21.02.1951
Sameinað þing: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í D-deild Alþingistíðinda. (3994)

73. mál, loftskeytastengurnar á Melunum í Reykjavík

Gísli Jónsson:

Mér þykir rétt í sambandi við málið að leiðrétta nokkuð þann misskilning,. sem komið hefur fram hjá hv. þm. Vestm. í, sambandi við afskipti fjvn. af þessu máli. Ég veit, að hér mun vera eingöngu um misskilning að ræða, og þykir mér ekki rétt að láta honum ómótmælt.

Hv. þm. sagði, að sér þætti það hart, að mistekizt hefði að fá fjvn. til þess að sinna þessu erindi eða koma henni í skilning um það, hvað hér væri í húfi. Hann hefði fyrst sent erindi til n. 1949 sem þáv. flugmálaráðh. Þetta erindi er afgr. frá fjvn., og mér þykir rétt að lesa upp afgreiðsluna:

„Nefndin telur sig ekki vera aðila til að skera úr um það, hvort kostnaður við umræddan flutning loftskeytastanganna skuli greiddur af landssímanum eða af því fé, sem ríkissjóður leggur til rekstrar flugmála, né heldur til að segja til um það, hvort nauðsynlegt er að framkvæma breytinguna. Og með því að engar fjárhæðir eru teknar upp í fjárlagafrv., hvorki í sambandi við 3. gr. né í 13. gr. D., telur nefndin sér óviðkomandi að taka nokkra afstöðu til málsins á þessu stigi.“

Sannleikurinn er sá, að fjvn. vildi ekki fara að gerast dómari í þessari deilu, og það var að sjálfsögðu engan veginn hennar verk. Hún hefur sent þetta mál til þeirra aðila, sem áttu um það að dæma, og hún hefur síðan átt fund með þeim mönnum, en á þessu frumstigi var n. ekki að ýta neinu frá sér, en vildi ekki taka að sér að vera dómari og sízt af öllu yfir þáv. hæstv. flugmálaráðh., sem þá, eins og nú, gat gert út um þetta atriði í skjóli þess valds, sem hann hlaut að hafa. Svoleiðis að ég get ekki séð, að þessi afgreiðsla málsins hjá fjvn. hafi gefið tilefni til þessara ummæla, sem hér féllu. — Fjvn. fékk svo erindi frá hæstv. fyrrv. flugmálaráðh., þar sem hann fór fram á, að tekin væri upp á fjárl. fjárhæð til þess að flytja stengurnar. Nú var viðkomandi hæstv. ráðh. þá einnig fjmrh. og hafði þá náttúrlega enn þá sterkari aðstöðu til þess að taka inn á fjárlagafrv., sem þá var í hans höndum, sérstaka upphæð til þessara hluta. Nú er það vitað, að síðan hefur meðferð fjárl. og flugmálin komizt undir aðra ráðh., og það er rétt, að fjvn. hefur ekki beitt sér fyrir því, að tekið væri upp sérstakt framlag til þessa máls, vegna þess ágreinings, sem óleystur var á milli þessara tveggja stofnana. Það var þá upplýst, að einmitt flugmálastjóri, flugvallastjóri og flugráð hefðu yfir að ráða allverulega stórri upphæð og gætu látið þetta fé til þess að flytja stengurnar. En þetta er óleyst enn, vegna þess að þeir vilja ekki láta þetta af hendi, nema tryggja sér önnur réttindi, og það hlýtur að gefa fjvn. tilefni til að álykta, að þessir aðilar, sem annars vegar hafa fé til þess að flytja burt hættuna, muni einmitt fyrst láta undan, þegar um það er að ræða, að það á að krefja þá um þetta fé, vegna þess að það er engum kunnugra um það en þeim, hvað hættan er mikil. Og ef þeir meta hættuna minna en réttindin, sem þeir eiga að láta af hendi til þess að afnema hættuna, þá er ekki hægt að deila á fjvn., þó að hún hlaupi ekki í skarðið og leggi til, að ríkissjóður láti beint úr sínum vasa sömu upphæð, þegar svona stendur á í málinu. Þetta var fyrrv. flugmálaráðherra vel kunnugt um, að það var hægt að leysa málið á þennan hátt. — Nú segi ég ekki þessi orð til þess að undirstrika, að ég sé sömu skoðunar og þeir, sem ekki hafa viljað aðhafast í þessu máli. Ég álít, að það hefði átt að vera búið að flytja stengurnar fyrir löngu, og mig undrar því framkoma flugráðs og stj. í þessu máli. En fjvn. á enga sök á þeirri deilu. Ég benti þeim, sem mættu fyrir þessar stofnanir hjá fjvn. síðast, alveg skýrt á það, að þeir megi ekki hugsa sér, að þeir séu aðilar í þessu máli, flugvallastjóri annars vegar og póst- og símamálastjóri hins vegar. Þeir eiga ekki þetta fé. Hér er um að ræða stofnanir, þar sem þeir eru yfirmenn. En þeir virðast skoða þetta sem einkamál. Það er að sjálfsögðu ráðherra, sem á að vera dómari í þessu efni og fyrirskipa, hvernig þessi atriði skuli leyst, en láta ekki aðra aðila vera að deila, eins og þetta væri einkafyrirtæki þeirra. Og ráðh. hefur raunar lýst yfir, að hann muni taka í sínar hendur að ákveða þetta atriði, ef ekki næst samkomulag milli aðila. Fjvn. leit aldrei smáum augum á þetta mál, það er byggt á misskilningi, sem ég vildi hér með leiðrétta. Hv. þm. Vestm. sagði á þessa leið: Ég ætla, að nægileg ábending sé gefin á fundi n. um það, að þetta mál ætti ekki að vera framar fótbolti milli þessara aðila. Ég veit ekki, við hvað hv. þm. á með þessum orðum. Hann hefur sjálfur afrit af fundargerðinni frá þeim degi, sem hann fékk hjá n. Honum er sjálfsagt heimill aðgangur að öllum þeim gögnum, eins og hverjum öðrum þm. Og ég vildi óska eftir því, að ef hann álitur, að fundargerðin gefi hér eitthvert sérstakt tilefni til, þá skýri hann frá því með því að lesa upp fundargerðina. Ég finn ekki, að í fundargerðinni sé nein ábending um það, sem hér er rætt um. Síður en svo. Ég sé ekki ástæðu til að lesa fundargerðina upp, en vil láta koma fram, að ég tel þessi ummæli byggð á einhverjum misskilningi.

