15.11.1950
Sameinað þing: 13. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í D-deild Alþingistíðinda. (4108)

78. mál, vélbátaflotinn

Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða efnishlið málsins, því að ekki er tilefni til þess á þessu stigi, þ. e. a. s. ræða um það, hversu komið er fyrir bátaútveginum. Það er ekki fyrr en hér verða borin fram úrræði, ef frv. um slíkt verða lögð fyrir Alþ., að slíkar umr. þurfa að fara fram. Enda er nú öllum hv. þm. mjög kunnugt um, hversu komið er hag útvegsins. Ég segi ekki þetta af því, að það undri mig, þótt hv. form. sjútvn. Ed. og umboðsmaður einnar aðalverstöðvar landsins hefði um þetta nokkur ummæli, og því fremur mun hann hafa gert það sem hann mun nú skreppa til útlanda og ekki verða viðstaddur umr. um þessi efni kannske í tvær til þrjár vikur. Ég segi þetta af hinu, að ef einhverjir skyldu telja, að mér bæri að fara að gera hér grein fyrir afkomuhorfum útvegsins, þá lít ég öðrum augum á það á þessu stigi málsins.

Ég vil svo ekki taka upp umr. við hv. þm. Ísaf. um það, hvort vandinn, sem útgerðarmönnum ber að höndum, er meiri eða minni vegna aðgerða í sambandi við gengisfellinguna. Það mál hefur hann haft tækifæri til þess að ræða um oft. Og ég hef þekkt nokkrar greinar, bæði með nafni og nafnlausar, í Alþýðublaðinu, sem hann hefur skrifað eða látið skrifa. Og ég býst við, að landslýðurinn þekki skoðanir hans um þetta efni, og mínar skoðanir um það eru þekktar líka, svo að ég þarf ekki að tefja umr. hér með því að lýsa þessum skoðunum. — En ekki væri skemmtilegt að eiga nú við erfiðleika útvegsins með óbreyttu gengi. Ætli fiskverðið, sem hægt væri að greiða bátunum, ef gengið hefði ekki verið fellt, hefði ekki verið um 40 aurar?

En ég kann ekki vel við þennan tón í ræðum á milli okkar hv. þm. Ísaf. og mín. Hv. þm. Ísaf. veit, að ég ætlaði að gera þá uppástungu, að fiskábyrgðarnefnd yrði falið að athuga þetta mál, og hann spurði mig um, hvort það væri hyggilegast, og ég sagði þá, að mér fyndist það skynsamlegast. Hv. þm. Ísaf. getur misminnt um þetta, en mig misminnir ekki, að þetta samtal átti sér stað. Hitt getur verið, að það sé dottið úr hv. þm., en ég hygg nú, að hann minnist þessa. — Ég kunni ekki við þann blæ, sem hvíldi yfir skýrslu hans um það, að ég hefði ekki skýrt fyrr en á laugardaginn var frá fyrirætlun minni í þessu efni, en þá hafi ég skýrt forstjóra L. Í. Ú. frá þessu, að ég ætlaði að gera þetta. En á föstudaginn skýrði ég frá því í ræðu, og eftir það kom maður frá L. Í. Ú. og sagði, að þeir hefðu ekki fengið tilkynningu um þetta. En þá voru löngu farnar frá mér óskir bæði til fiskábyrgðarnefndar og eins fyrir nokkrum dögum til L. Í. Ú., um að ríkisstj. hefði tekið ákvörðun um að fela þetta fiskábyrgðarnefnd. Það var víst þann 10., sem þessi fundur var haldinn, en þann 6. þ. m. hef ég undirritað bréfið. En ég hef ekki lagt svo mikið upp úr þessu, af því að ég átti ekki von á, að hv. þm. Ísaf. legði svo mikið upp úr því, að fyrir hans samtöl hefði ríkisstj. rumskað og að hann gerði sér vonir um, að eitthvað megi rekja til hans, ef eitthvað kynni að hafast upp úr því, sem gert verður í þessum efnum. Ef ég ekki þekkti þennan hv. þm. svo vel, þá gæti manni dottið í hug, að aðaltilgangurinn í þessu sambandi væri ekki fyrir honum bjargráð fyrir útveginn, heldur hitt, hvort hægt væri að rekja til hans eitthvað jákvætt, sem gert væri í þessum efnum. Það er mikils virði, að menn vaxi af sínum gerðum. En í þessum efnum hygg ég, að það sé þó mests virði, að rétt úrræði finnist, hvort sem það verður rakið til samtala, sem hv. þm. Ísaf. hefur átt við mig, eða ekki.

Ég ætla ekki að þrefa um þetta. En ég vildi, að menn vissu hið sanna í málinu. Og ég hygg, að hv. þm. Ísaf. geti frestað þessari þáltill. þangað til hann sér, hvað úr þessum samtölum ríkisstj. og fiskábyrgðarnefndar verður. Og ef ekkert yrði úr þeim samtölum, þá gæti hann látið þetta koma til þingsins kasta.