06.12.1950
Sameinað þing: 23. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í D-deild Alþingistíðinda. (4058)

85. mál, dagskrárfé útvarpsins

Frsm. meiri hl. (Finnur Jónsson) :

Herra forseti. Sú till., sem hér er á dagskrá, gefur ekkert tilefni til þeirra umr., sem hér hafa farið fram, og ég veit, að hv. þm. sjá það, ef þeir vilja láta svo lítið að lesa hana í heild.

Hv. 2. þm. Reykv. (EOl) er nú farinn að tala upp úr svefni og tekur nú þá plötu, sem hann spilaði yfir okkur hér einhvern tíma á tímanum milli kl. 2–6 í nótt, og er ræða hans þessu máli algerlega óviðkomandi. Nú réðst hann mjög heiftarlega á 5 starfsmenn ríkisins, sem sitja í fjárhagsráði, og er hér enginn til andsvara fyrir þá, enda er það í rauninni algerlega óviðeigandi að ráðast svo á utanþm. sem hér hefur verið gert. Nú ætla ég alls ekki að taka upp nein andsvör fyrir fjárhagsráð, enda er það hér ekki á dagskrá. Menn getur sjálfsagt greint á um störf þessarar stofnunar eins og svo margra annarra, en þar sem hæstv. forsrh. er forsvarsmaður stofnunarinnar hér á Alþ., mun ég ekki fara frekar út í þetta mál, en vil aðeins geta þess, að mér finnast ummæli hv. 2. þm. Reykv. algerlega ósæmandi hér á Alþ.

Tveir hv. þm. hafa mótmælt þeirri till„ sem hér liggur fyrir. Fyrstur gerðist til þess hv. þm. V-Húnv. (SkG), sem auðsjáanlega hafði ekki lesið till., því að hann vill halda því fram, að með till. sé verið að taka málið úr höndum hæstv. ríkisstj. Till. fer hins vegar fram á, að ríkisstj. skipi 3 trúnaðarmenn. Málið væri m. ö. o. í höndum ríkisstj., og Alþ. væri ekki með samþykkt till. að taka málið í sínar hendur, — öðru nær.

Þá réðst hæstv. landbrh. (HermJ) mjög ákveðið gegn till. og varaði við að samþ. hana með nokkuð sterkum orðum. En þess ber að gæta, að till. er í tvennu lagi. Aðalefni till. er að fá athugun á fjármálum og rekstri útvarpsins með það fyrir augum að leiða í ljós, hvort ekki sé unnt að verja meira fé til útvarpsefnis af tekjum þess en nú á sér stað. — Þessi till. kom fram, áður en það leiðindaatvik kom fyrir, sem varð til þess, að hæstv. ríkisstj. sá sér þann kost vænstan að skipa rannsókn á útvarpið, og er till. því þeirri rannsókn óviðkomandi. Meiri hl. allshn. vildi fallast á, að sú athugun, sem till. ræðir um, yrði látin fara fram, en jafnframt yrði n., sem ætti að framkvæma hana, falið að athuga, hvort ekki væri hægt að koma við einhverjum sparnaði í rekstri útvarpsins. Nú var það upplýst við umr. hér um þetta mál, áður en það fór til n., að sú athugun, sem till. fjallar um, sé algerlega óviðkomandi þeirri réttarrannsókn, sem ríkisstj. hefur fyrirskipað á stjórn útvarpsins; hún hnígur eingöngu að rekstri þess og sérstaklega með tilliti til þess, hvort ekki sé hægt að verja meira fé til útvarpsefnis af tekjum þess en nú á sér stað, og þess vegna vænti ég þess, að hv. þm. sjái, að till. eins og hún liggur fyrir er ekki aðeins hættulaus og algerlega óviðkomandi þeirri réttarrannsókn, sem ég minntist á, heldur er sú athugun, sem hún fer fram á, sjálfsögð.

Ég vil því mega vænta þess, að hv. þm. samþ. till. eins og hún var fyrst lögð fram og með þeirri breyt., sem samkomulag varð um í meiri hl. allshn., þar sem lagt er til, að n. skuli jafnframt athuga, hvort unnt muni að koma við heildarsparnaði í rekstri útvarpsins.