Ég vil að síðustu benda á, að ef samþ. er brtt. frá hv. þm., virðist mér hann þó loka augunum fyrir því, að með því er hann að nokkru leyti að taka málið út úr þeim farvegi, sem það hefur verið í; og gera að slysavarnamáli. Hann er að vísu að tryggja með því, ef hægt er, að ekki verði slys á flugvélum. En hann er óvitandi — og á það vil ég benda honum í allri vinsemd — að auka allverulega slysahættu þeirra, sem eru á sjó. Og það veit ég, að hv. þm. Vestm. vill sízt gera. Við höfum m. a. rætt þetta mál ýtarlega við póst- og símamálastjóra, sem heldur eindregið fram, að útilokað sé að flytja burt stengurnar af Melunum eða lækka þær, nema tryggja á annan hátt fulla slysavörn í sambandi við sjómennina á hafinu. Og ein meginástæða þess, að ekki er hægt að byrja á þessu verki fyrr en jörð er orðin þíð, er sú, að það er ekki hægt að leggja nauðsynlega símþræði til þeirra stöðva, sem eiga að halda við þessari þjónustu. Því að símþjónustan til verndar bátum á hafi úti má á engan hátt falla niður meðan er verið að rífa stengurnar burt.

Út af þeim orðum, sem féllu hjá hv. þm. í sambandi við þáltill. á þskj. 648 í fyrra, þá er henni útbýtt 5. maí 1950. Hún er send til fjvn. 11. maí, og við vitum báðir, að þá er komið svo langt fram á þingtíma, að ekki er hægt að afgr. málið, þar eð þingi er rétt að slíta. Það er unnið nótt og dag. M. a. af þessum annríkisástæðum hafði fjvn. ekki tekið afstöðu til málsins. Fjvn. hefur gert allt, sem í hennar valdi stóð, til þess að fá þá aðila, sem deila í þessu máli, til að sættast, sem eru flugvallastjóri annars vegar og póst- og símamálastjóri hins vegar. Hún hefur og lagt til í sínum till., að einnig ráðh. beiti sér fyrir því, að samkomulag náist. Og þegar nú er svo komið, að ráðh. hefur lýst yfir, að hann muni taka málið í sínar hendur, þá sé ég ekki annað en að málinu sé örugglega borgið með samþykkt till.