18.10.1950
Sameinað þing: 6. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í D-deild Alþingistíðinda. (4015)

25. mál, friðun rjúpu

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Ég ætla ekki að ræða þetta mál í sjálfu sér. Þetta er orðið að hitamáli, og ég held, að það sé þess vert að athuga það í nefnd, þótt afgreiðsla þess mundi dragast ögn við það.

Mín skoðun er sú, að veiðin ein hafi ekki eytt rjúpnastofninum, þótt hún hafi auðvitað getað átt sinn þátt í því. Ég álít athuganir Finns Guðmundssonar mjög merkilegar, og að mínum dómi er ekki hægt að slá neinu föstu um það fyrir fram, að niðurstaða þeirra athugana sé helber vitleysa.

Ég geri að tillögu minni, að málinu verði frestað og því vísað í nefnd. Það getur aldrei orkað verulegu, hvort það er afgreitt einni viku fyrr eða síðar.