15.11.1950
Sameinað þing: 13. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í D-deild Alþingistíðinda. (4106)

78. mál, vélbátaflotinn

Flm. (Finnur Jónsson):

Það var einmitt með þetta síðasta fyrir augum, sem ég lagði mikla áherzlu á það, að samtöl byrjuðu það allra fyrsta milli Landssambandsins og ríkisstj. Mér hefur verið ljóst eins og hæstv. atvmrh., að sjúkdómurinn er enn örðugri viðfangs en hann var í fyrra, og ég taldi þess vegna, að það mætti engan tíma missa um þetta. Ég átti sæti á þessum fulltrúaráðsfundi útvegsmanna, og ég taldi þess vegna nauðsynlegt, að samtöl byrjuðu um þetta strax. Hæstv. atvmrh. minntist á, að við hefðum rætt saman, og mér þykir vænt um að heyra, að það viðtal hefur orðið til þess, að ríkisstj. hefur gert sér ljóst, að það þyrfti að svara þessu bréfi og hverju þyrfti að svara. Nú hef ég heyrt fyrir nokkru, að það væri e. t. v. tilætlunin að setja fiskábyrgðarnefnd í þetta starf. En þegar ég flutti till., var mér ekki kunnugt um, að það væri ákveðið. Og a. m. k. vissi ég það, að þegar ég samdi till., var Landssamband ísl. útvegsmanna ekki búið að fá neina tilkynningu um þetta. L. Í. Ú. mun hafa fengið bréf um þetta dags. 6. nóv. að vísu. Það bréf hef ég ekki séð. En fyrsta vitneskjan, sem L. Í. Ú. mun hafa fengið um þetta, mun hafa verið sú, að einhvern tíma, sennilega á laugardaginn var, mun hæstv. atvmrh. hafa skýrt forstjóra L. Í. Ú. frá þessu. Þá var ég búinn að flytja þessa þáltill. hér á Alþ. og leggja hana inn til skráningar. — Nú er sjálfsagt engin ástæða til þess, að ég sé að deila um þetta. Ég get eftir atvikum unað við það, að ég hef með viðtölum mínum við hæstv. ríkisstjórn þó rumskað við henni með þessu, þó ég telji miður farið, að tíminn frá 24. okt. og til þessa dags hafi farið til ónýtis í þessu tilliti. Ef svo færi, að einhver árangur fengist út úr þessum samtölum, mundi þessi till. verða óþörf. En ef það sýnir sig á fundi L. Í. Ú., sem haldinn verður nú 20. nóv. n. k., að engin niðurstaða fæst, þá mundi vissulega verða þörf á því, að Alþ. tæki þetta mál upp til þeirrar athugunar, sem lagt er til með till.