráðh. gaf í skyn. Hún skilaði fljótt og vel áliti sínu hinn 24. febr. þ. á. Ég vildi láta þetta koma fram, því að ég tel ekki þörf á því og ekki rétt að n. liggi undir því ámæli, að hún hafi dólað við störf sín.

Ég er mjög ánægður yfir því, að hæstv. flugmrh. sé þess hvetjandi að málið verði sem fyrst leyst, og ég orka ekki að reisa rönd við því, að málið fari til fjvn. Ég vænti þess, að hv. fjvn. taki vel á þessu máli, og þó að ég ráði engu um það, hvort eigi að „korta“ framlög til flugvalla, vil ég benda á, að framlög til flugvallagerðar og til viðhalds flugvalla eru sízt of mikil. Það eru sífelldar kröfur um að láta flugvélar lenda víðs vegar úti um land, þar sem viðunandi lendingarskilyrði eru, og það eiga sér stað stórkostlegir flutningar loftleiðis á vörum á ýmsum stöðum á landinu, sem ekki hafa nein veruleg skilyrði fyrir öryggisflugþjónustuna. Þess vegna er mjög varasamt að skerða framlög til flugmálanna, sem á að verja til öryggisþjónustunnar og til að koma upp lýsingu til að leiðbeina flugvélum, sem lenda eða „taka af“ sem kallað er. Og þess vegna er mjög varasamt að skerða um of framlög til flugmálanna, að svo miklu leyti sem þeim er varið til þess að auka öryggið við flugþjónustuna og koma upp lýsingum til leiðbeiningar fyrir flugvélar. Ég held — þó að ekki sé rétt að blanda því um of inn í þetta mál —, að hraðinn í þeim efnum að þenja út viðkomustaðakerfið fyrir flugvélar hér víðs vegar um landið sé svo mikill, að öryggisráðstafanirnar í sambandi við flugþjónustuna séu ekki í samræmi við það. Þetta segi ég til ábendingar fyrir þá, sem ráða yfir flugmálunum, og tel þetta mjög athyglisvert atriði.

Það er svo hjá öðrum þjóðum, að það þarf að uppfylla alveg viss skilyrði í sambandi við flugvelli og slíkt, áður en flugvellir eða lendingarstaðir eru taldir viðkomuhæfir fyrir flugvélar. Ég er hræddur um, því miður, að í þessu efni séum við hér á landi nokkuð langt á eftir. Það er kannske eðlilegt, af því að hér eru flugsamgöngurnar miklu meir á byrjunarstigi heldur en annars staðar víða. En það má gjalda varhuga við því að nema um of við neglur sér fjárveitingar, sem ætlaðar eru til þess að bæta skilyrðin við flugið og auka öryggið á flugvöllunum. Ég held, að það verði aldrei of mikil áherzla lögð á það — og því vil ég beina sérstaklega til hæstv. flugmrh. til góðrar athugunar —, ég held, að aldrei verði of mikil áherzla lögð á það að hafa sem beztar öryggisráðstafanir á þeim stöðum, þar sem flugvélum er ætlað að koma við. En það er vitað um leið, að allar slíkar ráðstafanir kosta einhver fjárframlög. En þau fjárframlög eru þó harla lítilfjörleg í samanburði við það, sem í húfi er, þegar fólk er flutt hér í tugþúsundatali yfir árið víðs vegar út um landið í flugvélum. Og ef ég þekki hugarfar hv. alþm. rétt hvað snertir það að hlaupa undir bagga og varna slysum, þá held ég, að hæstv. ríkisstjórn væri alveg óhætt að treysta hinu háa Alþ. í því, að það yrði ekki eftir talið, að nokkru ríflegra fé væri veitt til flugvallaendurbóta og flugvallaöryggis heldur en nú hefur átt sér stað. Mér finnst sérstök ástæða til að taka þetta fram út af þeirri ábendingu, sem kom fram hjá hæstv. fjmrh., sem mér virtist gefa í skyn, að hann sæi helzt þá leið í þessu að taka fé í þennan kostnað af framlagi til annars kostnaðar við flugmálin. En það er dálítið sérstaklega ástatt í þessu máli, þar sem þessi stofnun, landssíminn, er annars vegar, sem á stengurnar og húsið, sem er á svipuðum stað og þær. Og þá er nokkuð eðlilegt, að flugráð hafi ekki sjálft viljað standa undir öllum kostnaði í þessum efnum. Annars veit ég ekki fyllilega um þeirra „mótiv“. En mér finnst svona af sjónhendingu mega skilja þetta þannig, að þar sem landssíminn er annars vegar og verið er að ræða um að nema burt það, sem er hans eign og hann hefur ekki not fyrir, en hann hefur annars staðar innréttingar á öðrum stað, sem hann getur notað og notar, þá sé ekki nema eðlilegt, að þeir, sem hafa fjárreiður flugmálanna með höndum og þurfa að taka fé til þeirra, vilji ekki taka af því fé, sem þeir hafa, til þess, sem þeim virðist vera ríkisins verk að gera.

Hér er um að ræða framkvæmd til slysavarna, til að forða — ja, við vitum ekki hverjum, en það má segja öllum almenningi frá slysum. Hvað voru það margir tugir þúsunda, sem fluttir voru í lofti hér á síðasta ári? Talan er svo geysileg, að maður trúir henni varla. Það var eitthvað upp undir 50 þús. manns, sem hafði verið flutt það ár með flugvélum hér á landi. Og langflest af því fólki var flutt einmitt hér um Reykjavíkurflugvöllinn. — Þegar á þetta er litið, þessa geysilegu umferð, og í annan stað á hitt, hver hætta getur stafað frá þessum stöngum, þá verð ég að segja það, að mér finnst það vera undarlegt, ef það þarf að kosta að fella niður eitthvað af nauðsynlegum framkvæmdum öðrum fyrir flugmálin, þó þessi hætta verði numin í burtu.