22.11.1950
Sameinað þing: 17. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í D-deild Alþingistíðinda. (4044)

85. mál, dagskrárfé útvarpsins

Gísli Jónsson:

Mér þykir vænt um, að hæstv. ráðh. hefur ekki tekið neina ákvörðun um þetta fram hjá n.

Í sambandi við aukavinnuna þykir mér rétt að ræða nokkru nánar. Ég tel það vera að sniðganga gersamlega launalögin, þegar forstjóri einnar stofnunar fær ákveðna aukavinnu og borgun fyrir, hvort sem um er samið eða ekki. (Viðskmrh.: Á þm. við útvarpsstjóra?) Við hann og aðra. Forstjóra er í sjálfsvald sett, hve lengi hann vinnur. En þegar hann setur sjálfan sig á aukalaun fyrir aukavinnu, þá leiðir hann þann sið inn í stofnunina. Fyrir utan útvarpsstjóra hefur skrifstofustjóri meðal annars 3500 kr. fyrir aukavinnu. Hvort um þetta er samið, skal ég ekki segja. Til fulltrúa eru þannig greiddar 6 þús. kr., og til annars fulltrúa yfir 12 þús. kr. Þetta eru þeir menn, sem ráðnir eru hjá stofnuninni eftir launalögum. Vegna þess að þau laun þóttu of lág, var ákveðið að hækka þau fyrst um 10% og síðan um 20%, eins og tekið er upp sem sérstök upphæð, og síðan borga eftir vísitölu eins og hún er á hverjum tíma. Þetta var túlkað þannig vegna þess, að ýmsir menn hefðu of lítil laun. En þrátt fyrir þessa launahækkun eru margir menn í stofnuninni, sem hafa aukalaun. Hvað útvarpsstjóra snertir, hafði hann bara 1500 kr. á árinu 1949, svo að það er ekki sérstaklega upphæðin, sem um er að ræða, heldur fordæmið, þegar hann gengur á undan með klukku hringjandi og heimtandi launauppbætur. Við teljum þetta óheppilega stefnu í hvaða stofnun sem er. En úr því að minnzt er á póst og síma, vildi ég benda hæstv. ráðh. á, að við símann er samið við 53 menn um aukavinnu, eftir því sem gögn liggja fyrir hjá fjvn. Upphæðin er hvorki meira né minna en 200 þús. kr., og er þar í launahækkun, sem samið er um við skrifstofustjóra og hæstlaunaða embættismenn hjá símanum, bæði í Reykjavík og úti á landi. Ég tel þetta hreina sniðgöngu við gildandi launalög í landinu. Kannske rekur einhver nauðsyn til. En þegar svo er komið, er miklu, miklu betra að breyta launalögunum og láta þetta koma hreint fram. Ég get líka bent á, að hjá póstinum eru hvorki meira né minna en 263 þús. kr., sem fara á ýmsan hátt til ákveðinna launamanna. Meðal þeirra er einn mjög hátt settur maður, sem leiðir stofnunina með 4500 kr. umsömdum aukalaunum. Svona er þróunin víðar og víðar. Við einn hátt settan starfsmann í fræðslumálaskrifstofunni er samið um 6 þús. kr. fyrir aukavinnu. Þessi stefna er ákaflega óheilbrigð. Ég veit, að fjvn. mun, áður en gengið er frá fjárlögum, að minnsta kosti gera tilraun við ríkisstj. til að kippa þessu í lag. Ef það reynist ekki hægt, þá er sjálfsagt að breyta launalögunum á þessu þingi, svo að menn viti, hvað greiða á í laun.

Hæstv. ráðh. sagði, að byggingarsjóðurinn hefði ekki enn verið notaður í eyðslu. Ég hygg, að á árinu 1950 muni 60 krónurnar ekki nægja. (Viðskmrh.: Ég sagði það líka.) Þær nægðu ekki heldur 1949, en þá hafði útvarpið tekjur af viðtækjaverzluninni. Árið 1950 fara þær tekjur til þjóðleikhússins. Þess vegna mun nú árið 1950 verða að nota allar þessar 100 kr. til rekstrargjalds. Við höfum rætt ýtarlega við útvarpsstjóra í n., og hann hefur ekki séð sér fært að gera till. til okkar um lækkun neins af þessum gjaldaliðum.

Mér kom alveg á óvart það, sem hæsta. ráðh. sagði um viðtal sitt við settan póst- og símamálastjóra, því að hann var einnig hjá mér í dag og fullyrti, sem hann oft hefur áður gert, að útilokað væri að koma þessum útgjöldum niður nema að breyta reglugerð, því að meðan núverandi reglugerð stæði, yrði að greiða eftirvinnu. Og hann sagði meira: Að á meðan þessi reglugerð stæði, væri það svo, að mikið af fólki, sem þarna ynni, vænti þess að geta fengið eftirvinnu, og væri því eðlilegt, að þeirra afköst væru ekki eins mikil í dagvinnu, til þess að geta bætt sín kjör. Þess vegna er mikil ástæða til að taka alvarlega á þessu máli. Það er mannlegt, að maður, sem ekki þykist hafa of mikið, flýtir sér ekki í dagvinnu, til þess að geta átt von á því að bæta sér með eftirvinnu með 50% hærra kaupi, eða 100% hærra í næturvinnu. Ég tel ástæðu til að athuga þetta kerfi allt, — ekki aðeins í útvarpinu, — og ganga þá ekki fram hjá háskólanum. Ég ætla ekki að ræða þetta frekar nú, en er tilbúinn til þess hvenær sem er. Ég veit ekki betur en háskólinn sé eini skólinn í landinu, sem borgar 60 krónur fyrir stundina í aukakennslu til manna, sem eru ráðnir prófessorar. Er það 100% hærra en nokkur annar skóli greiðir.